Ekki er það gott, – Pétur Stefánsson yrkir á Leir: Er ég hugsa til Daða frá Dæli sem dömurnar hrelldi með væli, liggur það við að ég leggist á hlið og kúgist þar, engist og æli. Og „Þú veist“ segir Helgi R.

Ekki er það gott, – Pétur Stefánsson yrkir á Leir:

Er ég hugsa til Daða frá Dæli

sem dömurnar hrelldi með væli,

liggur það við

að ég leggist á hlið

og kúgist þar, engist og æli.

Og „Þú veist“ segir Helgi R. Einarsson:

Á munninn mig fyrst kyssti,

í meira síðan þyrsti.

Ég því reið í hlað

á helgum stað,

en hún mey –, þú veist, þá missti.

Ólafur Stefánsson segir að það sé mikill plagsiður nú um stundir að æða á fjöll og sparka allt út. Jafnvel míga upp í vindinn. Náttúran ætti að njóta vafans, eins og aktífistarnir segja og yrkir (auðvitað um Súlurnar frægu fyrir sunnan!):

Náttúrunni gefist grið,

þótt garpar séu í önnum.

Skulu Súlur fá sinn frið.

fyrir göngumönnum.

Í Allrahanda segir síra Jón Norðmann að amma sín, Helga Magnúsdóttir, hafi sagt að Axlar-Björn hafi drepið 19 manns. Hún hafði vísuna sem kerlingin kvað hjá Axlar-Birni svona:

Gisti enginn hjá Gunnbirni,

sem klæðin hefur góð.

Ekur hann þeim í Ígultjörn;

rennur blóð

eftir slóð.

Og dilla eg þér jóð.

Níels skáldi hafði átt smábrösur saman við stúlku, sem sat að saumum, og kvað:

Fljóðs íþróttir fús að bera,

fáguð skarti lista kyns,

ljóssins dóttir læst þú vera

en líka þarftu myrkursins.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, – Hallmundur Guðmundsson segist á Boðnarmiði hafa skotist með hundspottið í spássitúr og vangaveltist á spássinu:

Svo hafið ei búi við bölvað last

er brýnt að endurnýta

og hafa skal við hendi plast

ef hundurinn þarf að skíta.

Magnús Geir Guðmundsson svaraði að bragði:

Hérna nú limru ég letra,

sem lendir í flokki tetra.

Ef hugann ég brýt,

um hundanna skít,

held ég að bréfið sé betra?!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is