Halla Kristjana Hallgrímsdóttir fæddist á Akureyri 1. maí 1925. Hún lést 28. október 2019 á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund.

Foreldrar hennar voru Ragnheiður Maren Söebech kaupmaður, f. 10.3. 1894, d. 22.7. 1977, og Hallgrímur Þorvaldsson bifreiðastjóri, f. 27.9. 1893, d. 8.12. 1925. Systur Höllu voru tvær; Sigríður Ingibjörg, f. 14.5. 1920, d. 15.1. 2008, og Karólína Friðrika, f. 26.7. 1921, d. 23.1. 2013.

Halla lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og BA-prófi í frönsku frá Háskóla Íslands.

Hún giftist þann 11. október 1952 Óla Kr. Guðmundssyni lækni, f. 27. mars 1925, d. 13. ágúst 1995. Dætur þeirra eru Sigríður, f. 18.1. 1953, maki Calum Campbell, f. 14.10. 1943; Þóra Karó Mörk, f. 18.12. 1953; Ragnheiður, f. 16.11. 1954; Guðný, f. 14.8. 1958, d. 20.3. 2018, eftirlifandi maki er Torsten Lindman, f. 1.6. 1956; Guðrún Edda, f. 5.8. 1960; Solveig Lilja, f. 26.4. 1962, maki Victor G. Cilia, f. 15.10. 1960; Ólöf Halla, f. 27.3. 1968, maki Pálmi Bernhardsson Linn, f. 15.5. 1972.

Barnabörn Höllu eru 18 og barnabarnabörnin 14.

Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 13.

Kjarninn, akkerið, lífið.

Nú hefur mamma kvatt, 94 ára að aldri. Mamma var kjarninn í fjölskyldunni sem hélt öllu gangandi. Það að koma heim úr skólanum og hún var ekki heima var erfitt því það var svo nauðsynlegt að tala við hana, fá ráð og hjálp eða bara spjalla um lífið og tilveruna. Heimilið virkaði tómt án hennar og nú upplifi ég tómleika.

Þegar ég fór t.d. í fyrsta frönskutíma minn og kom í öngum mínum heim settist mamma niður með mér og las í gegnum efnið með mér og útskýrði. Þá komst ég að því að hún kunni frönsku.

Hún lumaði á alls kyns hæfileikum og var alltaf tilbúin að hjálpa. Og það var ekki bara franska sem hún hjálpaði með, hún var viskubrunnur þegar kom að íslenskri málfræði. Reyndar gat maður komið með hvað sem er og fengið hjálp.

Hún var reglusöm og dugleg kona sem gaf mér svo mikið með mér inn í framtíðina. Það gilti það sama um heimilið og sumarbústaðinn, mömmu tókst að gera allt svo yndislegt og hlýlegt.

Ég lærði af henni mikilvægi þess að vera tilgengileg og hjálpleg og hef nýtt það í uppeldi barnanna minna. Þau minnast vel allra fjölskyldusamkvæmanna hjá ömmu með hlýju og gleði.

Hún var ótrúlega spræk kona mestan partinn af lífinu og bjargaði sér sjálf. Svo fór ellin að segja til sín og hún fór 93 ára gömul inn á Elliheimilið Grund. Þar var hún mjög ánægð með allt og þakklát fyrir alla góðu hjálpina sem hún fékk.

Ég kveð þig, elsku mamma mín, með söknuði og er svo þakklát fyrir að hafa notið þess að alast upp hjá þér. Ég elska þig.

Guðrún Edda Óladóttir.

Nú kveðjum við yndislega mömmu, ömmu og tengdamömmu, Höllu Kristjönu Hallgrímsdóttur. Söknuðurinn er mikill en við erum þakklát fyrir tímann sem við áttum með henni og yljum okkur við dýrmætar minningar. Hún var stoð og stytta, dásamleg mamma með hlýjan faðm. Hún var skemmtileg amma sem nennti að spila endalaust ólsen-ólsen og lönguvitleysu og kenndi lítilli ömmuskottu að leggja kapal af einstakri þolinmæði.

Hún var hvetjandi og óspör á hrós. Samgladdist innilega þegar vel gekk, var stoð og stytta í erfiðleikum.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt

sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt

hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

Þú veist að tímans köldu fjötra

enginn flýr

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Ólöf Halla, Dagbjört Lilja og Pálmi.

Halla móðursystir hefur lokið þessari jarðvist eftir gifturíkt líf. Hún ólst upp á Akureyri, fallegasta bæ landsins, við leik í Lystigarði og Gróðrarstöð. Hún gaf hröfnum, sem að launum fylgdu henni upp „Menntaveginn“ svokallaða í skólann, en alla ævi var hún mikill göngugarpur.

Ung veiktist hún af berklum og var á Kristneshæli í ár og leið þar vel að sögn. Hún hafði einkar fallega rithönd og talaði og ritaði gott mál.

Hlakkaði hún til að læra íslensku í HÍ en leist ekki á blikuna þegar hún leit yfir salinn, þéttsetinn svartklæddum körlum, hrökklaðist út og innritaði sig í ensku! Búandi á Gamla Garði, í fæði á Njálsgötu 72 og vinnandi sem blaðamaður í miðbænum á Vikunni rann henni til rifja gróður- og trjáleysið á göngu sinni. En síðar var gróðursett umtalsvert í Grímsnesi og að Löndum.

Á námsárum Óla leigðu þau kjallaraíbúð á Laugavegi 18 og deildu baðherbergi með annarri fjölskyldu, dæturnar þá orðnar þrjár.

Við tóku flutningar til Danmerkur og Svíþjóðar og ótal staða innanlands. Mamma vorkenndi Höllu litlu við kolavélina á Ströndum en hún lærði fljótt á gripinn.

Í gosinu bjuggu þau í Vestmannaeyjum og dásömuðu flutningamennina, fengu alla sína búslóð óskerta til lands, fyrir utan það sem brann í herbergi fermingarbarnsins Guðnýjar, sem látin er langt fyrir aldur fram.

Sama hvenær maður kom í heimsókn í Stigahlíðina var heimilið alltaf jafn tandurhreint og fínt og móttökurnar innilegar. Því kynntist ég á Blönduósi, þegar ég hljóp undir bagga með þeim um tíma, hef aldrei þvegið eins mörg gólf eða straujað jafn stóra stafla af bleium og líni í einum rykk.

Svo hneykslaður varð doktorinn við beiðni um verkjatöflu sem aldrei var til á heimilinu, eins og hefði ég beðið hann að eitra fyrir mig!

Upplestur á kvöldin úr skemmtilegum bókum eins og „Syndin er lævís og lipur“, á vísum og frásögur af skrítnum körlum bætti það upp við sokkastopp eða annað dútl. Langt genginn af Alzheimer mundi hann vísur úr uppvextinum, og lýsti í smáatriðum skjaldkirtilssaum sem hann gekk svo snilldarlega frá að vart sást. Enginn rúllupylsusaumur þar!

Vikulegar samverustundir og ökuferðir undanfarin ár á söfn, málverkasýningar, í hressandi sjávarloftið í Gróttufjöru eða bara út í búð, skilja eftir góðar minningar um frænku mína.

Við Ásgeir vottum yndislegum dætrum hennar og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Ólöf Þórey Haraldsdóttir.