Hreindýr Dýrunum hefur fjölgað.
Hreindýr Dýrunum hefur fjölgað. — Morgunblaðið/Frikki
Ekkert bendir til þess að vetrardánartíðni hreinkálfa á Austurlandi aukist þótt þeir missi móður sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Náttúrustofu Austurlands (NA) um frumathugun á vetrarafkomu hreinkálfa.

Ekkert bendir til þess að vetrardánartíðni hreinkálfa á Austurlandi aukist þótt þeir missi móður sína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Náttúrustofu Austurlands (NA) um frumathugun á vetrarafkomu hreinkálfa.

Vegna gagnrýni á fyrirkomulag hreindýraveiða og óvissu um vetrarafkomu móðurlausra kálfa var NA falið að fara yfir fyrirliggjandi gögn um haust- og vortalningar 2000-2018, telja hreindýr á öllum veiðisvæðum haustið 2018 og vorið 2019. Eins að meta ástand kálfa að hausti út frá 15 felldum kálfum á veiðitíma 2018. Gögn frá Umhverfisstofnun voru skoðuð til að kanna hvað seinkun á veiðitíma kúa kynni að þýða.

Flestir hreinkálfar eru 9-13 vikna gamlir í upphafi veiðitíma. Þá hefur dregið mikið úr mjólkurþörf þeirra. NA bendir m.a. á að þrátt fyrir aukinn veiðikvóta til að stemma stigu við fjölgun hreindýra fjölgaði þeim úr 3.000 í 7.000 á árunum 2000 til 2018. Það bendir til að náttúruleg afföll séu minni en stofnlíkön gerðu ráð fyrir. Samanburður á afkomu kálfa fyrir og eftir kálfafriðun 2010 bendir ekki til þess að hærra hlutfall móðurlausra kálfa auki vetrardánartíðni þeirra almennt. Skoðun felldra kálfa á veiðitíma 2018 benti til almenns góðs líkamsástands dýranna.

NA segir að ekki sé hægt að líta á munaðarlausa kálfa að hausti sem bjargarlausa. Seinkun veiðitíma geti verið jákvæð fyrir kálfa, einkum þá yngstu, en gæti leitt til aukins og óæskilegs veiðiálags.

„Ef drægi úr veiðum og dýrum fjölgaði gæti það haft víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir hreindýrastofninn, gróðurfar, vistkerfi og jafnvel sauðfjárveikivarnir.“

gudni@mbl.is