Fiðlarinn Svipmynd úr uppfærslunni í Hljómahöllinni.
Fiðlarinn Svipmynd úr uppfærslunni í Hljómahöllinni. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Á föstudagskvöld í næstu viku, 15. nóvember, verður uppfærsla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Óperufélagsins Norðuróps á Fiðlaranum á þakinu frumsýnd.

Á föstudagskvöld í næstu viku, 15. nóvember, verður uppfærsla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Óperufélagsins Norðuróps á Fiðlaranum á þakinu frumsýnd. Söngleikurinn, eftir Jerry Boch við texta Sheldons Harnicks, er meðal þeirra söngleikja sem oftast hafa verið settir upp á heimsvísu og er þetta því einn vinsælasti og dáðasti söngleikur allra tíma.

Tónlistin í söngleiknum er létt og skemmtileg og meðal þekktra laga eru Ef ég væri ríkur og Sól rís, sól sest . „Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, hjartnæmur og alvarlegur, en mest af öllu fyndinn og stórskemmtilegur söngleikur með grípandi tónlist,“ segir í tilkynningu.

Söngleikurinn segir frá Tevje mjólkurpósti, fjölskyldu hans og samferðafólki í litla þorpinu Anatevka í Rússlandi árið 1905. Í Anatevka eru siðvenjur og hefðir fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur, sem þurfa eiginmenn. Jenta hjúskaparmiðlari gerir sitt besta til að það gangi eftir, en hlutirnir fara á annan veg þar sem dæturnar fara ekki eftir vali Jentu eða foreldra sinna.

Söngleikurinn verður fluttur í Stapa, Hljómahöll í Reykjanesbæ, í fullri leikhúsuppfærslu. Þar koma fram góðir og efnilegir söngvarar og hljóðfæraleikarar af Suðurnesjum, alls rúmlega 50 manns. Leikstjóri er Jóhann Smári Sævarsson og hljómsveitarstjóri Karen Janine Sturlaugsson.

Fyrirhugaðar eru þrjár sýningar. Frumsýningin er sem fyrr segir föstudaginn 15. nóvember. Svo eru sýnt á laugardeginum og sunnudeginum þar á eftir, 16. og 17. nóvember, og hefjast allar sýningarnar klukkan 19.