[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir atvik á Keflavíkurflugvelli í lok október áminningu um mikilvægi þess að hafa varaflugvelli alltaf tiltæka.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir atvik á Keflavíkurflugvelli í lok október áminningu um mikilvægi þess að hafa varaflugvelli alltaf tiltæka.

Boeing 757-vél Icelandair hafi þá lent í erfiðleikum á Keflavíkurflugvelli þegar brautin lokaðist fyrir lendingu en aðflug var hafið. Vélin hafi ekki haft nægt eldsneyti til að nýta varaflugvöllinn á Akureyri en hefði mögulega getað lent í Reykjavík ef reyndur flugumferðarstjóri hefði verið í turninum til að meta aðstæður og leiðbeina. Svo hafi ekki verið. Ástæðan sé sparnaður hjá Isavia sem kjósi að manna ekki turninn í Reykjavík með flugumferðarstjóra þegar vélar koma frá Bandaríkjunum á morgnana.

Sé alltaf í flugturninum

Með þetta í huga telur Njáll Trausti brýnt að reyndur flugumferðarstjóri sé í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli frá kl. 5 á morgnana til að mæta óvæntum aðstæðum með skömmum fyrirvara.

Atvikið sé enn ein áminningin um að styrkja þurfi varaflugvallakerfið. Þ.m.t. með því að byggja upp flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum.

Njáll Trausti segir að árið 2013 hafi farið af stað umræða um að styrkja þyrfti varaflugvellina vegna fyrirsjáanlegrar notkunar Icelandair á Boeing Max-þotum sem leysi núverandi Boeing 757-vélar af hólmi. Lítið hafi áunnist í þeim málum. Menn hljóti að haga flugi í Keflavík með hliðsjón af uppbyggingu varaflugvalla.

Skortir heildarsýn

„Það hefur skort töluvert upp á þá heildarmynd hjá þeim sem fara með málin. Það er hins vegar ánægjulegt ef Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er farinn að ræða um mikilvægi varaflugvalla fyrir flugumferð. En það hefur skort upp á það í gegnum árin þegar teknar eru ákvarðanir sem tengjast Reykjavíkurflugvelli. Völlurinn hefur verið bútaður niður og menn verið að veikja hann statt og stöðugt undanfarin ár,“ segir Njáll Trausti og vísar til viðtals við Dag í Morgunblaðinu síðustu helgi.

„Það eru líka möguleikar á að styrkja Reykjavíkurflugvöll þannig að hann henti betur sem varaflugvöllur. Það hefur verið rætt um ýmsa möguleika, t.d. að lengja völlinn út í Skerjafjörð,“ segir Njáll Trausti.

Stækki út í Skerjafjörð

Heppilegasta leiðin til að styrkja Reykjavíkurflugvöll fyrir þetta hlutverk sé að lengja austur-/vesturbrautina út í Skerjafjörð svo hún nái því að verða 1.800 metra löng. Brautin myndi þannig ná yfir Suðurgötu.

Með þessari uppbyggingu geti völlurinn vel þjónað hlutverki varaflugvallar næstu áratugi.

Njáll Trausti segir ljóst að framkvæmdin geti kostað milljarða. Þeir fjármunir séu þó brot af kostnaðinum við að byggja nýjan völl í Hvassahrauni. Rætt sé um að uppbygging þess vallar geti kostað nærri 100 milljörðum. Loks kveðst Njáll Trausti hafa ítrekað það sjónarmið að greining á flugvallarkostum yrði að vera núllpunktagreining út frá núverandi Reykjavíkurflugvelli. Að allir kostir yrðu metnir út frá vellinum. Til dæmis sé Hvassahraun aðeins metið á eigin forsendum fyrir flugvöll.