Ekki náði Ólafur Jóhannesson að halda það lengi út að vera í fríi frá knattspyrnuþjálfun. Eins og fram kemur í blaðinu var hann í gær ráðinn til Stjörnunnar þar sem hann og Rúnar Páll Sigmundsson munu stýra karlaliði félagsins í sameiningu.
Ekki náði Ólafur Jóhannesson að halda það lengi út að vera í fríi frá knattspyrnuþjálfun. Eins og fram kemur í blaðinu var hann í gær ráðinn til Stjörnunnar þar sem hann og Rúnar Páll Sigmundsson munu stýra karlaliði félagsins í sameiningu.

Ólafur má eiga að hann er allt annað en fyrirsjáanlegur. Maður var farinn að trúa því að hann tæki sér árs frí frá sparkinu þegar hann dúkkar óvænt upp í Garðabænum. Hann hefur sjálfsagt verið orðinn viðþolslaus eftir rúman mánuð frá íþróttinni.

Ekki ætti að skorta þekkingu í Garðabænum. Ólafur og Rúnar með karlaliðið, Kristján Guðmundsson með kvennaliðið og yfirþjálfari, og Ejub Purisevic í yngriflokkaþjálfun.

Þjálfaraferill Ólafs er mjög merkilegur á margan hátt. Hann er þekktastur í félagsliðaþjálfun fyrir að hafa lagt grunninn að miklu blómaskeiði FH-inga sem lengi voru eins og jójó á milli efstu og næstefstu deildar.

En Ólafur gerði einnig athyglisverða hluti fyrr á þjálfaraferlinum sem ekki eru mikið í umræðunni. Sem ungur spilandi þjálfari var hann nálægt því að gera FH að meisturum árið 1989. Annar ungur þjálfari, Guðjón Þórðarson hjá KA, hafði betur.

Ólafur fór með Skallagrím upp í efstu deild á tíunda áratugnum. Ég held að það megi kalla mikið afrek. Með fullri virðingu fyrir íþróttalífinu í Borgarnesi þá var knattspyrnuhefðin þar ekki rík. Tveimur árum áður en liðið fór upp í efstu deild hafði það tapað 5:0 á Ísafirði í c-deild. Í liðinu voru heimamenn og leikmenn sem höfðu fengið lítil tækifæri á Akranesi, í Vestmannaeyjum og Keflavík.