Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í viðtali sem tímaritið The Economist birti í gær að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins stæðu nú frammi fyrir „heiladauða NATO“.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í viðtali sem tímaritið The Economist birti í gær að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins stæðu nú frammi fyrir „heiladauða NATO“.

Macron gaf til kynna að Evrópuríki í NATO gætu ekki lengur reitt sig á það að Bandaríkin kæmu þeim til varnar ef ráðist yrði á þau. Samkvæmt fimmtu grein stofnsáttmála NATO telst árás á eitt aðildarríkjanna jafngilda árás á þau öll en forsetinn var ekki viss um að hún væri enn í gildi. „Ég veit það ekki,“ svaraði hann þegar hann var spurður hvort hún gilti enn.

Macron sagði að ekkert samráð væri á milli Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja þegar mikilvægar ákvarðanir væru teknar í öryggismálum. Hann skírskotaði m.a. til þeirrar ákvörðunar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að flytja bandaríska hermenn í Sýrlandi frá landamærunum að Tyrklandi til að greiða fyrir innrás Tyrkja á yfirráðasvæði Kúrda sem voru bandamenn Bandaríkjahers í stríðinu gegn samtökunum Ríki íslams. Macron gagnrýndi einnig þá ákvörðun Tyrkja, sem eiga aðild að NATO, að hefja hernaðinn án samráðs við önnur ríki bandalagsins.

„Við erum að upplifa heiladauða NATO,“ sagði Macron. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kvaðst ekki vera á sama máli. „Hann notaði harkaleg orð – þetta er ekki mitt álit á samstarfinu innan NATO,“ sagði hún. Hún viðurkenndi að komið hefðu upp vandamál í varnarbandalaginu en sagði að svo sterk orð væru ekki nauðsynleg. bogi@mbl.is