Einar Pálsson fæddist 22. júní 1940 í Varmadal á Rangárvöllum. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 29. október 2019.

Kjörforeldrar Einars voru hjónin Hjörleifur Pálsson (1903-1980) og Unnur Jónsdóttir (1901-1980). Móðir Einars var Þorbjörg Hallmannsdóttir (1916-2003) og faðir hans var Páll Pálsson (1902-1990).

Albróðir Einars er Reynir Pálsson (1941) og uppeldisbróðir er Rósant Hjörleifsson (1933).

Systkini Einars í móðurætt eru: Sigurður Ingi (1944), Hallmann Ágúst (1945), Jónína (1947-2003), Björg (1950), Garðar (1952-2018), Óskar Þór (1954) og Jón Ólafur (1955).

Systkini Einars í föðurætt eru: Guðríður Ásta Esther (1951), Halldór Árni (1952), Hjörleifur (1955) og Páll Sölvi (1957-2003).

Þann 24. desember 1967 kvæntist Einar Ólínu Steindórsdóttur (1928-1983), sem var ávallt kölluð Gógó. Þau eignuðust tvær dætur: 1) Gerður Engilrós Einarsdóttir (1968), sambýlismaður Guðmundur Páll Óskarsson (1969). Þeirra börn eru: a) Einar Óli (1998), b) Helgi Hrannar (2002) og c) Elísa Guðrún (2005). 2) Kristrún Einarsdóttir (1969), sambýlismaður Gunnar Valur Steindórsson (1971). Þeirra dætur eru: a) Aníta Dagný (1998), b) Eva Marín (2000) og c) Brynja Mekkín (2000).

Börn Gógóar frá fyrra hjónabandi eru: 1) Einar Kristján (1949), 2) Erla Kristbjörg (1952) og 3) Guðmundur Kristinn (1955). Þeirra börn eru átta og barnabörnin 17.

Fyrstu hjúskaparár Einars og Gógóar voru á Grettisgötu 31 en árið 1983 fluttu þau í Beykihlíð 31, Reykjavík. Eftir andlát Gógóar hélt Einar heimili með dætrum sínum þar til þær stofnuðu sín eigin heimili. Eftir að dæturnar fluttu að heiman hélt Einar eigið heimili en var í sambúð með Önnu Vilhjálmsdóttur í um 10 ára skeið. Síðast bjó Einar í Furugerði 1.

Einar ólst upp í Arnarbæli í Ölfusi og gekk í Barnaskólann í Hveragerði. Hann fluttist ásamt kjörforeldrum sínum til Reykjavíkur upp úr 1960.

Einar vann á sínum yngri árum hjá RARIK við línulagnir um allt land þar sem hann kynntist vel íslensku landslagi og var því ávallt glöggur á staðhætti landsins. Hann var bifreiðarstjóri hjá Bæjarleiðum til fjölmargra ára og um nokkurra ára skeið hjá Strætó.

Helstu áhugamál Einars voru bridge, skák, veiði og íþróttir. Hann keppti í bridge fyrir hönd Bæjarleiða í stöðvarkeppnum, tók þátt í Norðurlandamóti strætóbílstjóra í skák.

Einar bjó vel að íþróttaiðkun sinni, var heilsuhraustur alla ævi þangað til hann greindist með krabbamein.

Útför Einars fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Mikið eigum við öll sem stóðum þér næst eftir að sakna þín. Það er svo skrítið og óraunverulegt að kveðja.

Trúum varla að þú sért farinn og komir ekki framar í heimsókn til að ræða allt og ekkert og þrasa við okkur um þjóðmálin og nýjustu rannsóknir sérfræðinga út um allan heim. Elsku pabbi var falleg og góð sál sem hafði sterkar skoðanir og gat verið þverari en margir.

Frekar hlédrægur og setti sjálfan sig alltaf í annað sætið og vildi láta hafa lítið fyrir sér. Hann var handlaginn snillingur sem gat lagað og gert við svo til allt, nægjusamur og nýtinn, mikið snyrtimenni og algjör töffari. Hafði mikinn áhuga á fótbolta og handbolta og fylgdist alltaf vel með íþróttum og íslensku íþróttafólki og var einstaklega duglegur að mæta á íþróttaleiki afabarnanna í gegnum tíðina.

Elsku pabbi, við hugsum til þín með þakklæti og hlýju því betri pabba var vart hægt að hugsa sér. Mikill fjölskyldumaður sem sá einstaklega vel um sína, var fórnfús og sérlega bóngóður og vildi allt fyrir alla gera. Hann sá ekki sólina fyrir barnabörnunum og hugsaði einstaklega vel um þeirra hag.

Söknuður, sorg og sársauki einkenna líf okkar sem eftir sitjum en um leið mikið þakklæti, auðmýkt og umhyggja. Við geymum fallegu minningu pabba í hjartanu og huggum okkur við að hann sé kominn á góðan stað; staðinn hennar mömmu.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu,

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo gestrisinn, einlægur og hlýr.

En örlög þín ráðin - mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Kristrún og Gerður.

Elsku afi, okkar besti vinur.

Það sem við munum sakna þín. Þakka þér fyrir allt og allar góðu minningarnar sem munu lifa áfram í hjörtum okkar. Við vitum að þú munt vaka yfir okkur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Þínar afastelpur,

Aníta Dagný, Eva Marín

og Brynja Mekkín.

Elsku besti afi okkar, takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Einar Óli, Helgi Hrannar

og Elísa Guðrún.

Öll við færum, elsku vinur,

ástar þökk á kveðjustund.

Gleði veitir grátnu hjarta.

guðleg von um eftirfund.

Drottinn Jesú, sólin sanna,

sigrað hefur dauða og gröf.

Að hafa átt þig ætíð verður,

okkur dýrmæt lífsins gjöf.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Í dag kveð ég bróður minn með söknuð í hjarta og þakka af heilum hug þær stundir sem við áttum saman.

Fjölskyldunni allri sendum við Þórdís innilegar samúðarkveðjur.

Jón Ólafur og Þórdís.