Kristrún Kjartansdóttir fæddist 27. maí 1923 að Kringlu í Grímsnesi. Hún lést 30. október 2019 á Dvalarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.

Foreldrar hennar voru Kjartan Bjarnason frá Minni-Bæ í Grímsnesi, f. 1891, d. 1939 og Margrét Þorkelsdóttir frá Þórisstöðum í Grímsnesi, f. 1897, d. 1987. Kristrún var næstelst 7 systkina og þau eru: Þorkell, f. 1922, d. 2016, Lárus, f. 1927, d. 1996, Heiða, f. 1928, d. 2012, Anna, f. 1932, Þorbjörg, f. 1935, og Kjartan, f. 1938. Foreldrar Kristrúnar fluttust að Austurey í Laugardal árið 1926. Eftir andlát föður hennar rak Margrét móðir hennar búið með aðstoð barna sinna til ársins 1951 en þá tóku synir hennar Þorkell og Lárus við búinu.

Kristrún var í farskóla í Eyvindartungu í æsku og gekk síðan í Húsmæðraskóla Suðurlands að Laugarvatni veturinn 1942-1943. Þann 12. júní 1943 giftist hún Helga Guðnasyni frá Haga í Grímsnesi, f. 1914, d. 1974, og hófu þau búskap í Haga það sama ár. Þau eignuðust þrjú börn, 1) Ragnhildur f. 1944, maki Hafliði S. Sveinsson f. 1944. Dætur þeirra eru Sigrún f. 1966, maki Halldór. Fyrrverandi maki Gísli, d. 2017, og sonur þeirra Hafþór Gylfi. Kristrún, f. 1970, maki Óskar Ingi og synir þeirra Kári Már og Hafliði Már. Heiðrún, f. 1980, maki Róbert og synir þeirra Magnús Máni, Eysteinn Ari og Helgi Jens. 2) Kjartan f. 1945, fyrrverandi maki Jórunn Erla Sigurjónsdóttir f. 1951 og börn þeirra eru Helgi, f. 1971, maki Sylvía og börn þeirra Jóna Kolbrún, Kjartan og Ásdís Erla. Svanlaug, f. 1974, maki Óskar Helgi og dætur þeirra Auður og Guðrún. 3) Guðmundur, f. 1948, d. 1974, maki Áslaug Harðardóttir, f. 1946. Börn þeirra eru Hörður Óli, f. 1970, maki Kristín og börn þeirra Guðmundur Helgi, dóttir hans er Sif, Jóhann Guðni, Elías Svanur, d. 2016, og Kristrún Urður. Guðmunda, f. 1974, maki Garðar og börn þeirra Guðmundur Benedikt og Guðrún Olga.

Helgi, eiginmaður Kristrúnar, lést ásamt Guðmundi syni þeirra af slysförum vorið 1974. Þá hætti hún formlegum búskap en bjó þó áfram í Haga. Árið 1978 flutti hún á Selfoss og keypti íbúð í Fossheiðinni og hélt þar heimili um árabil ásamt Jóhanni Ingva Guðmundssyni, f. 1905, d. 1992. Í Fossheiðinni bjó hún til æviloka fyrir utan síðustu fjóra mánuðina sem hún dvaldi á Sólvöllum. Hún vann lengst af á Ási í Hveragerði en einnig starfaði hún hjá Sláturfélaginu Höfn á Selfossi.

Útför Kristrúnar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 13.

Á kveðjustundum er margs að minnast. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar til baka til allra þeirra góðu ára sem við amma áttum saman. Það eru mikil forréttindi að hafa átt ömmu að í nær hálfa öld.

Fyrir nokkrum árum settist ég niður í nokkur skipti með ömmu, setti símann á hljóðupptöku og fór m.a. að spjalla við hana um fyrstu búskaparár hennar. Það er fyrst nú þegar ég rita þessi fáu orð á blað sem ég hlusta á þessar upptökur og þá átta ég mig á því hvað þær eru mér mikilvægar. Það var t.d. virkilega gaman að heyra hana segja frá því að áður en hún og afi fóru að búa vildi afi að hún færi í Hússtjórnarskólann á Laugarvatni. Afi borgaði skólagjöldin sem voru 50 kr., sem þótti ágætis upphæð á þeim tíma, og þegar náminu lauk flutti hún að Haga.

Amma sagði mér stolt frá því þegar hún og afi byggðu íbúðarhúsið í Haga. Sumarið sem þau byggðu húsið hefðu þau náð að fjármagna öll efniskaup með því að stunda veiðar í Apavatni af kappi. Að hafa náð að koma sér þaki yfir höfuðið með þessum hætti hefur kallað á mikla þrautseigju og vinnusemi. Svo sagði hún mér frá því að eftir að hún flutti á Selfoss hefði hana langað í lítið sumarhús. Svo var það í einni ferðinni þegar ég kom á Selfoss, þá sem smá strákur með pabba, að ég hvíslaði því að henni að pabbi væri byrjaður að smíða sumarhúsið fyrir hana en ég hefði ekki mátt segja henni þetta. Ég mundi ekki eftir þessu, en hún hló mikið þegar hún sagði mér þetta, sennilega hef ég verið orðinn spenntur að fá hana oftar í sveitina með tilkomu sumarhússins og ekki getað þagað yfir leyndarmálinu. Þessar hljóðupptökur mun ég varðveita eins vel og ég get og spila fyrir mín börn og barnabörn.

Svo var það nokkru seinna sem ég fékk að vera hjá henni þegar ég var í skóla og vinnu á Selfossi. Þá var alltaf sest niður á hverjum degi og spjallað, farið yfir daginn og hvað væri fram undan. Svona stundir kallast í dag gæðastundir, amma vissi vel að þetta skipti máli fyrir alla og lagði mikið upp úr svona stundum. Eins lagði hún alla tíð mikið upp úr gestrisni, að bjóða fólki inn í kaffi, það skipti hana miklu máli. Þegar ég var hjá henni sem unglingur áttaði ég mig á því hvað hún bar mikla virðingu fyrir öllum og að hún sá það besta og jákvæða í fari allra. Allt þetta eru eiginleikar sem fólk þyrfti að tileinka sér betur nú til dags þegar álag, streita og lífsgæðakapphlaupið er að fara illa með fólk. Það er mér dýrmætt að börnin mín hafi náð að kynnast þessum eiginleikum sem langamma þeirra hafði, enda náði hún til þeirra, þau hlustuðu á hana og báru mikla virðingu fyrir henni.

Fyrir ekki svo löngu settist ég niður með ömmu og fór að ræða við hana um lífið og tilveruna, m.a. hvort hún væri sátt við lífshlaup sitt. Hún sagðist vera sátt við ævi sína, hún ætti góða og yndislega fjölskyldu sem hún væri stolt af. Hún nefndi að það væri í raun ótrúlegt að hún stæði svona upprétt eftir allt sem hún hefði gengið í gegnum. Hún útskýrði fyrir mér hvernig hún hefði tekist á við og unnið sig út úr þeim áföllum sem hún hafi orðið fyrir á ævi sinni. Hvernig hún komst út úr þessu lýsti hún í smáatriðum fyrir mér, þeirri frásögn mun ég aldrei gleyma.

Það er með miklum hlýhug, virðingu og söknuði sem ég, Sylvía, Jóna Kolbrún, Kjartan og Ásdís Erla kveðjum ömmu. Yndislegri ömmu er ekki hægt að hugsa sér.

Þinn,

Helgi.

Elskuleg föðuramma mín, amma KK, er látin á 97. aldursárinu.

Amma var húmoristi af guðs náð, var orðheppin, skemmtileg og mikil félagsvera. Hún hafði mikla ánægju af því að hitta fólk og spjalla. Bíltúrarnir okkar eru nú orðir margir, til að kaupa blóm á leiðin á Mosfelli, til að næla okkur í jurt sem við höfðum séð á víðavangi, tré til að fara með í Einbúa, forvitnisleiðangrar, ísbíltúrar sem oft voru algjörlega óplanaðir og allar ferðirnar að Haga í afmælin hjá börnunum hans Hödda og hennar Stínu. Allaf var amma tilbúin að koma með, stundum þurfti að snúa við á miðri leið þar sem tennurnar höfðu gleymst, alloft meira að segja. Þessu hlógum við nú bara að.

Ýmsum ævintýrum lentum við líka í, einu sinni keyrði ég heldur glannalega yfir hraðahindrun sem ég sá ekki og þegar við vorum lentar hinum megin við hana og bíllinn neitaði að fara lengra sagði amma „ég hef nú oft farið hraðar yfir hraðahindranir en þetta...“

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að amma passaði mig oft. Einu sinni man ég eftir að hafa fengið að vera hjá henni á Ási í Hveragerði, þar sem hún vann um tíma. Í minningunni var þetta völundarhús með óteljandi herbergjum og í hverju herbergi var gamalt fólk sem vildi spjalla við stelpuna sem þarna var á vappinu. Í Fossheiðinni man ég eftir að herbergið hans Jóhanns var líka eins og ævintýraveröld og þangað fékk enginn að fara nema í fylgd ömmu því að þar voru tækin sem hann notaði til að binda bækur og svoleiðis tæki hafði ég aldrei séð.

Ég bjó hjá ömmu í Fossheiðinni þegar ég var í FSU, eins og fleiri barnabörn hennar, og síðasta árið ein og þá gátum við amma oft spjallað mikið um lífið og tilveruna. Hún ráðlagði mér, óhörðnuðum unglingnum, og ég henni, fullorðinni konunni.

Amma bar ekki oft tilfinningar sínar á borð fyrir aðra. Harm sinn bar hún í hljóði, en slysið í Haga í apríl 1974 var henni erfitt og okkur mörgum og er enn. Hún ræddi þetta ekki mikið en hún sagði að á þessum tíma hefðu bara allir sett undir sig hausinn og haldið áfram. Amma átti líka mjög erfiða daga að hausti 2016 þegar Elías lést og skildi ekki tilganginn með þeim atburði.

Amma var líka iðin og vann sín verk með gleði. Einu sinni töluðum við saman í síma og ákváðum að steikja daginn eftir saman kleinur og átti ég að mæta kl. 13. Þar sem amma var stundvís og þoldi ekki að bíða eftir fólki ákvað ég að vera á fyrra fallinu og var mætt fyrir kl. 13. Ilmandi kleinulykt var í stigaganginum þegar ég mætti og þegar ég kom inn var hún langt komin með að steikja allar kleinurnar. Ég ætlaði að fara að taka við en þá sagði hún „so, so, so, þú bara færð þér kaffi og smakkar þetta hjá mér“.

Ég get ekki sleppt því að nefna matarsmekkinn okkar, sem á stundum var mjög líkur. Margar silungahausaveislurnar höfum við tvær haldið okkur, setið lengi og notið. Amma átti líka alltaf til ís fyrir börnin, stór og smá.

Við þökkum þér fyrir samfylgdina í gegnum árin og við munum halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð.

Guðmunda, Garðar,

Guðmundur og Guðrún.

Elskuleg amma mín, Kristrún Kjartansdóttir, er látin 96 ára. Amma lést á Sólvöllum Eyrarbakka 30. október, þar dvaldi hún sl. fjóra mánuði.

Ég minnist ömmu minnar sem yndislegrar konu, hún var hjartahlý, ákveðin, nýtin og úrræðagóð.

Við amma brölluðum margt saman, fórum ófáa bíltúra og þykir mér mjög vænt um að hafa farið í Einbúa með henni um verslunarmannahelgina í ágúst sl.. Einbúi er lítill sumarbústaður sem hún á í landi Haga. Þar hefur hún gróðursett tré í gegnum árin og er þar orðinn myndarlegur gróður allt í kring. Þar undi hún sér vel. Þessi bíltúr var mikilvægur fyrir okkur báðar, þarna var heilsunni farið að hraka og okkur grunaði að þetta yrði jafnvel síðasta ferðin í Einbúann.

Þær voru margar sögurnar sem amma sagði mér frá uppvexti sínum og þegar hún var að byrja sinn búskap með afa. Henni fannst við unga fólkið nú til dags hafa það gott með alla þessa tækni og tæki sem við höfum, þvottavél, þurrkara og uppþvottavél meðal annars. Amma þvoði nefnilega sjálf sinn þvott í mörg ár í höndunum og fannst henni þvottavélin mesta byltingin sem hún upplifði.

Ég minnist líka þegar ég bjó hjá ömmu í Fossheiðinni þegar ég var í Fjölbrautaskóla Suðurlands, þá var alltaf heitur matur á hverjum degi, stundum tvisvar á dag. Hafragrautur á morgnana, við amma eigum það sameiginlegt að þykja hafragrautur mjög góður. Þá var gott að eiga ömmu að og mjög stutt í skólann.

Síðustu mánuði höfum við varið miklum tíma saman, rætt lífið, tilveruna og tilgang lífsins. Ég verð ævinlega þakklát fyrir þann tíma. Ég vil þakka starfsfólki á Sólvöllum Eyrarbakka fyrir einstaka umönnun og alúð við fjölskylduna. Amma var tilbúin að leggja í hann í sumarlandið, veit að heill her af fólki tók á móti henni.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, elsku amma.

Þín

Svanlaug.

Nú er amma mín Kristrún Kjartansdóttir lögð af stað í sitt síðasta ferðalag og áfangastaðurinn er blómum skrýddar brekkur og grösugir dalir í Sumarlandinu. Amma reyndist mér og mínum alla tíð vel og verð ég henni ævinlega þakklát fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Amma mín talaði aldrei illa um nokkurn mann og hún elskaði menn og dýr og mátti aldrei neitt aumt sjá og tók oft málstað þess sem undir varð í umræðunni.

Það voru forréttindi að alast upp og eiga ömmu eins og þig og alveg ómetanlegt að vera komin á sextugsaldurinn og eiga ömmu sem alltaf var hægt að leita til ef eitthvað bjátaði á.

Amma fæddist á Kringlu í Grímsnesi 27.5. 1923 og ólst upp í Austurey í Laugardal í stórum systkinahópi á bökkum Apavatns.

Árið 1943 giftist amma Helga Guðnasyni í Haga í Grímsnesi og þá flutti hún yfir á bakkann hinum megin við Apavatn.

Man ég eftir að hafa gengið á ís yfir Apavatn að vetri til og siglt á bát með ömmu að heimsækja ættingjana í Austurey.

Árið 1974 missir amma mann sinn og son þegar þeir drukkna við veiðar á Apavatni. Amma flytur á Selfoss 1978 og fljótlega keypti hún íbúð í Fossheiði 58 og bjó hún þar alla tíð síðan utan síðustu fjóra mánuði sem hún dvaldi á Sólvöllum á Eyrarbakka.

Amma elskaði að ferðast og sjaldan neitaði hún bíltúrum og minnist ég og fjölskylda mín margra ferða upp í Haga í litla sumarbústaðinn hennar.

Það var ýmist verið að kaupa tré eða blóm til að gróðursetja, síðan færa þau, því þau uxu og urðu of stór, reyta arfa og vökva og að sjálfsögðu var hellt upp á könnuna og borðað nesti og jafnvel soðinn nýveiddur silungur.

Stundum skruppum við í bíltúr í Hveragerði að skoða blóm í Eden og oftar en ekki fengum við okkur kaffi, kökur eða ís. Amma naut þess að keyra um sveitirnar, horfa á fjöllin, dýrin á túnunum og horfa heim að bæjunum. Þá rifjaði hún upp gamlar sögur frá því hún var stelpa og það var svo gaman að hlusta því hún sagði svo skemmtilega frá.

Þegar ég stofna mína eigin fjölskyldu og flyt á Selfoss þá flutti ég í sama stigagang og amma og voru það ómetanleg ár og naut Hafþór Gylfi þess að búa svo nálægt langömmu sinni og eigum við margar ómetanlegar minningar frá þeim tíma.

Ekki vorum við amma alltaf sammála um alla hluti en við gátum alltaf rætt málin og alltaf stóð hún með sínu fólki þótt hún væri ekki alltaf sammála því sem við tókum okkur fyrir hendur.

En bíddu nú við, þú áttir alltaf eftir að kenna mér að baka pönnukökur. Þú sagðir að það væri nú hálfgerð skömm að því að kona á mínum aldri kynni ekki að baka pönnsur. Nú bara vind ég mér í að æfa mig og treysti á að þú standir á hliðarlínunni og segir mér til.

Nú styttist í jólin og þá tek ég upp jólatréð sem þú bjóst til handa mér og gafst mér fyrir rúmum 30 árum og ég hef passað það svo vel í gegnum árin og er það sá hlutur sem mér er kærastur í minni eigu.

Elsku amma mín takk fyrir allt.

Sigrún.

Elsku besta amma mín var ótrúleg kona og á ég ótal margar dýrmætar minningar um hana bæði frá því að ég var barn og allt til dagsins í dag. Við höfum lengst af búið í sömu blokkinni, Fossheiði 58, og seinna í sama bæjarfélagi þannig að samverustundirnar voru margar.

Amma gleymdi aldrei afmælinu mínu og kom alltaf með tvo pakka fyrir jólin, annan merktan afmæli, frá ömmu KK og bað mömmu að geyma hann í búrinu. Það var mikill spenningur að fá að opna þennan pakka þegar nýja árið gekk í garð enda mikið búið að horfa á hann í efstu hillunni.

Þegar ég byrjaði að búa gaf hún mér pönnukökupönnu og kenndi mér að baka pönnukökur, láta passlega mikið deig á pönnuna, halla henni niður og ýta hratt frá sér þrisvar sinnum, þá er deigið jafnt. Enn þann dag í dag tel ég alltaf upp að þremur... bara í hljóði.

Strákarnir mínir gátu alltaf leitað til hennar og þegar þeir voru litlir kom hún ósjaldan yfir og braut saman litlu barnafötin, brosti og raulaði og tók þá iðulega í fangið og leyfði þeim að liggja í „hengirúmi“ í lausu lofti á pilsinu sínu. Þegar þeir stækkuðu spurði hún alltaf frétta af þeim og vildi fylgjast vel með sínu fólki.

Ófáar ferðirnar fórum við í Einbúann, litla reitinn hennar í Haga, og gróðursettum tré, færðum til, klipptum og rökuðum þar til allt var hreint og fínt. Þá var farið inn í kofann og fengið sér kaffi, það besta í heimi, og skrifað eitthvað gagnlegt og skemmtilegt í gestabókina.

Amma hafði alltaf tíma og það var hægt að ræða við hana um allt en við vorum ekki alltaf sammála, þá voru umræðurnar bara skemmtilegri. Hún sagði oft frá æsku sinni og hvað allt væri orðið breytt.

Hún vildi að yngra fólkið vissi hvernig þetta var áður og hvað við hefðum margt sem vert væri að þakka fyrir.

Það er mér mikill heiður að hafa verið skírð í höfuðið á henni ömmu og verð ég foreldrum mínum ævinlega þakklát fyrir það. Svo er það bara hvort ég standi undir nafni.

Minningarnar eru dýrmætar og fyrir þessar fjölmörgu samverustundir með henni ömmu minni vil ég þakka af öllu hjarta.

Minning um ómetanlega konu lifir.

Kristrún Hafliðadóttir.

Það er sárt að kveðja elsku Kristrúnu ömmu. Minningarnar um ömmu eru margar og góðar og rifjast allar upp nú þegar hún hefur kvatt okkur.

Amma var skemmtileg kona, hnyttin og hlý, hreinskilin og dugleg. Á sinni löngu ævi upplifði hún margt og ég trúi því að nú taki á móti henni allt það góða fólk sem hún hefur þurft að kveðja í gegnum árin.

Alveg frá því ég man eftir mér bjó amma í íbúðinni sinni í Fossheiðinni.

Amma var sérstaklega ánægð með eldhúsgluggann sinn og sat oftar en ekki þar og fylgdist með lífinu fyrir utan, mannaferðum og bílaumferð.

Þegar ég var í Fjölbraut var gott að skreppa til hennar hinum megin við götuna og alltaf var ég velkomin að gista í litla herberginu hjá henni. Seinna meir bjuggum við Róbert í kjallaranum hjá henni og í íbúðinni við hliðina og þá var gott að geta litið inn til ömmu í kaffisopa og spjall.

Ég minnist þess sem krakki að í Selfossferðum var það fastur liður að koma við hjá ömmu og alltaf átti hún íspinna í frystinum. Amma hélt í þessa hefð alla tíð og vildi alltaf eiga ís handa krökkum sem komu í heimsókn til hennar. Í síðustu heimsókn okkar til þín í Fossheiðina í sumar fengu strákarnir mínir ís eins og venjulega og við sátum við eldhúsborðið og ræddum um lífið og tilveruna.

Í Einbúa átti amma sinn sælureit þar sem hún hugsaði um gróðurinn sinn og var dugleg að rétta hrífu eða skóflu að þeim sem komu í heimsókn, alltaf var eitthvað sem þurfi að færa til eða hreinsa og laga til. Amma passaði upp á að eiga nóg með kaffinu í Einbúa og það var alltaf spennandi að fara inn í hús og sjá hvað kom upp úr pokunum hjá ömmu.

Amma sagði sína skoðun á hlutunum og lét alveg vita ef henni mislíkaði eitthvað. En hún hrósaði líka og ég minnist þess þegar ég heimsótti hana í haust á Sólvelli, og heilsunni var farið að hraka, þá var það fyrsta sem hún sagði „mikið ert þú fín“ og spurði svo hvert ég væri eiginlega að fara, varla væri ég að koma svona fín bara að heimsækja hana. Þarna áttum við okkar síðasta góða spjall, næst þegar ég kom til ömmu var það til að kveðja.

Við Róbert og strákarnir okkar, Magnús Máni, Eysteinn Ari og Helgi Jens, þökkum tímann sem við fengum með ömmu og yljum okkur við góðar minningar um hana og kveikjum á lampanum fallega sem hún bjó til og gaf okkur. Hvíl í friði, elsku amma mín.

Heiðrún Hafliðadóttir.

Það var örlagaríkur dagur 4. apríl 1974 þegar feðgarnir í Haga, Guðmundur og Helgi, létust af slysförum í Apavatni. Þann sama dag lést föðuramma mín Guðbjörg Lárusdóttir í kjölfar veikinda.

Hagahjónin Helgi og Kristrún voru kærir vinir afa míns og ömmu frá búskaparárum þeirra í Grímsnesinu. Þegar frá leið fór afi Jóhann að heimsækja Kristrúnu og bjóða henni í ökuferðir og því má segja að sorgin hafi leitt þau saman.

Þessar samvistir þeirra urðu til þess að Kristrún og afi hófu sambúð hér á Selfossi, fyrst á Kirkjuvegi 7 og síðan Fossheiði 58. Þau ferðuðust mikið með Félagi eldri borgara og nutu lífsins um árabil, eða allt þar til afi fór á Dvalarheimilið Ljósheima. Kristrún hans afa, eins og hún var ætíð kölluð innan fjölskyldunnar, var okkur öllum afar kær. Lengi sendi hún öllum jólakort og „konuferðirnar“ sem farnar voru á hverju sumri enduðu alltaf í kaffi hjá Kristrúnu þar sem Grímsnesárin voru rifjuð upp og slegið á létta strengi.

Elsku Kristrún, þessum kveðjuorðum fylgir einlægt þakklæti fyrir umhyggju alla tíð í okkar garð.

Hver minning dýrmæt perla,

að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni

af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki

er gjöf sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum

er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ingibjörg Stefánsdóttir.