Hatari Lætur sig ekki vanta á hátíðina í ár.
Hatari Lætur sig ekki vanta á hátíðina í ár. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Það sem er merkilegast við þessa hátíð er allur þessi fjöldi frábærs tónlistarfólks sem kemur fram í borginni á fjórum dögum.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Það sem er merkilegast við þessa hátíð er allur þessi fjöldi frábærs tónlistarfólks sem kemur fram í borginni á fjórum dögum. Þetta er góð blanda af íslenskum og erlendum böndum, sumir eru nýir í bransanum, aðrir lengra komnir og einhverjir mjög svo mikið frægir, eins og íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men,“ segir Anna Ásthildur Thorsteinsson, markaðsstjóri Airwaves-tónlistarhátíðarinnar sem var formlega sett í gær.

„Eins og alltaf er þessi tónlistarhátíð fyrst og fremst skemmtilegt partí, við leggjum mikið upp úr því að upplifun fólks sé skemmtileg, að fólk hafi gaman og njóti fjölbreyttrar tónlistar. Að okkar mati er allt þetta tónlistarfólk hluti af því besta sem er í gangi í dag í tónlistarbransanum. Af erlendu böndunum mætti nefna Mac DeMarco, Siobhan Wilson og The Howl & The Hum. Við erum auðvitað sérlega ánægð með að geta skartað hljómsveitinni Of Monsters and Men, því það er langt síðan þau komu fram hér heima, þau hafa verið upptekin við tónleikahald í útlöndum. Þau eru rosalega spennt að spila heima og þeim finnst gott að koma til Íslands, að koma til baka á heimavöllinn. Stelpurnar í Kælunni miklu hafa líka verið að gera virkilega góða hluti úti í hinum stóra heimi og alveg frábært að fá þær á hátíðina núna.“

Þegar Anna er spurð að því hvernig hlutfallið sé á milli íslenskra og erlendra hljómsveita á hátíðinni, segir hún að í ár séu fleiri íslensk bönd en erlend.

„Almennt séð eru færri tónleikar í ár en á fyrri hátíðum, en reynt er að gera meira úr hverjum viðburði fyrir sig. Á fyrri hátíðum var fólk að spila rosalega oft bæði á hátíðinni og á utandagskrártónleikum og það gat verið lýjandi, en núna er meira púður sett í færri tónleika. Eins og venjulega eru fjölmargir „off venue“- eða utanhátíðartónleikar sem eru öllum opnir, eða um hundrað og fimmtíu talsins. Þeir fóru af stað á mánudag, en utantónleikadagskráin er alltaf virkilega lifandi og skemmtileg,“ segir Anna og tekur fram að engir tónleikar verði í Hörpu að þessu sinni.

„Airwaves-tónleikarnir verða út um allan bæ, á Listasafninu, í Gamla bíói, á Gauknum, á Kexinu, í Iðnó, í Hressingarskálanum, á Hard Rock og í Fríkirkjunni, en þar er alltaf rosa skemmtilegt. Á laugardeginum, sem er stóri dagurinn, verða tónleikar í Hlíðarenda og þar koma meðal annars fram Of Monsters and Men,“ segir Anna og bætir við að ein nýjung á hátíðinni sem í boði er sé sú að tveir staðir gátu bókað þær hljómsveitir sem þeir vildu að spiluðu hjá sér. „Dillon og Kornhlaðan bjóða upp á slíka eigin óskadagskrá allan daginn fyrir þá sem hafa keypt sig inn á hátíðina.“

Til að koma á tengslum

Anna segir hátíðina vera ólíka mörgum öðrum tónlistarhátíðum að því leyti að ekki sé lagt upp úr því að reyna að flagga allra stærstu nöfnunum í bransanum.

„Við erum meira að selja hugmyndina um góða upplifun og fjölbreytni, skemmtilega nokkurra daga hátíð og síðast en ekki síst að gefa minni böndum og lítt frægum tækifæri til að koma fram. Þetta er svokölluð „Showcase“-hátíð þar sem vaxandi hljómsveitir og fólk í bransanum geta komið á tengslum. Við erum með ráðstefnu á hátíðinni til að laða að fagaðila, útgáfufyrirtæki, bókara, blaðamenn og fleiri, en fjöldi erlendra tónlistarblaðamanna mætir og kynnir sér hvað er að gerast í tónlistarsenunni og skrifar um það í alþjóðlega miðla um allan heim.“

Um 6.500 til 7.000 manns mæta á hátíðina í ár, bæði íslenskir og erlendir gestir, en hún er ævinlega vel sótt af erlendum gestum og margir þeirra koma aftur ár eftir ár.

„Enda ríkir áþreifanlega góð stemning í bænum þegar Airwaves-hátíðin stendur yfir og gangandi vegfarendur heyra tónlist óma úr öllum hornum. Þetta er mikil tónlistarveisla og allt þetta listafólk hefur verið á stífum æfingum undanfarið. Þetta verður geggjað gaman.“