Landspítalinn Stjórnendur reyna að hagræða í rekstri.
Landspítalinn Stjórnendur reyna að hagræða í rekstri. — Morgunblaðið/Ómar
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Niðurstaðan er skýr. Það þarf meira fjármagn til Landspítalans og það þýðir ekki að segja að það sé búið að setja svo mikið fjármagn þarna inn af því að verkefnum hefur fjölgað umtalsvert.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Niðurstaðan er skýr. Það þarf meira fjármagn til Landspítalans og það þýðir ekki að segja að það sé búið að setja svo mikið fjármagn þarna inn af því að verkefnum hefur fjölgað umtalsvert. Það er mönnunarvandi og hann verður ekki leystur nema með fjármagni og með því að skapa betri starfsaðstæður fyrir fólk sem vinnur vaktavinnu,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar. Farið var yfir málefni Landspítalans á fundi velferðarnefndar Alþingis í gærmorgun.

Á fund nefndarinnar komu Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, auk fulltrúa frá embætti landlæknis.

Öryggið ekki alveg tryggt

„Öryggið er ekki alveg tryggt,“ segir Helga Vala og vísar meðal annars til stöðunnar á bráðamóttökunni þar sem ákveðinn vandi liggur. Helga Vala bendir á að Landspítalinn sé í þeirri stöðu að hann geti ekki lokað fyrir þjónustu, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa gert, því hann er endastöð.

Hún bendir meðal annars á að fjöldi rýma á Landspítalanum fari undir einstaklinga sem þyrftu að komast í önnur úrræði en eru fastir á Landspítalanum. Þessu þyrfti að breyta.