Sáttur Arnar Davíð Jónsson tryggði sér rúmlega þrjár milljónir íslenskra króna í verðlaunafé með frammistöðu sinni í Kúveit í gær.
Sáttur Arnar Davíð Jónsson tryggði sér rúmlega þrjár milljónir íslenskra króna í verðlaunafé með frammistöðu sinni í Kúveit í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keila Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Keila

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þetta er 130% það stærsta sem ég hef gert á ferlinum hingað til,“ sagði hinn 25 ára gamli Arnar Davíð Jónsson í samtali við Morgunblaðið eftir að hann hafnaði í öðru sæti á World-Bowling Tour sem fram fór í Kúveit en mótið er hluti af heimsmótaröðinni í keilu og einnig hluti af atvinnumannamótaröðinni í Bandaríkjunum. Arnar er staddur í Kúveit þar sem honum var boðið að keppa í úrslitum heimstúrsins, en honum var boðið að taka þátt í mótinu þar sem hann er í efsta sæti stigalista Evrópumótaraðarinnar.

Arnar er jafnframt fyrsti íslenski keiluspilarinn til þess að leika til úrslita á svo stóru móti.

Arnar tapaði fyrir Englendingnum Dominic Barrett í úrslitum í Kúveit, 2:0, en Barrett er einn af betri keiluspilurum heims í dag.

„Ég gæti ekki verið sáttari með úrslitaleikinn og mína frammistöðu. Dominic Barrett er einn af þeim bestu í heiminum í dag, ef ekki sá besti, og ég fór þess vegna með það að markmiði inn í viðureignina að reyna að njóta þess að vera þarna og hafa gaman af því sem ég var að gera. Að sjálfsögðu ætlaði ég að reyna að gera mitt allra besta til að vinna leikinn, annað hefði verið galið, en heilt yfir er ég mjög sáttur við þetta.“

Arnari dugði einn sigur í úrslitaleiknum en Barrett þurfti tvo. Barrett vann fyrsta leikinn nokkuð sannfærandi, í öðrum leiknum þurfti hann fellu í lokaskotinu til þess að leggja Arnar að velli og það tókst hjá Englendingnum.

„Eftir fyrri leikinn var ég rólegur og sagði við sjálfan mig að fyrst þetta gekk ekki í fyrsta leiknum þá bara myndum við reyna aftur í leik númer tvö. Mér tókst að setja pressu á hann undir lokin og hann þurfti fellu til þess að vinna mig að lokum. Að sama skapi var hann ekki að gera þetta í fyrsta skiptið og hann steig upp í restina og gerði það sem hann þurfti til að landa þessum sigri.“

Stefnir hátt í framtíðinni

Arnar viðurkennir að hann hafi fundið fyrir pressu í úrslitaleiknum en hann hafi reynt að láta það ekki hafa áhrif á sig.

„Að sjálfsögðu fann ég fyrir ákveðinni pressu. Þegar andstæðingurinn gerir mistök ertu meðvitaður um það að fella gæti klárað leikinn fyrir þig. Alveg eins og þegar þú sjálfur klikkar, þá er andstæðingurinn allt í einu kominn í lykilstöðu. Að sjálfsögðu reynir maður að hafa smá stjórn á taugunum en að sama skapi hef ég líka lært það að ef maður reynir að stjórna tilfinningunum og aðstæðunum um of þá lendir maður í vandræðum. Ég reyndi þess vegna eins og ég gat að leyfa tilfinningunum að fljóta og ég tapaði með einu stigi sem þýðir að ég spilaði ágætis leik.“

Arnar fer ekki tómhentur heim frá Kúveit en hann fékk rúmar þrjár milljónir íslenskra króna fyrir að hafna í öðru sæti. Hann ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

„Ég ætla mér stóra hluti og eitt framtíðarmarkmiðið er að verða fastagestur á PBA-mótunum á næstu árum. Næst á dagskrá er hins vegar mót í Álaborg í Danmörku sem er hluti af Evrópumótaröðinni en þar ætla ég að tryggja mér efsta sæti Evrópumótaraðarinnar á þessu tímabili,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið.