Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar til næstu ára var lagt fram í vikunni. Í því kemur fram að ætlunin er að herða enn frekar á skattaklónni gagnvart borgarbúum.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar til næstu ára var lagt fram í vikunni. Í því kemur fram að ætlunin er að herða enn frekar á skattaklónni gagnvart borgarbúum.

Í fyrra námu skatttekjur borgarinnar 92,7 milljörðum króna, í ár er því spáð að þær nemi 100,8 milljörðum og á næsta ári gerir áætlun ráð fyrir að skatttekjur nemi 105,5 milljörðum króna.

Þetta þýðir að skattar á borgarbúa hækka á tveimur árum um nær 13 milljarða króna eða um 14%.

Borgarstjóri telur að áætlaður 2,5 milljarða króna hagnaður á næsta ári sé góður árangur, en þó er hann rúmum tveimur milljörðum minni en í fyrra. Það gerist þrátt fyrir þrettán milljarða hækkun skatta. En borgarstjóri, sem nýtur stórhækkaðra skatttekna, talar um samdrátt í efnahagslífinu sem hann mæti „með traustri fjármálastjórn“.

Oddviti sjálfstæðismanna bendir á hinn bóginn á að það sé „verið að skuldsetja borgina allt kjörtímabilið og öll hlutföll eru til hækkunar skulda“. Hann bætir við: „Sé horft til þeirrar áætlunar sem gerð var fyrir kosningar má sjá að nú er gert ráð fyrir að samstæða borgarinnar skuldi 64 milljörðum meira í lok kjörtímabilsins en sagt var fyrir kosningar.“

Er þessi skuldasöfnun samhliða stórkostlegum skattahækkunum til marks um „trausta fjármálastjórn“?