Samstarfsmenn Finnur Freyr ræðir við Craig Pedersen en þeir hafa unnið vel saman hjá íslenska landsliðinu.
Samstarfsmenn Finnur Freyr ræðir við Craig Pedersen en þeir hafa unnið vel saman hjá íslenska landsliðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Körfuknattleiksþjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson lætur vel af sér í Danmörku. Þar er hann að stíga sín fyrstu skref í þjálfun utan landsteinanna en síðasta sumar var hann ráðinn þjálfari karlaliðs Horsens.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Körfuknattleiksþjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson lætur vel af sér í Danmörku. Þar er hann að stíga sín fyrstu skref í þjálfun utan landsteinanna en síðasta sumar var hann ráðinn þjálfari karlaliðs Horsens. Finnur hafði tekið sér ársfrí frá þjálfun í meistaraflokki, að því undanskildu að vera aðstoðarlandsliðsþjálfari. Þar á undan stýrði hann karlaliði KR í fimm ár og varð Íslandsmeistari í öll skiptin. Í Danmörku þarf hann ekki að kvarta yfir úrslitunum í upphafi deildakeppninnar. Horsens hefur unnið sex af fyrstu sjö leikjunum hingað til.

„Ég kom frekar hratt inn í þetta hjá Horsens í aðdraganda deildakeppninnar eftir að hafa verið í landsliðsverkefnum í ágúst. Það hefði verið óskandi að fá aðeins meiri tíma til að byrja með. Hér er ýmislegt öðruvísi en heima. Eins og við þekkjum öll eru Íslendingar sérstakir á jákvæðan hátt. Ég er að læra inn á umhverfið en í leikmannahópnum er ég með þrjá unga Bandaríkjamenn, tvo Serba, Dana af serbneskum ættum og Dani. Þetta er blanda sem maður þarf að venjast og ég þarf að eiga við mismunandi persónur sem er virkilega krefjandi en skemmtilegt,“ sagði Finnur en hann stýrir ekki jafn reyndum mönnum hjá Horsens og hann gerði hjá KR.

„Heima var ég að vinna með mjög reyndum leikmönnum en nú er ég kominn í deild sem er svolítið öðruvísi. Ég er með yngri leikmenn í liðinu heldur en heima. Þetta er því bara mjög skemmtileg áskorun,“ sagði Finnur en hann er með liðið á æfingum átta til níu sinnum í viku. Þrisvar til fjórum sinnum í viku eru morgunæfingar þar sem 80% af liðinu mætir. Allir nema skólastrákarnir eins og hann kallar þá.

Spurður hvort munur sé á því hvernig Danir og Íslendingar nálgast íþróttina segir Finnur að ákefðin sé meiri hjá Dönunum.

Fleiri góðir leikmenn

„Mér finnst ákefðin vera meiri hérna í Danmörku. Ég tel að ástæðan sé sú að hér eru fleiri góðir leikmenn. Hér eru meiri gæði í grunninn en hæfileikaríkustu mennirnir hér eru ekki endilega betri en hæfileikaríkustu mennirnir heima. Erlendu leikmennirnir á Íslandi eru til að mynda almennt reyndari og dýrari en hérna. Bestu Íslendingarnir myndu einnig vera á meðal bestu leikmanna hérna,“ sagði Finnur og hann segir liðið í Árósum, Bakken Bears, hafa nokkra sérstöðu í Danmörku.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er Bakken Bears í hálfgerðum sérflokki. Þeir eru með meira fjármagn en önnur lið og eru að reyna að komast lengra en í Evrópukeppnunum. Erfitt er því að keppa við þá og þeir hafa verið stöðugir í mörg ár. Í úrslitarimmunni hafa þeir unnið tólf leiki í röð á síðustu árum. Þeir eru risinn hérna. Við erum ásamt tveimur til þremur öðrum liðum sem reyna að narta í hælana á þeim. Hjá Horsens vilja menn ná árangri og liðið varð meistari 2015 og 2016. Liðið hefur auk þess verið í úrslitum undanfarin ár, er núverandi bikarmeistari og menn vilja vera í toppbaráttunni.“

Spurður um hvernig það kom til að Finnur fór til Danmerkur segir hann landsliðsþjálfarann Craig Pedersen, sem lengi hefur búið í Danmörku, hafa átt hlut að máli.

„Ég held að Craig eigi nú stærstan þátt í því. Hann spilaði í Horsens og var vinsæll leikmaður hér í gamla daga. Þeir settu sig í samband við hann og mér skilst að Craig hafi bent þeim á mig. Þegar þeir fóru að skoða þá sáu þeir að ég hafði náð athyglisverðum árangri og var eitthvað sem þeir vildu skoða betur. Svo gekk þetta frekar fljótt fyrir sig eftir að við ræddum saman í fyrsta skipti. Þá snerist þetta bara um hvort ég vildi taka stökkið,“ sagði Finnur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans.