[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Sigríður Bogadóttir er fædd 8. nóvember 1944 í Hlíðarhúsi í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hlíðarhús var eitt af elstu húsum bæjarins, inni í miðjum miðbæjarrúntinum með kartöflugarða og hús ættingja allt um kring.

Jóhanna Sigríður Bogadóttir er fædd 8. nóvember 1944 í Hlíðarhúsi í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Hlíðarhús var eitt af elstu húsum bæjarins, inni í miðjum miðbæjarrúntinum með kartöflugarða og hús ættingja allt um kring.

„Njólabreiður voru frumskógarnir og litlir afgirtir blómagarðar lífguðu upp á tilveruna, með bryggjur rétt hjá og Heimaklettur og Helgafell trónandi yfir öllu. Fuglalífið hafði einnig sín áhrif og hafið, oft tryllt og ógnandi. Á sumrin á æskuárum dvaldi ég hjá móðurforeldrum mínum á Siglufirði, sem hafði einnig mikil mótunaráhrif, með nálægð við fjöll og dali ásamt hafi og sjómennsku.“

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri stundaði Jóhanna fyrst myndlistarnám í Frakklandi en síðar í Stokkhólmi við listaháskólann þar.

Í verkum Jóhönnu er myndheimurinn með rætur í náttúru og menningarheimi uppvaxtaráranna þar sem undur, sköpunarverkin og átökin í samspili manns og náttúru verða sem myndlíking um heiminn og tilveru jarðarbúa núna. Fljótlega þróuðust hjá henni ýmis tákn og form sem minntu á ógn firringar og neyslusamfélags; maðurinn á ystu nöf í brothættri veröld, fuglar í glergarði. Einnig koma friðarbarátta og jafnréttisbarátta kvenna við sögu í verkum hennar og nú á síðustu árum ógn loftslagsbreytinga. Fuglarnir sjást einnig oft í verkum hennar og hafið með sína fegurð og ógnir.

Jóhanna á að baki um 100 einkasýningar, þar af um 30 erlendis, og hefur hún sýnt mikið í Finnlandi og á fleiri Norðurlöndum. M.a. var hún með einkasýningu 1978 á listahátíð í Helsinki og síðar í listasafninu í Tampere og aðra í Helsinki og í Svíþjóð í Sveagalleriet í Stokkhólmi, í Gävle konsthall og í listasafni Sundsvall. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, m.a. með norræna listahópnum Riimfaxe í Kaupmannahöfn, í sýningu um norrænt málverk á Charlottenborg og í Luleå Konsthall í Svíþjóð. Hún hefur einnig haldið sýningar í Bandaríkjunum, t.a.m. í San Francisco og New York.

Verk eftir Jóhönnu er að finna á mörgum opinberum stöðum og stofnunum, bæði á Íslandi og erlendis. Þar má nefna listasöfn, t.d. Museum of Modern Art í New York, Alvar Aalto-safnið, nútímalistasafnið í Helsinki og Nationalmuseet í Stokkhólmi.

Jóhanna hefur unnið að ýmsum samvinnuverkefnum, t.d. í framkvæmdastjórn Umverfis ´80 sem haldið var í Breiðfirðingabúð í samvinnu við Listahátíð 1980 þar sem markmiðið var að vekja áhuga á umhverfismálum. Hún var einnig í framkvæmdastjórn fyrir Friðarvikuna sem haldin var í Norræna húsinu 1984 þar sem þemað var barátta gegn kjarnorkuvá og hernaðarhyggju með samvinnu um tíu friðarhreyfinga. Hún hefur dvalið víða erlendis við listsköpun. „Það hefur verið hvatning í voninni um einn heim okkar allra.“

Fjölskylda

Fyrrverandi eiginmaður Jóhönnu er Brynjar Viborg, f. 20.3. 1943, kennari og leiðsögumaður, búsett á Ísafirði.

Dóttir Jóhönnu og Brynjars er Eyja Margrét Brynjarsdóttir, f. 5.12. 1969, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, búsett í Reykjavík. Eiginmaður hennar er Arngrímur Vídalín, aðjunkt í íslenskum bókmenntum á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Barnabörn Jóhönnu eru Sólrún Halla Einarsdóttir, f. 1991; Védís Mist Agnadóttir, f. 1998, og Iðunn Soffía Agnadóttir, f. 2004.

Systkini Jóhönnu eru Eiríkur Bogason, f. 24.1. 1947, d. 23.3. 2018, framkvæmdastjóri Samorku, síðast búsettur í Kópavogi; Kristján Bogason, f. 24.5. 1948, rafvirkjameistari í Reykjavík; Soffía Bogadóttir, f. 13.7. 1950, d. 27.7. 1957; Svava Bogadóttir, f. 30.5. 1954, grunnskólakennari og fyrrverandi skólastjóri, búsett í Njarðvík; Drengur Bogason, andvana fæddur 1959; Gunnar Bogason, f. 15.8. 1961, sjómaður í Neskaupstað.

Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Halldóra Guðrún Björnsdóttir, f. 5.7. 1921, d. 4.6. 2009, ljósmóðir og húsfreyja í Vestmannaeyjum, og Bogi Jóhannsson, f. 30.9. 1920, d. 20.5. 2007, rafvirkjameistari í Vestmannaeyjum.