Helgi Kristjánsson
Helgi Kristjánsson
Eftir Helga Kristjánsson: "Vinnukonurnar lýstu þannig skepnu þessari að hún hefði verið á stærð við fjögurra vetra trippi."

Þórður í Gróttu

kemur skálmandi

innan af Nesi

á fyrstu fjöru

börnin hlaupa

á móti honum

og Guðrún litla

sem verður fyrst

hendist óðamála

og snöktandi

í stóra fangið

hans pabba.

Við fyrri skrif um sjóskrímslið í Gróttu studdist ég aðeins við knappa munnlega frásögn Guðrúnar Magneu ömmu minnar. Vissi ég þá ekki að til væri á prenti önnur heimild um þann atburð. Ég rakst síðan á ítarlega frásögn Sigurðar bróður hennar í ævisögu Hannesar Jónssonar kaupmanns. Hafði Hannes verið samskipa Sigurði á „Ásu gömlu“ og heyrði hann segja söguna í lúkarnum. Leyfi ég mér að birta hér frásögn Sigurðar Þórðarsonar frá Gróttu:

„Þetta var fyrrihluta vetrar, þegar ég var á níunda ári. Faðir minn var við bátasmíðar inni á Seltjarnarnesi og ekki aðrir heima en móðir mín með okkur börnin og tvær vinnukonur.

Í rökkrinu fóru vinnukonurnar út að taka inn þvott. En þær komu að vörmu spori með ópum, óhljóðum og gráti og gátu ekki komið upp nokkru orði þegar móðir mín spurði hvað gengi á. Við börnin urðum hrædd og fórum líka að orga. Óð þá móðir mín að þeim og spurði hvort þær ætluðu að gera sig og börnin vitlaus eða hvað þær hefðu séð. Sögðu þær þá að þær hefðu séð eitthvert skrímsli vera að róta í öskuhaugnum og hefði elt þær. Móðir mín snaraðist þegar fram og skellti bæjarhurðinni aftur og svo vel vildi til að hurðin skall í lás. Hurðin var úr sterkum viði, með gamaldags skrá, og stóð stór lykill í hurðinni að utanverðu.

Það mátti ekki seinna vera, því skepnan var nú komin að húshliðinni, skammt frá dyrunum. Bærinn var úr torfi og grjóti, ein hæð með lofti yfir, en timburhlið fram á hlaðið.

Nú reið hvert höggið af öðru á húshliðina, svo bærinn nötraði og undirgangur var mikill úti. Við börnin og vinnukonurnar vorum tryllt af hræðslu, en móðir mín þaggaði niður í okkur og þorðum við ekki annað en að hlýða. Ég var elstur af börnunum og kom móðir mín með týru og guðsorðabók og skipaði mér að lesa guðsorðið en ég sá ekkert fyrir tárunum. Höggin og undirgangurinn héldu lengi áfram og enginn þorði að koma út fyrir dyr fyrr en um hádegi daginn eftir.

Það var ljótt um að litast. Bátur, sem faðir minn hafði á stokkunum, var kurlaður í smásprek. Tjörukaggi, sem var úr sterkum viði, var stappaður í kássu. Öllu var umsnúið. Á hurðarlyklinum héngu löng hár, líkt og sjávargróður.

Vinnukonurnar lýstu þannig skepnu þessari að hún hefði verið á stærð við fjögurra vetra trippi, ljósleit, loðin og hefði hringlað í þegar hún hreyfðist. Hún hefði verið sein og luraleg í hreyfingum og því hefðu þær komist undan. Hausinn hefði verið eins og trjóna og þeim sýndist langur hali aftur úr skepnunni.“

Heimild: Hannes Jónsson: Hið guðdómlega sjónarspil. Endurminningar 1970.

Höfundur býr í Ólafsvík. Sandholt7@gmail.com

Höf.: Helga Kristjánsson