Kennarar og foreldrar sem sitja námskeið og kynningar um Vináttu – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti eru spurðir hvað þeir telji mikilvægast að börn upplifi og læri í skólanum sínum. Svörin eru öll á sömu leið, hvort sem um er að ræða kennara eða leiðbeinendur í leik- eða grunnskólum eða foreldra barna á mismunandi aldri. Að barninu líði vel, það eigi vin, barnið finni fyrir öryggi og það fái góða sjálfsmynd eru svörin sem alltaf koma.
Og af hverju er það svo?
Við höfum alla tíð haft þörf fyrir að tilheyra samfélaginu og vera samþykkt af eigin verðleikum. Þegar mannkynið var frumstæðara var það lífsspursmál að vera hluti af hópi annars fólks og ef einhver var útilokaður var óvíst að hann myndi lifa af. Í dag er það ef til vill ekki spurning um líf eða dauða, og þó. Þegar afleiðingar útilokunar, sem er ein birtingarmynd eineltis, eru skoðaðar kemur í ljós að einelti getur haft mikil áhrif á líðan einstaklinga til lengri tíma og haft mótandi áhrif á líf þeirra um alla framtíð.
Að bjóða upp á einelti
Ekkert barn býður upp á að vera útilokað, beitt ofbeldi eða niðurlægt á ýmsan máta. Það er ólíklegt að nokkurt foreldri fari með leyfisbréf í skóla barnsins og tilkynni opinberlega að barnið sé skotmark fyrir alla hina og megi leggja í einelti. Samt sem áður eru dæmi um að kennarar hafi útskýrt einelti þannig að börnin bjóði upp á það. Slík mál hafa því miður stundum verið „leyst“ þannig en sömu börn hrökklast jafnvel úr skólanum, þjökuð eftir þá meðferð sem þau fengu og fá nýtt tækifæri í nýjum skóla. Í tveimur af hverjum þremur tilfellum líður barninu betur í nýja skólanum og segir það skýrt til um að barnið sjálft bauð ekki upp á eineltið heldur hafði það með menninguna í barnahópnum að gera.
Að koma út með reisn
Hugmyndafræði Vináttu byggist á fjórum gildum, umburðarlyndi, umhyggju, virðingu og hugrekki og er þeim fléttað inn í námsefni verkefnisins sem er fyrir börn á aldrinum 0-9 ára. Börnin læra að hafa orð á líðan sinni, setja sig í spor annarra og leysa úr þeim deilum sem upp geta komið þannig að allir komi út með reisn. Forðast er að finna sökudólga og fórnarlömb með tilheyrandi vitnaleiðslum sem eiga að leiða í ljós hverjum ber að segja lykilorðið fyrirgefðu. Þess í stað er áhersla lögð á hópinn sem heild, einblínt á þá menningu sem hefur myndast og að aðstoða börnin í að reynast hvert öðru góðir félagar.
Snemmtæk íhlutun – forvarnir og fræðsla
Sífellt fleiri rannsóknir benda til að börn séu gríðarlega móttækileg strax á fyrstu æviárum sínum. Þau tileinka sér fljótt það sem þau læra úr umhverfinu og taugabrautir þeirra þroskast og tengjast. Því er mikilvægt að börn læri sem fyrst góð samskipti sem eru grunnur að velferð þeirra síðar meir. Fyrirbyggja þarf af öllum mætti að börn þurfi að upplifa þá vanlíðan sem fylgir því að vera lagður í einelti eða verða vitni að slíku.
Ábyrgðin er okkar fullorðna fólksins!
Einelti þrífst best í aðstæðum sem börn hafa ekki val um að vera í og dæmi um slíkar aðstæður eru bekkurinn sem þau „lenda í“ eða deildin sem þau eru „sett á“. Þar eru börnin margar klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar, stóran hluta ársins. Ef þeim líður illa þar þurfa þau að þrauka, þau komast ekki í burtu. Ef okkur fullorðna fólkinu líður illa á vinnustað eða í öðrum hópum sem við tilheyrum höfum við val um að fara, hætta í vinnunni. Börnin hafa ekki það val. Það erum við fullorðna fólkið sem sköpum þær aðstæður sem börnin eru sett í og ábyrgðin er því okkar. Við þurfum að muna að við erum fyrirmyndirnar.
Allir eru með
Þegar unnið er með forvarnir gegn einelti er mikilvægt að allir taki þátt. Námsefni Vináttu er ekki eingöngu fyrir börnin heldur einnig fyrir kennara og foreldra og er byggt á ítarlegum rannsóknum og tekið reglulega út. Unnið er með Vináttu í rúmlega 55% íslenskra leikskóla auk þess sem 19 grunnskólar hafa verið að tilraunakenna grunnskólaefnið og kemur efnið út í endanlegri útgáfu á nýju ári. Vinátta kemur frá Danmörku og þar er unnið með efnið í 60% leikskóla, 40% ungbarnaskóla og 45% grunnskóla og gefa rannsóknir sterklega til kynna að einelti hafi minnkað verulega þar í landi með tilkomu þessa verkefnis. Vinátta er einnig í Eistlandi, Færeyjum, Grænlandi og Rúmeníu auk þess sem mörg önnur lönd sýna hugmyndafræðinni og námsefninu mikinn áhuga. Boðið er reglulega upp á námskeið fyrir kennara auk kynninga fyrir foreldra.
Að lokum
Barnið þitt býður ekki upp á einelti, það gerir ekkert barn. Börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi eins og kemur fram í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það verðum við að tryggja. Við þurfum að tryggja að öll börn fái tækifæri til að upplifa allt það sem við erum sammála um að sé mikilvægast. Með því stuðlum við að hamingjusamari börnum sem um leið verða margfalt meðtækilegri fyrir öllu öðru námi og aukum um leið líkurnar á að þau komist öll í gegnum lífið með reisn.Höfundur er verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, leik- og grunnskólakennari og uppeldis- og menntunarfræðingur. linda@barnaheill.is