,,Við gerð kjarasamninga milli félaga iðnaðarmanna og Landsvirkjunar var fylgt lífskjarasamningnum og kjarasamningum SA við stéttarfélög iðnaðarmanna frá 3. maí 2019. Samningarnir eru gerðir í náinni samvinnu við Samtök atvinnulífsins, sem Landsvirkjun er aðili að,“ segir í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn um nýjan kjarasamning iðnaðarmanna og LV.
Fram hefur komið í Morgunblaðinu að launahækkanir samningsins eru í krónutölum sem eru nokkru hærri en í samningum á almenna markaðinum en veita á hluta ábata af breyttu vinnufyrirkomulagi inn í launatöflu. Neðsti taxti launatöflunnar hækkar í upphafi úr 418.433 kr. í 464.920 kr. afturvirkt frá 1. apríl eða um 11,1% og í lok þriggja ára samningstíma verða lægstu launin komin í 537.920 kr. og hafa þá hækkað um 28,5%. Hæsti taxti eftir 7 ára starf hækkar í upphafi í 778.467 kr. eða um 7,7%.
„Grunnhækkun kauptaxta kjarasamninganna á samningstímanum er í samræmi við lífskjarasamninginn, þ.e. samtals kr. 90 þús. á samningstímanum,“ segir í svari Landsvirkjunar. „Tekin er upp tímaskrift m.v. svokallaðan „virkan vinnutíma“ sem felur í sér að greiðslur vegna kaffitíma eru felldar inn í tímakaup. Mánaðarlaun kjarasamnings breytast ekki við þá aðgerð. Í tengslum við breytingar á vinnufyrirkomulagi næsta vor er gert ráð fyrir styttingu vinnutíma um 65 mín. á viku, þ.e. úr 37 klst. og 5 mín. virkum í 36 virkar stundir.
Í samningnum er einnig kveðið á um endurskoðun á vinnufyrirkomulagi við rekstur aflstöðva fyrirtækisins sem hefur að mestu verið óbreytt um árabil. Sú endurskoðun mun leiða til lækkunar á skipulagðri yfirvinnu og hafa í för með sér lækkun launakostnaðar án þess að það hafi áhrif á rekstur aflstöðvanna. Breytingin mun hafa í för með sér lækkun heildarlauna og er fyrirtækið tilbúið að bæta þeim það að hluta með því að veita hluta af ábatanum inn í kauptaxta,“ segir þar. Skipulag vinnu á aflstöðvum hafi falið í sér mikla fasta yfirvinnu sem krefjist mikillar fjarveru frá heimili. Áhersla Landsvirkjunar á fjölskylduvænan vinnustað og þróun starfa komi fram með virkum hætti í samningnum með fyrirhuguðum breytingum á vinnufyrirkomulagi.