Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), segist ekki fá séð að kjarasamningurinn sem fimm aðildarfélög BHM (BHM-5) gerðu við ríkið á dögunum geti hentað félagsmönnum FÍN.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), segist ekki fá séð að kjarasamningurinn sem fimm aðildarfélög BHM (BHM-5) gerðu við ríkið á dögunum geti hentað félagsmönnum FÍN. „Ég sé ekki að sá kjarasamningur myndi henta félagsmönnum FÍN og tel ekki að hann yrði samþykktur af mínum félagsmönnum þar sem hann myndi þýða kaupmáttarrýrnun og réttindaskerðingu fyrir félagsmenn FÍN og það get ég ekki boðið mínum félagsmönnum upp á,“ segir hún í svari við fyrirspurn.

FÍN er meðal átta aðildarfélaga BHM sem hafa haft samflot í yfirstandandi kjaraviðræðum við samninganefnd ríkisins. Sá hópur hefur nú stækkað því bæði Ljósmæðrafélag Íslands og Félag lífeindafræðinga hafa gengið til liðs við samflotið, sem gengur nú undir heitinu BHM-10. Standa félögin saman að kröfum á hendur samninganefnd ríkisins. Samningafundur fór fram milli BHM-10 og samninganefndar ríkisins í fyrradag en ekki varð breyting á stöðu kjaradeilunnar.

„Við höfum verið mjög skýr í okkar málflutningi að launahækkanir til okkar félagsmanna þurfa að skila sér í kaupmáttaraukningu og við höfnum krónutöluhækkunum,“ segir Maríanna um áhersluatriðin. „Stytting vinnuvikunnar þarf að vera án allra skerðinga á öðrum réttindum sem félagsmenn hafa nú þegar í kjarasamningi. Lágmarkslaun þurfa að ná 500.000 kr. fyrir félagsmann okkar sem hefur lokið fyrstu háskólagráðu, án persónubundinna þátta. Þetta eru þeir helstu þættir sem við erum að ræða við samningaborðið í dag,“ segir hún.

„Við höfum undanfarið verið að ræða við ríkið um það hvernig við stöndum að styttingu vinnuvikunnar og erum ekki ennþá komin með niðurstöðu í það mál. Það er margt óljóst um framkvæmdina fyrir dagvinnustéttir og umræða um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnustéttum er mjög stutt á veg komin.“