Landmannalaugar Náttúruferðamennska er stunduð í fallegu umhverfi.
Landmannalaugar Náttúruferðamennska er stunduð í fallegu umhverfi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Samsetning gesta sem leggja leið sína í Landmannalaugar hefur breyst mikið á undanförnum 20 árum, samkvæmt rannsóknum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Samsetning gesta sem leggja leið sína í Landmannalaugar hefur breyst mikið á undanförnum 20 árum, samkvæmt rannsóknum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Ferðamenn eru mjög ánægðir með flest þarna en þó sérstaklega með náttúruna. Þá hefur það breyst hverju fólk er að sækjast eftir, nú er meiri áhersla á merktar gönguleiðir og göngubrýr en minni en áður á verslun, veitingahús og hótel.

Anna Dóra hefur að eigin frumkvæði stundað rannsóknir á samsetningu og upplifun ferðafólks víða um land. Hún rannsakaði þolmörk ferðamanna í Landmannalaugum, meðal annars með spurningakönnunum, á árunum 2000 og 2009, og gerði sambærilega könnun sl. sumar með stuðningi Ferðafélags Íslands sem er með ferðaþjónustu í Landmannalaugum. Hún greindi frá frumniðurstöðum spurningakönnunarinnar frá síðasta sumri á fundi hálendishóps Landverndar í gærkvöldi, og bar þær saman við eldri kannanirnar.

Fleiri Bandaríkjamenn

Anna Dóra segir í samtali við Morgunblaðið að mikil breyting hafi orðið á samsetningu gesta í Landmannalaugum á þessum tuttugu árum. Færri Frakkar komi en fleiri Bandaríkjamenn og einnig fjölgi í hópi Ítala og Spánverja. Þá sé mikil fjölgun í hópi sem kallaður er önnur þjóðerni. Eftir er að fara í gegnum það en Anna Dóra telur að fjölgun ferðafólks frá Asíu til landsins komi þar fram. Íslendingum hefur hins vegar fækkað. Þeir voru 21% þeirra sem komu í Landmannalaugar en eru nú komnir niður í 7%. Þá koma færri í skipulögðum hópferðum en áður, 20% í stað 57% fyrir 20 árum.

Hún hefur ekki nákvæmar tölur um það hvernig heildarfjöldinn hefur breyst en segir athuganir benda til að fjölgun ferðafólks til landsins skili sér ekki nema að litlu leyti inn á hálendið.

Sækjast eftir einveru

Ferðamenn eru mjög ánægðir með flest í Landmannalaugum, að sögn Önnu Dóru. 95% eru ánægðir eða mjög ánægðir með náttúruna, 87% með göngustíga og 77% með dvölina á svæðinu.

Ferðafólki finnst of margt fólk í Landmannalaugum. Fleiri kvörtuðu undan því í sumar en í fyrri könnunum. Á sama tíma eru fleiri að upplifa náttúrulegt umhverfi og víðerni. Fleiri en áður lýsa svæðinu sem fallegu. Þá segir hún að fleiri geri kröfu til þess að upplifa einveru en áður hefur komið fram. Hún spyr sig hvort það geti verið áhrif frá samfélagsmiðlum. Þannig sé algengt að fólki myndi sig eitt með fallega náttúru í bakgrunni og setji inn á Instagram og aðra miðla.

Anna Dóra telur að draga megi þann lærdóm af niðurstöðunum að fylgjast þurfi reglubundið með þróuninni á völdum áfangastöðum. Það þurfti að gera með opinberu fjármagni. Niðurstöður athugana hennar eru eitt púslið í mati á hámarksfjölda ferðafólks ásamt mati á þolmörkum náttúrunnar og innviða.

Unnið er að skipulagi svæðisins. Anna Dóra segir mikilvægt að ljúka þeirri vinnu. Grunninnviðir þurfi að vera í lagi, svo sem salerni og göngustígar. Það sé grunnurinn fyrir náttúruferðamennsku eins og stunduð er þarna.