Guðrún Sigurveig Jóhannsdóttir fæddist 3. apríl 1941. Hún lést 16. október 2019.

Útförin fór fram 25. október 2019.

Það er erfitt að kveðja hvern vininn á fætur öðrum. Í byrjun þessa árs kvöddum við Signýju vinkonu okkar og nú er komið að því að kveðja hana Guðrúnu okkar sem barðist við sama grimma óvininn og Signý og því miður hafði hann betur í bæði skiptin.

Guðrún var mikill og virkur vinur í vinahópnum og Gunnar bóndi hennar ekki síður. Það fór ekki mikið fyrir þeim en alltaf voru þau boðin og búin þegar eitthvað stóð til og tóku fullan þátt í öllu gríni og glensi sem þessum káta hópi datt í hug hverju sinni.

Guðrún var líka góður starfsfélagi og ótrúlega minnug. Það var ósjaldan sem ég hringdi í Guðrúnu til að spyrja hana um eitthvað sem gerst hafði fyrir löngu og það brást ekki að Gunna mundi það eins og gerst hefði í gær.

Guðrún var söngelsk og kunni alla texta utan að og þau hjónin bæði. Þau sungu Rósina fyrir hópinn löngu áður en hún komst í tísku.

Já, það er margs að minnast þegar góðir vinir falla frá og söknuðurinn situr eftir.

En minningin er sem perla ein,

þau gleymast ei góðu árin.

Og tíminn líður sem líknandi hönd,

að lokum hann hylur sárin.

Við kveðjum þig vina hér og nú,

ert kölluð til æðri starfa.

Þakklát fyrir að þú varst þú.

Þér Rósirnar kveðju bera.

Guðbjörg Ellertsdóttir.