Elís Pétur Sigurðsson, eða Elli P., fæddist í Gautavík á Berufjarðarströnd 19. mars 1930. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð Akureyri 16. október 2019.

Foreldrar hans voru Sigurður Stefánsson, f. 1888, frá Ósi í Breiðdal, og Sigríður Stefánsdóttir, f. 1896, frá Núpshjáleigu. Bróðir Ella var Stefán, f. 1922. Hann lést 12 ára gamall árið 1934. Fjölskyldan flutti frá Gautavík í Kross á Berufjarðarströnd árið 1934 og þar bjó Elli með foreldrum sínum til 17 ára aldurs.

Elli kvæntist 1960 Fjólu Ákadóttur, f. 1940, dóttur Áslaugar Jónsdóttur og Áka Kristjánssonar frá Brekku á Djúpavogi, næstyngst fjórtán systkina.

Börn Fjólu og Ella eru: Áki Elísson, f. 15. febrúar 1958, dáinn 12. mars 1994, hann var kvæntur Bryndísi Karlsdóttur, búsett á Akureyri, eignuðust þau saman fjögur börn. Sigurður Elísson, f. 21. október 1960, býr á Breiðdalsvík með Jóhönnu Guðnadóttur og eiga tvö börn. Áslaug Elísdóttir, f. 14. ágúst 1964, gift Birni Hermannssyni, búsett í Reykjavík og eiga tvo syni. Erla Vala Elísdóttir, f. 26. apríl 1971, á tvö börn, hún er búsett í Danmörku, Stefanía Fjóla Elísdóttir, f. 26. apríl 1971, á tvö börn og býr með Alejandro Gullien Mellado á Akureyri, Ragna Valdís Elísdóttir, 26. janúar 1979, á fjögur börn, býr á Akureyri og er í sambúð með Herberti Harðarsyni. Elís Pétur Elísson, f. 2. apríl 1981, á tvö börn og býr á Breiðdalsvík með Helgu Rakel Arnardóttur. Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin eru 15.

Elli P. var vörubifreiðarstjóri og kom víða við í atvinnurekstri á Austurlandi. Hann átti og rak steypustöðina E.P.S. Vallá á Breiðdalsvík og steypti upp fjölda mannvirkja á Austurfjörðum. Þá tók hann virkan þátt í félagsstarfi, var m.a. stofnfélagi Lionsklúbbsins Svans á Breiðdalssvík. Virkur félagi í Hollvinafélagi Húna II og í forystu fyrir að koma á verkefninu Frá öngli í maga þar sem öllum 6. bekkjar grunnskólabörnum er boðið að taka þátt. Elli beitti sér í baráttu gegn útbreiðslu fíkniefna, m.a. með því að þjálfun leitarhunda yrði efld á Austurlandi og á Akureyri. Elli átti bátinn Áka og rak ferðaþjónustufyrirtæki kringum það frá Ellahöfn á Breiðdalsvík. Hann tók einnig virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara á Breiðdalsvík og Akureyri.

Elís P. verður jarðsunginn frá Glerárkirkju Akureyri í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 13.30.

Mig langar til að minnast tengdaföður míns Ella P. eins og hann var oftast kallaður. Hann lést á Dvalarheimilinu Hlíð 16. október, hvíldinni feginn, enda þreyttur á sál og líkama.

Elli var ósérhlífinn dugnaðarforkur. Hann fór sjaldnast troðnar slóðir hvorki í leik né starfi, svo fjölskyldunni þótti stundum nóg um.

Með einstakri þrautseigju tókst honum þó oftast ætlunarverk sitt. Sem dæmi um hvað hann var fastur fyrir þurfti að taka fingur af honum vegna þrálátrar sýkingar. Hann sagði lækninum að hann vildi eiga puttann, en fékk neitun. En Elli P. lét sig ekki og heim fór hann með fingurinn, sem fylgir honum nú eins og hann ætlaði sér.

Hann var mjög hjálpsamur og ekki skipti alltaf máli þó að hann fengi lítið greitt fyrir vinnu sína. Elli var oft mikið að heiman bæði vegna vinnu og ýmissa félagsstarfa, svo að mikið mæddi á Fjólu með stórt heimili.

Þegar Elli bjó fyrir austan var honum mjög umhugað að gera sem mest fyrir byggðarlagið og gladdi það hann mikið hvað Elís Pétur, yngsti sonur þeirra Fjólu, hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu á Breiðdalsvík. Berufjörðurinn og æskuminningarnar frá Krossi þar sem hann ólst upp voru honum mjög kærar og naut hann þess að segja sögur frá þeim tíma.

Það var Ella eins og okkur öllum í fjölskyldunni mikið áfall þegar Áki maðurinn minn féll frá 36 ára eftir stutt og erfið veikindi. Átti hann alla tíð mjög erfitt með að sætta sig við það. Elli var tíður gestur á heimili okkar í Borgarsíðunni og alltaf var hann boðinn og búinn að aðstoða mig við ýmislegt sem til féll. Eftir að þau Fjóla fluttu til Akureyrar leit hann oft við og sagðist vera að drepa tímann, enda átti aðgerðaleysi illa við hann.

Fyrir tæpum tveimur árum fluttu þau Fjóla á Dvalarheimilið Hlíð. Elli var mjög þakklátur fyrir góða umönnun og þar átti hann friðsælt ævikvöld.

Elli minn, við fjölskyldan þökkum þér fyrir allt. Nú sefur þú svefninum langa við hlið Áka okkar.

Minning þín lifir.

Þín tengdadóttir,

Bryndís.