Rútur Teitur Jónasson ehf. er öflugt fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Rútur Teitur Jónasson ehf. er öflugt fyrirtæki í ferðaþjónustu. — Morgunblaðið/Golli
Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til samninga við Teit Jónasson ehf. um að annast ferðaþjónustu fatlaðra í bænum. Starfsmenn bæjarins hafa farið yfir helstu þætti tilboðsins.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær að ganga til samninga við Teit Jónasson ehf. um að annast ferðaþjónustu fatlaðra í bænum. Starfsmenn bæjarins hafa farið yfir helstu þætti tilboðsins. Ekki hafa fundist villur og fyrirtækið stenst þær kröfur sem gerðar eru. Eigi að síður verður farið yfir alla liði tilboðsins áður en skrifað verður undir samninga til þess að athuga hvort tilboðið standist.

„Þetta er umtalsvert lægra en við reiknuðum með en fyrir hönd bæjarins get ég ekki sagt að mér þyki þetta of lágt tilboð. Ég hlýt að vera mjög ánægður með niðurstöðuna,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, spurður hvort tilboðið væri ef til vill of lágt.

Tilboð Teits Jónassonar ehf. í akstursþjónustuna reyndist langlægst í útboði bæjarins. Fyrirtækið býðst til að taka verkið að sér fyrir 776 milljónir kr. sem er 424 milljónum undir kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 1.200 milljónir, eins og fram kom í blaðinu í gær. Samið verður til fimm ára.

Ármann segir að margt í rekstri Teits Jónassonar ehf. hafi samlegðaráhrif við það verkefni sem hann er nú að taka að sér. „Auk þess höfum við átt viðskipti við fyrirtækið í mörg ár án þess að komið hafi til vandræða með reksturinn. Þetta er rótgróið fyrirtæki í Kópavogi sem eftir því sem ég best veit stendur mjög traustum fótum.“

Fyrirtækið Efstihóll ehf. fékk samning um þjónustuna eftir útboð á árinu 2016. Fyrirtækið óskaði eftir því að losna undan samningi vegna rekstrarerfiðleika og þess vegna er verið að bjóða út nú. helgi@mbl.is