[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tískuhönnuðurinn Virgil Abloh er kominn aftur til vinnu hjá Louis Vuitton í París eftir að hafa farið í nokkurra mánaða veikindaleyfi. Hann vann yfir sig og þurfti pásu frá lífinu.

Marta María

mm@mbl.is

Abloh er einn af prímus mótorum tískuheimsins þessa dagana. Hann er eftirsóttur og sjarmerandi enda virðist allt verða að gulli í höndunum á honum. Hann er einnig stofnandi Off-White tískumerkisins sem notið hefur mikilla vinsælda. Abloh er bandarískur og fæddur 1980 en það var í raun ekki fyrr en 2009 sem hjólin fóru að snúast fyrir alvöru í lífi hans eða þegar hann fór að vinna með ítalska tískuhúsinu Fendi ásamt rapparanum West.

Síðan þá hefur leiðin bara legið upp á við og hefur hann farið í samstarf við fjölmörg fyrirtæki eins og IKEA.

En það þýðir víst lítið að vera vinsæll og eftirsóttur ef heilsan er ekki upp á sitt besta. Goslaust fólk flytur ekki fjöll eða brýtur niður múra.

Í ágúst sagði Abloh í samtali við Vogue að hann hefði farið til læknis því hann var eitthvað svo þreyttur og búinn á því. Læknirinn sagði að það gengi ekki upp og skikkaði hann í veikindaleyfi og að hann yrði að taka það rólega allavega næstu þrjá mánuðina.

Það er kannski ekkert skrýtið því það hefur mætt mikið á Abloh síðustu misseri því hann hefur bókstaflega verið á kafi í öllu. Það má heldur ekki gleyma því að mikilli velgengni fylgir álag og svo er ekki nóg að gera eitthvað eitt ógurlega vel, tískuheimur kallar stöðugt á eitthvað flottara, eftirsóttara og dýrara.

Á meðan Abloh var að reyna að ná upp orkunni aftur fór hann heim til sín til Chicago og reyndi að vinna eitthvað örlítið heiman frá sér. Þessa þrjá mánuði afbókaði hann alla viðburði til þess að auka líkur á því að orkuflæðið færi upp. Nú er hann hinsvegar mættur aftur í vinnuna og er svona líka spriklandi ferskur!