Þóra Ákadóttir
Þóra Ákadóttir
Eftir Þóru Ákadóttur: "Zonhreyfingin er alheimssamtök fagfólks og er leiðandi í víðtækum hjálpar- og stuðningsverkefnum fyrir konur hvarvetna þar sem þess gerist þörf."

Í dag, 8. nóvember 2019, fagnar Zontahreyfingin 100 ára afmæli sínu. En fyrir hvað stendur Zonta? Markmið Zonta, sem er alþjóðafélagsskapur fagfólks, er að vera leiðandi í víðtækum hjálpar- og stuðningsverkefnum fyrir konur hvarvetna þar sem þess er þörf. Zonta starfar bæði alþjóðlega, á landsvísu og í gegnum svæðisbundin verkefni sem miða að því að styrkja konur og efla lífsgæði þeirra. Í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar er stuðlað að verkefnum sem bæta heilsu og menntun kvenna um allan heim.

Í dag eru um 30.000 félagar í Zontasamtökunum í 67 löndum.

Zontasamtökin eru upprunnin í Bandaríkjunum, Buffalo í New York-ríki, 8. nóvember 1919 í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Á þessum tímum höfðu orðið miklar þjóðfélagsbreytingar, en á stríðsárunum fóru fleiri konur út á vinnumarkaðinn en áður hafði tíðkast. Þær tóku að sér stjórnunarstörf og viðskipti ýmiss konar sem karlar höfðu haft svo til einungis á höndum og þær stóðu ekki jafnfætis körlum. Blaðakonan Marian de Forest gerði sér grein fyrir þessu ójafnvægi og að það væri mikilvæg og sjálfsögð krafa kvenna að njóta sömu réttinda á vinnumarkaðnum og karlar. Þessi róttæka hugmynd hennar um jafnrétti var auðvitað óþekkt á þeim tíma og jafnvel áratugum á undan þeirri umræðu sem við þekkjum í dag og finnst sjálfsögð.

Vöxur hreyfingarinnar hélt áfram innan Bandaríkjanna. Það er síðan árið 1927 að hreyfingin breiddist út til Kanada og síðar, árið 1930, til Evrópu en þá varð Zontahreyfingin alþjóðleg. Í Evrópu var fyrsti klúbbur stofnaður í Vínarborg árið 1930. Árið 1935 voru fyrstu klúbbarnir stofnaðir á Norðurlöndum, annar í Kaupmannahöfn og hinn í Stokkhólmi. Zontahreyfingin kemur síðan til Íslands árið 1941 þegar Zontaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður. Nú í dag eru Zontaklúbbar á Íslandi 6 og í þeim eru 160 félagar.

Zontahreyfingin er skipt upp í vinnuumdæmi í heiminum, Ísland er 13. umdæmi með Noregi, Danmörku og Litháen. Það eru síðan svæðisstjórar þessara landa sem mynda stjórn yfir umdæminu og vinna að markmiðum Zontahreyfingarinnar með félögum klúbbanna.

Zonta-merkið samanstendur af fimm táknum Sioux-indjána sem saman mynda orðið ZONTA en það þýðir ljós, tryggð og samheldni, samábyrgð, skjól og vernd.

Alþjóðasamtök Zonta og klúbbar um víða veröld hafa valið verkefni til að vinna að hverju sinni. Alþjóðasamtökin velja verkefni annað hvert ár á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er á mismundandi stöðum í heiminum, 100 ára afmælisráðstefnan verður haldin í höfuðstöðvum Zontasamtakanna í Chicago í júlí á næsta ári.

Aðalverkefni samtakanna fram til ársins 2020 er að koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það er gleðilegt að minnast á það að UN Women á Íslandi stóð fyrir landssöfnun fyrir þessu málefni um síðuastu helgi. Zontahreyfingin er ein af samstafsaðilum Unicef, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Zontahreyfingin styrkir árlega konur til náms. Þessir styrkir eru veittir námskonum sem stunda nám í viðskiptum, almannatengslum, tæknigreinum og til kvenna sem lokið hafa námi í geimvísindum, flugvélaverkfræði og skyldum greinum.

Framtíðarsýn Zontasamtakanna er heimur þar sem réttindi kvenna eru viðurkennd sem mannréttindi og þar sem sérhver kona getur nýtt möguleika sína að eigin vild. Þar munu konur geta nýtt öll tækifæri sem þeim gefast og staðið jafnfætis körlum við ákvarðanatöku.

Í slíkum heimi mun engin kona þurfa að lifa í ótta við ofbeldi.

Í tilefni af 100 ára afmælinu heldur Zontasamband Íslands afmælisráðstefnu í dag í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur og í Borgum í Háskólanum á Akureyri. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ísland í heiminum, heimurinn á Íslandi.

Rástefnan hefst klukkan 15 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Höfundur er svæðisstjóri Zontasambands Íslands.

Höf.: Þóru Ákadóttur