Léttleiki Að mati rýnis gerir Þórarinn Eldjárn heiðarlega tilraun til að varpa nýju ljósi á tilveruna og leggur fram verkfæri til frekari vangaveltna.
Léttleiki Að mati rýnis gerir Þórarinn Eldjárn heiðarlega tilraun til að varpa nýju ljósi á tilveruna og leggur fram verkfæri til frekari vangaveltna. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórarin Eldjárn. Vaka-Helgafell, 2019. Kilja, 74 bls.

Í nútímaljóðlist hafa ljóð sem fara eftir bragfræðilegum lögum og reglum orðið undir og frjálst form tekið yfirhöndina að einhverju leyti. Því er virkilega hressandi að lesa vísur Þórarins í bókinni Til í að vera til en þær líta ekki á formið sem hindrun heldur tækifæri.

Í hverri einustu vísu er að finna rím, stuðla og höfuðstafi og eru þær flestar fjögurra lína langar. Í örfáum orðum og enn færri línum nær Þórarinn að varpa ljósi á ótal atriði samtímans með lygilegri dýpt.

Málshátturinn „öllu gamni fylgir nokkur alvara“ smellpassar við Til í að vera til . Bæði kímni og léttleiki eru áberandi í vísum bókarinnar en umfjöllunarefnið er þó oft á tíðum alvarlegt og nær Þórarinn að stinga á kýlum samtímans með kitlandi húmor.

Vísurnar eru gagnrýnar, á sjálfar sig, tungumálið, ljóðlistina og samfélagið sem þær spretta upp úr. Þær vekja lesandann til umhugsunar um veröldina sem hann hrærist í án þess þó að bæta fargi á þungt mannshöfuðið. Vísurnar snerta eitthvað í lesandanum og losa örlítið um áhyggjur nútímamanneskjunnar með því að gera grín að þeim með ljúfum hætti.

Það eina sem stakk mig við lesturinn var samhengið á milli vísnanna. Stór hluti þeirra á vel heima í sama menginu þrátt fyrir að snerta á ólíkum flötum lífsins en stöku vísa virðist örlítið týnd í þessu sjötíu vísna kveri Þórarins.

Truflunin var þó ekki mikil og kann hún jafnvel að verða til þess að lesandinn rýni betur í ljóðin, taki bókina upp að nýju og reyni að átta sig á samhenginu. Er það ekki einmitt það sem við erum öll að reyna að gera, frá degi til dags? Að átta okkur á því hvernig lífið virkar, hvernig allt tengist, ef það gerir það þá? Þórarinn gerir alla vega heiðarlega tilraun til að varpa nýju ljósi á tilveruna og leggur hér fram verkfæri til frekari vangaveltna um hana. Hann varar þó við of miklum heilabrotum í ljóðinu „Um hugsun“.

Á ykkur ætla ég að demba

einu að hugsa‘ um:

Of mikil remba

endar í buxum.

Ragnhildur Þrastardóttir