Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur: "Viðreisn stendur fyrir ábyrga fjármálastjórn og það erum við að sýna í Reykjavík með fjárhagsáætluninni sem nú hefur verið lögð fram fyrir árið 2020."

Eitt af mikilvægustu viðfangsefnum stjórnmálanna er ráðstöfun almannafjár. Á hinu pólitíska sviði tökumst við á um hvernig skipta skuli kökunni, hvað sé nauðsynlegt að fjármagna og hvað ekki.

Viðreisn stendur fyrir ábyrga fjármálstjórn og það erum við að sýna í meirihluta Reykjavíkur með fjárhagsáætluninni sem nú hefur verið lögð fram fyrir árið 2020. Við höfum sannfæringu um að fjármunum almennings skuli ráðstafað af ráðdeild og hagkvæmni. Til þess er okkur stjórnmálafólkinu treyst og ábyrgð okkar er því sannarlega mikil.

Við fylgjum góðri og agaðri fjármálastjórn. Gerð er 1% hagræðingarkrafa á öll svið og verður 12,9 milljarða afgangur af rekstri samstæðu borgarinnar. Þetta er um 2 milljörðum betri útkoma en fyrir árið 2019. Af rekstri A-hluta verður 2,5 milljarða afgangur. Til samanburðar verður afgangur af rekstri ríkissjóðs, samkvæmt fjárlagafrumvarpi formanns Sjálfstæðisflokksins, 367,4 milljónir. Tekjur vegna gjaldskrárhækkana munu ekki hækka meira en 2,5%.

Eftir langvarandi uppsveiflu spáir Hagstofan nú 0,2% samdrætti á þessu ári, fyrsta ár samdráttar frá árinu 2010 og gerir ráð fyrir „hóflegum bata“ á næsta ári með 1,7% hagvöxt. Þetta samdráttarskeið þýðir að á næsta ári munu útgjöld Reykjavíkurborgar vaxa hraðar en skatttekjur. Við bregðumst við þessum samdrætti með því að bæta við fjárfestingar og ýta þannig undir vöxt hagkerfisins og stöðugleika.

Fjármögnun þessara fjárfestinga verður 70% með eigin fé og 30% með lántökum og verður varlegar farið í ný langtímalán og leiguskuldir en síðastliðin tvö ár. Þá verður einnig að hafa í huga að á árunum 2020 til 2024 verða afborganir lána og niðurgreiðsla skulda hærri en nýjar lántökur. Við munum greiða skuldir niður um rúma 14 milljarða hjá samstæðunni allri.

Við í Viðreisn munum eftir kosningaloforði okkar um að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Samkvæmt áætlun sem kynnt var í fyrra munu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækka í 1,63% árið 2021 og í 1,60% á árinu 2022. 41 sveitarfélag verður þá með hærri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og langflest þeirra sveitarfélaga sem eru með lægri skatta eru lítil sveitarfélög á landsbyggðinni. Reykjavíkurborg er þegar með næstlægstu álagningarprósentu allra sveitarfélaga á landinu þegar kemur að íbúðarhúsnæði einstaklinga.

Framtíðarsýn meirihlutans í Reykjavík er öguð og ábyrg ráðstöfun fjármuna með sjálfbærni í rekstri og fjármögnun fjárfestinga að leiðarljósi.

Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.

Höf.: Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur