Vonleysislegur „Hjörtur gjörsamlega geislar og hlutverkið er eins og hannað fyrir hann, hlutverk samkynhneigðrar, örlítið vonleysislegrar vampíru,“ segir um frammistöðu Hjartar Sævars Steinasonar í Þorsta.
Vonleysislegur „Hjörtur gjörsamlega geislar og hlutverkið er eins og hannað fyrir hann, hlutverk samkynhneigðrar, örlítið vonleysislegrar vampíru,“ segir um frammistöðu Hjartar Sævars Steinasonar í Þorsta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórar: Gaukur Úlfarsson og Steinþór Hróar Steinþórsson. Leikarar: Hjörtur Sævar Steinason, Hulda Lind Kristinsdóttir, Birgitta Jeanne Sigursteinsdóttir, Jens Jensson, Ester Sveinbjarnardóttir og Birna Halldórsdóttir. Ísland, 2019. 90 mínútur.

Kynóða vampíran Hjörtur hírist í Reykjavík og á engan að. Einn daginn sýnir manneskja, fíkniefnaneytandinn Hulda, vampírunni einhvers konar viðleitni til væntumþykju og verða þau óaðskiljanleg upp frá því. Skilin milli góðs og ills eru óljós og óöldin sem geisar í Reykjavík virðist geta læst sig í hvern sem er.

Handritið er einn af jákvæðum punktum kvikmyndarinnar en ýmislegt annað öskrar á áhorfandann að þarna sé um svokallaða B-mynd að ræða. Sem er í raun gott og gilt enda ekki að sjá að markmiðið sé annað en að skapa slíka kvikmynd. Þorsti var tekinn upp á ellefu dögum og hefur Steinþór Hróar Steinþórsson, einn af leikstjórum og framleiðendum kvikmyndarinnar, gefið út að hún hafi verið fáránlega ódýr.

Leikhópurinn X, hópur áhugaleikara sem höfðu fram til þessa aðallega tekið að sér hlutverk aukaleikara, stendur sig með ágætum í myndinni miðað við litla reynslu af stórum hlutverkum á hvíta tjaldinu.

Ef reynsluleysið er ekki dregið upp til afsökunar eru leikrænir tilburðir aðalleikaranna ekki upp á marga fiska. Í tilfelli Huldu, sem leikin er af Huldu Lind Kristinsdóttur, þá er leikur hennar svo ýktur og óraunverulegur að áhorfandinn á erfitt með að detta inn í myndina, er í raun með leiknum sífellt minntur á að um kvikmynd sé að ræða.

Eini aðalleikarinn sem stendur sig merkilega vel var vampíran Hjörtur sem leikin er af nafna sínum, Hirti Sævari Steinasyni. Hjörtur gjörsamlega geislar og hlutverkið er eins og hannað fyrir hann, hlutverk samkynhneigðrar, örlítið vonleysislegrar vampíru.

Nú er ég hvorki sérfræðingur í kvikmyndatöku né hljóðblöndun og ræði því um slíkt sem áhorfandi, ekki sem faglærður einstaklingur. Myndin er sannkölluð upplifun, bæði fyrir augu og eyru. Hún er mjög grafísk, ekki einungis vegna gróteskra líkamsleifa, heldur sömuleiðis vegna þess hvernig hún er tekin upp og lýst. Þessi atriði leika stórt hlutverk í myndinni en þau draga athygli áhorfandans að atriðum sem hann hefði annars ekki gefið gaum.

Kvikmyndunin ýkti upplifunina og gerði allt meira hrollvekjandi og það sama má segja um hljóðið. Hávært smjatt Jens lögregluþjóns í hvert sinn sem hann fékk sér nikótíntyggjó var merkilega áhrifaríkt sem og marrið í Hirti þegar hann hafði fundið sér ákjósanlega bráð.

Það er nauðsynlegt að taka fram að undirrituð emjaði af hlátri yfir myndinni og þurfti í sífellu að grípa fyrir augun þegar blóð-, þarma- og heilaslettur urðu henni um megn. Myndin er sannkallaður „splatter“ og er tilvalin fyrir þá sem vilja tárast af hlátri og hrista hausinn í sífellu yfir vitleysunni sem myndin hefur upp á að bjóða.

Þorsti er í raun virkilega ferskt framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar sem hefur varla séð annað eins en erfitt er að horfa framhjá því að þarna er ekki um gæðaefni að ræða.

Ragnhildur Þrastardóttir

Höf.: Ragnhildur Þrastardóttir