Barátta Dýrfinna Arnardóttir og Hallveig Jónsdóttir takast á á Ásvöllum.
Barátta Dýrfinna Arnardóttir og Hallveig Jónsdóttir takast á á Ásvöllum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Sigurganga Íslandsmeistara Vals heldur áfram í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildinni, en liðið vann öruggan sautján stiga sigur gegn Haukum á Ásvöllum í sjöttu umferð deildarinnar í gær, þrátt fyrir að Valskonur hafi verið án Helenu Sverrisdóttur í leiknum.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem Valskonur leiddu með einu stigi, 16:15, en undir lok annars leikhluta duttu Valskonur í gír á meðan lítið gekk upp hjá Haukstúlkum. Valskonur leiddu með 15 stigum í hálfleik og var munurinn á liðunum tuttugu stig eftir þriðja leikhluta, 63:43, Valskonum í vil. Haukum tókst ekki að laga stöðuna í fjórða leikhluta og Valskonur fögnuðu sigri.

Kiana Johnson var atkvæðamest í liði Vals með 21 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar og Hallveig Jónsdóttir skoraði fimmtán stig og tók sex fráköst. Hjá Haukum var Rósa Björk Pétursdóttir stigahæst með 18 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar.

Skallarnir á flugi

Þá jafnaði Skallagrímur Hauka að stigum eftir dramatískan sigur gegn Breiðabliki í Borgarnesi. Leiknum lauk með 60:48-sigri Skallagríms. Breiðablik leiddi með tíu stigum í hálfleik, 34:24, en Blikastúlkur áttu afleitan síðari hálfleik þar sem liðið skoraði einungis 14 stig og þar tapaðist leikurinn.

Keira Robinson fór mikinn í liði Skallagríms og skoraði 33 stig, tók níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Emilie Hesseldal átti einnig góðan leik og var með tvöfalda tvennu, 12 stig og sautján fráköst. Violet Morrow var atkvæðamest í liði Breiðabliks með 17 stig og tólf fráköst.

Í Grindavík hafði Keflavík betur gegn Grindavík í háspennuleik, 80:76. Sigurinn var kærkominn fyrir Keflavík sem hafði, fyrir leik gærdagsins, tapað síðustu tveimur leikjum sínum, en liðið er í fimmta sæti deildarinnar með fimm stig. Grindavík er sem fyrr án stiga á botni deildarinnar.