Sólveig Kristinsdóttir fæddist í Hveragerði 21. nóvember 1945. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21. október 2019.

Hún var dóttir hjónanna Eyjólfs Kristins Eyjólfssonar, f. 28.7. 1883, d. 27.7. 1970, og Þóru Lilju Jónsdóttur, f. 8.4. 1905, d. 26.12. 1970.

Systkini Sólveigar eru: 1) Guðrún Kristinsdóttir, f. 17.5. 1932, maki Hilmar Pétursson, f. 12.9. 1931, þau eiga þrjá syni. 2) Sigurjón Kristinsson, f. 19.6. 1944, d. 26.10. 2018, eftirlifandi maki Kristín Ögmundsdóttir, f. 6.3. 1945, þau eiga einn son. 3) Valdís Petrína Halldórsdóttir (sammæðra), f. 25.1. 1922, d. 26.8. 1935.

Sólveig giftist 26. desember 1965 Steinari Bjarnasyni, f. 12.10. 1945. Börn þeirra eru: 1) Brynjar Guðmundur Steinarsson, f. 4.11. 1965, maki Kolbrún Guðjónsdóttir, f. 16.11. 1970. Börn þeirra eru: Jón Steinar Brynjarsson, f. 17.10. 1994, Ástrós Brynjarsdóttir, f. 10.1. 1999, og Eyþór Ingi Brynjarsson, f. 4.6. 2005. 2) Lilja Kristrún Steinarsdóttir, f. 31.1. 1971. Börn hennar eru: Birkir Orri Viðarsson, f. 21.11. 2000, og Fjóla Margrét Viðarsdóttir, f. 16.1. 2007.

Sólveig eða Veiga eins og hún var kölluð flutti í Garðinn ásamt fjölskyldu sinni árið 1946 þegar hún var eins árs gömul og bjuggu þau í Lónshúsum. Þar bjó hún fram á unglingsaldur en flutti þá til Keflavíkur og bjó hjá systur sinni og mági. Fljótlega kynntist hún Steinari, æskuástinni og lífsförunaut, og hófu þau sambúð. Bjuggu þau í Keflavík alla sína tíð og núna síðast á Kirkjuvegi 1.

Eftir að grunnskóla lauk fór Sólveig út á vinnumarkaðinn. Hún stundaði ýmis störf um ævina. Hún vann sem fiskverkakona, við umönnunarstörf en að mestu vann hún við verslunarstörf. Hún hóf ung að starfa hjá Kaupfélagi Suðurnesja, seinna Samkaupum. Þar vann hún lengi og kynntist mörgum af sínum bestu vinum. Sólveig vann einnig heima og var heimavinnandi húsmóðir.

Útför Sólveigar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu

Elsku mamma mín, dýrmætasta konan í mínu lífi er fallin frá og það er svo ótrúlega sárt! Ég hef misst svo mikið og finnst ég svo tóm að innan.

Ég vona svo innilega að þér líði vel þar sem þú ert og þú finnir ekki til. Hafir fengið bót meina þinna því að horfa á þig svona veika er það erfiðasta sem ég hef gert.

Börnin mín hafa misst svo mikið, ömmu sem vildi allt fyrir þau gera. Ömmu sem var umhugað um að þeim liði vel og að þau væru hamingjusöm. Hún var stoltasta amma í heimi og barnabörnin voru þau allra flottustu í hennar augum. Bara svona eins og alvöru ömmur hugsa um ungana sína. Undanfarið höfum við setið og skoðað myndir og rifjað upp margar stundir. Eitt er víst, elsku mamma mín, að þau elskuðu þig mikið og minningin um góða ömmu mun lifa í hjörtum þeirra.

Hvað segir þú, Lilja mín? Svona byrjuðu ansi mörg símtöl okkar mæðgna en ég og mamma töluðum saman í síma oft á dag alla daga ársins og viðbrigðin mikil að núna sé það á enda. Ég vildi að við hefðum nýtt tímann okkar betur.

Ég vildi óska þess að ég hefði spurt þig að fleiri hlutum og að við hefðum gert meira saman. Ég vildi óska þess að þú værir hér enn en sama hversu mikið ég óska þess þá er það ekki að fara að rætast.

Þú munt ávallt fylgja mér og búa innra með mér því þú ert sú sem hefur kennt mér mest. Þú ert líka sú sem hefur staðið þéttast við bakið á mér, alltaf!

Þegar ég stóð á krossgötum í lífinu þá kallaðir þú mig til þín og sagðir mér ákveðna hluti sem ég ætti að gera. Þú sagðir mér þetta aftur eitt kvöldið á sjúkrahúsinu. Þú vildir að ég lofaði að fara eftir þessu. Lifa lífinu, fylgja hjartanu og gera allt sem mig langaði til. Vera Lilja, vera ég sjálf og blómstra eins og liljur gera. Ég lofa, mamma, að fara eftir því, ég lofa!

Ég leit eina lilju í holti,

Hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og björt og svo auðmjúk.

En blettinn sinn prýddi hún vel.

Ég veit það er úti um engi

mörg önnur sem glitrar og skín.

Ég þræti ekki um litinn né ljóma.

En liljan í holti er mín.

Þessi lilja er mín lifandi trú.

Þessi lilja er mín lifandi trú.

Hún er ljós mitt og von mín og yndi.

Þessi Lilja er mín lifandi trú.

(Þorsteinn Gíslason)

Hvíldu í friði, elsku mamma mín, ég elska þig og þú munt halda áfram að lifa í hjarta mínu.

Þín

Lilja.

Elsku amma mín, nú ertu farin frá okkur. Við tvö eigum endalaust af minningum saman. Ég fæddist á afmælisdaginn þinn 21. nóvember og þú fékkst mig í afmælisgjöf.

Það er ansi stór gjöf amma mín! Samband okkar var einstakt og þú varst eins og mamma mín númer tvö.

Ég hef misst mikið og finnst svo óendalega tómlegt án þín. Við töluðum saman nánast á hverjum degi um allt og ekkert. Þú elskaðir að tala. Þú passaðir alltaf mjög vel upp á mig og vildir alltaf vita hvar ég var. Mér þótti það alltaf bara svo krúttlegt. Sama hvert ég fór og hversu stutt það var þá hringdir þú og baðst mig að fara varlega og láta þig vita þegar ég væri kominn. Stundum gleymdi ég því og þá varstu svo hrædd um mig.

Elsku amma mín, þú varst alltaf svo stolt af öllu sem ég tók mér fyrir hendur, alveg sama hvort það var námið, golfið eða eitthvað annað. Þú varst minn mesti stuðningsmaður elsku amma mín.

Þú vildir alltaf vera fín og elskaðir föt og þú áttir nóg af þeim og varst alltaf í einhverju nýju. Þú vildir líka alltaf að ég væri fínn og lést mig alveg vita ef þér fannst ég ekki nógu flottur og ég komst ekki hjá því að laga það.

Ég sakna þín svo ofboðslega mikið, elsku amma mín, og finnst svo rosalega erfitt að hafa misst þig frá mér. Ég á engan annan eins og þig og það kemur enginn í staðinn. Ég vona samt svo innilega að þér líði miklu betur núna en síðustu mánuði því það var svo erfitt að horfa á þig svona veika og geta ekkert gert.

Takk fyrir allt elsku amma mín. Ég elska þig. Ég mun passa Fjólu og mömmu fyrir þig!

Þinn

Birkir Orri.

Elsku amma mín. Núna ertu farin frá okkur. Þú varst besta amma í heiminum. Svo góð, indæl og róleg við mig. Þú vildir alltaf allt fyrir mig gera og að ég passaði mig vel. Þú varst alltaf svo glöð og stolt af mér. Þú gerðir svo góðan mat og þær allra bestu sykruðu kartöflur sem ég hef smakkað. Þú veist ég elskaði þær!

Þú sagðir alltaf: „Fjóla, ætlar þú bara að borða allar kartöflurnar?“

Hver á núna að gera þær? Það var enginn eins góður að gera þær og þú.

Ég sakna þín mikið og við öll. Ég mun hugsa oft til þín og veit þú ert hjá mér og passar upp á mig, Bippa og mömmu.

Elsku besta amma,

nú hvílir þú.

Að sjá þig fella úr landi,

er nú rosa sárt.

(Úlfar Viktor Björnsson)

Þín

Fjóla Margrét.