Eldsumbrot neðansjávar urðu til þess að ein af eyjum ríkisins Tonga í Eyjaálfu hvarf og önnur reis úr hafinu, samkvæmt skýrslu sem jarðfræðingar birtu í gær.
Taaniela Kula, jarðfræðingur við jarðvísindastofnun Tonga, sagði að nýja eyjan væri um 100 metra breið og 400 metra löng. Hún er um 120 metra vestan við eyjuna sem sökk, Lateiki-eyju. Eldsumbrotin stóðu í átján daga.
Önnur eyja myndaðist í neðansjávargosi við Tonga-eyjar seint á árinu 2014 og hún er nú vaxin gróðri og heimkynni fugla.
Tonga er á svonefndum Eldhring sem liggur umhverfis Kyrrahaf, meðfram Suður- og Norður-Ameríku, suður yfir Japan, Indónesíu, Filippseyjar og til Nýja-Sjálands. Á Eldhringnum eru meira en 75% eldfjalla heims og þar verða um 90% af öllum jarðskjálftum.