Jón Ernst Ingólfsson fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1950. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 25. október 2019. Foreldrar hans voru hjónin Ingólfur Ólafsson verslunarmaður, f. 24. mars 1921, d. 17. nóvember 1966 og Guðlaug Hulda Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 28. júlí 1921, d. 25. febrúar 2005. Systkini Jóns eru Kolbrún Sigurbjörg, f. 10. mars 1943, Ingveldur, f. 7. mars 1944, Rósa Guðrún, f. 25. október 1946 og Aðalbjörg Gunnhildur, f. 23. mars 1961.

Kona Jóns er Dagný Guðmundsdóttir, f. 29. ágúst 1949. Foreldrar hennar voru Guðmundur Helgi Valdimarsson, f. 1926, d. 1951 og Rósa Einarsdóttir, f. 1922, d. 2005. Börn Jóns og Dagnýjar eru: 1. Rósa Dögg, grafískur hönnuður, f. 2. nóvember 1971, maki Hannes Már Sigurðsson, f. 1971. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Sara Sól, f. 11. desember 1997, b) Birta Rós, f. 27, júní 2003 og c) Embla Dögg, f. 20. febrúar 2007. 2. Helgi Hrannarr viðskiptafræðingur, f. 6. febrúar 1978, maki Harpa Rós Gísladóttir, f. 1978. Þeirra börn eru: a) Óliver Andri, f. 29. febrúar 2000, b) Alexander Kiljan, f. 5. júlí 2010, c) Kristófer Kjarval, f. 5. júlí 2010 og d) Hendrikka Rut, f. 4. janúar 2014. 3. Dagur Geir viðskiptafræðingur, f. 13. desember 1989, maki Elísa Rut Hallgrímsdóttir, f. 1992. Sonur þeirra er Rúrik Hrafn, f. 11. ágúst 2017. Einnig átti Jón dótturina Guðbjörgu Aðalheiði, f. 25. febrúar 1967. Maki Guðbjargar Aðalheiðar er Juan Carlos Melgar Rada, f. 1962. Dætur þeirra eru: a) Elín, f. 17. apríl 1992, sonur hennar er Grettir Diego, f. 19. ágúst 2018, og b) Hera, f. 3. september 1993.

Jón ólst upp í Reykjavík og starfaði við sölustörf og við eigin atvinnurekstur.

Jón verður jarðsunginn frá Garðakirkju í dag, 8. nóvember 2019, kl. 15.

Manstu pabbi eftir öllum jarðarberjunum í niðursuðudósunum sem við hámuðum í okkur og hlustuðum á Bítlana á meðan? Manstu eftir sjeiknum sem ég hellti yfir þig í bílnum þegar ég stóð á milli sætanna að syngja fyrir þig og manstu þegar þú kenndir mér að stela rabarbara? Ég man líka eftir snjóboltaprikunum og hvað þér þóttu eyrnasneplasnúningarnir góðir og ég man handtökin þín þegar þú tróðst Birtu í sokkabuxurnar. Manstu eftir öllum grillveislunum í garðinum, slöngunum sem þú reddaðir alltaf fyrir Skjaldbökubrekkuna, bústaðaferðunum í Munaðarnes og þegar ég straujaði felgurnar undan bílnum? Manstu eftir Æsufellsbrunanum og Gmunden og manstu eftir horninu þar sem þú festir alltaf bílinn í snjónum? Manstu þegar við gáfum Koleyru brauð út um svalahurðina og þegar við sátum saman á stofugólfinu að hlusta á tónlist og þú þýddir alla Bítlatextana fyrir mig?

Þær eru dýrmætar minningarnar elsku pabbi, og aldrei hlýrri og notalegri en akkúrat núna þessa síðustu daga. Við höfum hlegið og grátið í samverunni. Minningin um þig er djásn og dýrmæti sem við eigum, og yljum okkur við, og lofum að halda á lofti fyrir afaskarann þinn.

Góða ferð í Sóllandið, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt.

Rósa Dögg.

Það voru óhemjuþung sporin inn á æskuheimilið þennan morgun og að þurfa að tilkynna systkinum mínum þessar sorgarfréttir strax í kjölfarið því missir okkar allra er mjög mikill.

Fyrstu minningarnar mínar um okkur saman eru annars vegar tengdar því að við vorum að hlusta á músík, þar sem þú kynntir mig fyrir Stones, Zeppelin og Bítlunum og þessum bestu íslensku. Þegar við fórum saman á Dylan fengum við að sjá meistarann sjálfan sem við héldum báðir mikið upp á. Minningabrotin eru líka tengd útivist og gönguferðum um hraunið, í Kaldárseli og á Hengilssvæðinu en þarna naustu þín hvað best. Virðingin fyrir umhverfinu, náttúrunni og landinu var alltaf til staðar.

Þú varst í samanburði við flesta óvenjulegur pabbi, varst með sítt hár og með engar sérstakar reglur sem vinir mínir öfunduðu mig af. Þú varst til í að leyfa öllum að leika heima og dauðlegir hlutir skiptu þig engu máli. Þú varst pabbinn sem leyfði manni að kaupa nammi, drekka kók, keyra bílinn og fórst í kappakstur þegar við vorum á ferðinni. Þú varst líka pabbinn sem sá um venjulegu hlutina eins og að vekja okkur í skólann, smyrja nesti og sjá til þess að allir mættu á réttum tíma. Þú varst pabbinn sem leyfð okkur að þróast og dafna á okkar eigin forsendum.

Stolt þitt af okkur systkinunum leyndi sér ekki og þú varst ánægður að við skyldum öll halda til náms í Bandaríkjunum. Þú fórst frekar seint í þína fyrstu ferð þangað og þá til að fagna með mér útskrift. Þetta voru æðislegir dagar og þar kunnir þú vel við þig. Ég veit þú hefðir viljað hafa mömmu með þér og því var það gleðilegt þegar Dagur útskrifaðist mörgum árum síðar að þið skylduð hafa farið saman, ég veit að það var þér ómetanleg ferð. Ég hefði óskað að ferðirnar hefðu verið fleiri, en þú vildir frekar sleppa því að koma með en að skilja mömmu eftir.

Þegar við Harpa fórum að vera saman og Óliver kom inn í líf okkar allra er mér minnisstætt hversu vel þið mamma tókuð honum og hafið gert alla tíð. Slíkt segir mikið um ykkur bæði. Alexander, Kristófer og Hendrikka sakna afa síns mikið og kvíða aðeins fyrir jarðarförinni.

Jólin sem voru heilagur tími hjá okkur verða erfið. Við munum hins vegar halda í heiðri allar þínar hefðir og halda minningu þinni á lofti ásamt því að við verðum dugleg að segja krökkunum sögur af afa, afanum sem vildi allt fyrir alla gera og aldrei þiggja neitt á móti. Við munum passa vel upp á mömmu sem hefur ekki oft verið án þín þessi rúmlega 50 ár sem þið hafið verið saman. Ég fékk ekki að hafa veitingarnar í þínum anda í erfidrykkjunni af því að mömmu fannst þær ekki nóg smart, en þær verða á boðstólum þegar við höldum upp á 70 ára afmælið þitt í febrúar.

Elsku pabbi, mikið ofboðslega þótti mér vænt um þig og mikið mun ég sakna þín. Ég sé óstjórnlega eftir öllum tímanum sem við hefðum átt að eiga saman en fáum aldrei. Ef einhver átti skilið gott ævikvöld þá varst það þú. Ég veit að þú munt taka á móti mér síðar meir með opinn faðminn. Fram að þeim tíma veit ég að þú vakir yfir okkur öllum og þá sérstaklega mömmu.

mbl.is/andlat

Helgi Hrannarr Jónsson.

Elsku pabbi, síðustu dagar hafa verið tómlegir án þín og það er svo augljóst hversu stórt og mikilvægt þitt hlutverk var. Tómið sem þú skildir eftir þig er vandfyllt.

Vinátta okkar var ómetanleg. Raunveruleikinn sem blasir við er kaldur en á sama tíma hefur hann orðið til þess að við þéttum raðir. Samhugurinn sem við höfum fundið fyrir sl. daga hefur sýnt hversu einstakur þú varst. Samtöl okkar um veður og verð á kjöti eru allt í einu orðin dýrmæt. Öll augnablikin með þér eru orðin minning, sem ég mun alla tíð varðveita. Við vorum svo oft á sömu blaðsíðu, það er það sem gerði okkar vinasamband sérstakt. Þú varst alltaf í mínu liði. Þú varst besti liðsfélagi sem ég hef átt. Það vissir þú.

Ég mun reyna að tileinka mér ítrekanir þínar. „Dagur minn, ekki láta hlutina bíða til morguns ef þú getur klárað þá í dag.“

Ég á svo margar minningar sem ég gæti rifjað upp. Bandaríkin 2014. Þessi ferð, sem var þín síðasta þrátt fyrir að dreyma um sól og einn kaldan í framandi landi, verður aldrei endurtekin.

Þessi ferð verður lengi í minnum höfð þar sem við náðum að gera svo margt. Að þið mamma voruð viðstödd var mér mikils virði og í dag ómetanlegt. Það koma augnablik í lífinu þar sem þú hefðir þurft að vera til staðar. Það verður tómlegt að sitja ekki í bílnum með þér á aðfangadag, hafa þig ekki í þrítugsafmælinu mínu né við hliðina á mér þegar ég gifti mig. Við áttum svo margt ógert. Þetta verður aldrei eins án þín. Þú fórst allt of snöggt, alltof ungur án tækifæris til að kveðja.

Ég hugsa til samtals okkar kvöldið áður en þú kvaddir. Mamma sagði að þú hefðir bannað henni að ganga frá bílunum hans Rúriks þar sem það gæti verið að hann kæmi inn áður en þú skutlaðir okkur út á flugvöll.

Að fylgjast með þér í afahlutverkinu var fallegt. Þú vildir allt fyrir Rúrik gera. Það var dýrkun á báða bóga. Ég hafði gaman af því að gamli orðaforðinn þinn, sem þú notaðir á mig þegar ég var barn, kom aftur. Orð eins og „hukkali“, „pjassl“ og „gústalavass“ voru mikið notuð.

Rúrik talar mikið við myndina af þér, það er stundum eins og þú svarir honum því hann heldur ótrauður áfram að tala. Myndin af þér fær óspart boð um mat og hann hefur gaman af því að keyra bíla kringum myndina. Daginn sem þú kvaddir kom hann inn heima hjá ykkur mömmu og kallaði á þig: „Amma Nonna.“ Rúrik sá mömmu og spurði: „Hvar afi?“ Svörin sem við gátum gefið voru í formi tára.

Augnablikið 12. ágúst 2017. Þú hafðir eignast nýjan vin deginum áður. Vin sem átti eftir að ylja og gleðja þig næstu árin, en í alltof skamma stund. Hamingjan leyndi sér ekki í augunum þínum og átti hún eingöngu eftir að aukast með árunum.

Þið voruð búnir að mynda svo fallegt samband og það er sárast að hugsa til þess að Rúrik muni ekki ná að halda minningunni gangandi. Ég mun gera allt til þess að þessi minning muni lifa.

Pabbi, afi og tengdapabbi. Þungu sporin okkar koma daglega, spölur okkar er langur og erfiður. Þú ert kominn á fallegan stað, með góðu fólki sem þykir vænt um þig. Á sama tíma er söknuðurinn og nýi raunveruleikinn nokkuð sem við hin þurfum að læra að lifa við, og er það kannski stærsta áskorunin.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú hefur veitt mér og mínum. Takk fyrir samfylgdina og stuðninginn í gegnum árin.

Pabbi, þetta er kveðjan mín, ég elska þig. Góða nótt.

Þinn

Dagur. mbl.is/andlat

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér.

Skrítið stundum hvernig lífið er.

Eftir sitja margar minningar,

þakklæti og trú.

(Ingibjörg Gunnardóttir)

Þegar ég var unglingur og við Helgi farin að skjóta örvum okkar í milli hitti ég Nonna ekki mikið. Samskiptin voru aðallega á milli mín og Dagnýjar. Það rann fljótt upp fyrir mér að þau voru ekki eins og flestir aðrir foreldrar sem ég þekkti, þau voru öðruvísi, frjálslegri og mjög töff í mínum huga. Það var ekki feimninni fyrir að fara í Hraunhólunum og er mér það mjög minnisstætt þegar ég kom þangað eitt sinn og átti nokkurn veginn fyrsta samtal mitt við Nonna. Ég var þá að bíða eftir Helga og ég sat í stofunni með Nonna, frekar óstyrk. Þá smellti hann þessari setningu sem hefur yljað mér um hjartarætur og ég hef getað í gríni notað mér í hag: „Harpa mín, ég skil bara ekkert í syni mínum hvað hann ætlar að hugsa það lengi hvort hann ætli að vera kærastinn þinn eða ekki, hann hlýtur að vera hálfviti að geta ekki ákveðið sig!“ Þarna roðnaði ég algjörlega upp fyrir haus, langaði að hverfa ofan í jörðina en vonaði að hann væri búinn að fara yfir þessi mál með syninum, sem kom svo á daginn einhverju seinna. Ég hef alltaf fundið að Nonna þótti ósköp vænt um mig og þótti enn vænna um hversu mikil fjölskyldumanneskja ég er. Það var kostur að hans skapi enda var hann mjög náinn systrum sínum og ræktaði samband við þær aðdáunarlega.

Eftir að ég kom í fjölskylduna var ég nokkuð viss um að Nonni hefði eins konar matarást á mér. Allt sem ég bjó til þótti honum gott og hrósaði hann mér í hástert, nema þegar ég bauð honum upp á pasta. Það var með engu móti matur í hans huga. Þegar sá matur var borinn á borð kom einlægni og hreinskilni Nonna vel í ljós og ég fékk að heyra það hversu mikil sóun á hæfileikum mínum í eldhúsinu það væri að bjóða upp á þennan mat. Þegar staðreyndin er sú að ég muni ekki fá Nonna aftur í mat er mikil eftirsjá að hafa ekki verið duglegri að bjóða þeim í mat. Það verður ótrúlega skrítið að eiga ekki samtölin um rjúpurnar fyrir jólin og finna traustið frá honum til mín að elda uppáhaldsmatinn hans án vandkvæða. Setningar eins og: „Harpa mín, hvernig líst þér á rjúpurnar? Eru þær ekki bara flottar?“ Mikið á ég eftir að sakna þessa. Að kveðja er svo afstætt á þessum tímapunkti, elsku Nonni. Skyndilegt fráfall þitt liggur þungt á okkur öllum og söknuðurinn er mikill. Síðustu stundir sem við áttum saman segja svo margt um það hversu vænt þér þótti um okkur öll og hversu mikilvægt það var þér að hefðirnar sem þið Dagný bjugguð til yrðu við lýði. Ég lofa þér því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur að standa mína plikt í þeim efnum. Ég lofa því einnig að halda vel utan um stóru ástina í lífi þínu sem þú hugsaðir svo ótrúlega vel og fallega um. Eins mun ég halda þétt utan um Helga og börnin og munum við í sameiningu halda minningu þinni á lofti. Ég bið þig til baka og treysti því að þú vakir yfir okkur öllum. Elsku Nonni – ekki hafa áhyggjur af jólunum, þau verða ávallt eins og þau eiga að vera, í þínum anda.

Þín tengdadóttir,

Harpa. mbl.is/andlat

Elsku afi Nonni. Það er ótrúlega skrítið að koma til ömmu í Hraunhólana og það er enginn afi að taka á móti okkur. Enginn afi til að bjóða upp á súkkulaðikex og djús, enginn afi til að lauma kexpakka jafnvel með heim í nesti. Það verður skrítið að afi komi ekki við fyrir páskana með gjafir til okkar systkinanna sem hann og amma voru búin að útpæla og virða reglur mömmu og pabba hvort ætti að vera súkkulaði í boði eða ekki. En alltaf kom afi með páskaglaðninginn tímanlega. Við munum passa upp á ömmu eins vel og við getum þó svo að við komum aldrei til með að gera það eins vel og þú!

Mikið söknum við þín og vildum óska að við hefðum átt miklu meiri tíma með þér. Við kveðjum þig elsku afi með bæninni sem þér þótti svo vænt um og við lærðum snemma, alveg eins og þér fannst að það ætti að vera.

Faðir vor, þú, sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum

vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni,

heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin

að eilífu. Amen.

Elskum þig!

Þín afabörn,

Óliver Andri, Alexander Kiljan, Kristófer Kjarval og Hendrikka Rut.

Mágur minn, Jón Ernst Ingólfsson, lést óvænt föstudaginn 25. október sl. Það var alls ekki kominn tími á hann og aldrei hafði ég hugsað til þess að hann kynni að deyja fljótlega. Það er þó eitt það fáa örugga í heiminum að víst munum við öll deyja en það er alltaf jafnt sárt þegar það gerist upp úr þurru án nokkurs aðdraganda. Jón var ekki tilbúinn til þess, hlakkaði til slátursins hjá systur sinni Rósu eftir rúma viku og var að ráðgera ferð til Berlínar, sem hann átti eftir að sjá, og svo langaði hann til sólarlanda yfir vetrarmánuðina. Nú verður ekki af þessu en hann er þó þegar kominn til sólarlandsins.

Ég er búinn að þekkja Jón í hálfa öld, allt frá því að ég og Kolbrún systir hans kynntumst og gengum í hjónaband fyrir margt löngu síðan. Jón var góður maður og heilsteyptur. Hann starfaði lengst sem sölumaður og var góður í því. Hann vann lengi í Plastos hjá Oddi Sigurssyni, en þeir bræður Jón „milljón“ framkvæmdastjóri og Sveinbjörn byggingaverktaki Sigurðssynir voru þekktir menn á sinni tíð, sem ég kannaðist vel við. Jón Ernst starfaði síðar í Plastprenti og eftir að hann settist í helgan stein hélt hann áfram að sinna nokkrum viðskiptavinum áfram og það lýsir trúmennsku hans og færni.

Kona Jóns, Dagný Guðmundsdóttir, var stoð hans og stytta í áratugi. Þau bjuggu á fallegu heimili í hrauninu í Garðabæ þar sem fjölskylda Dagnýjar hafði búið í margar kynslóðir. Þau bjuggu við barnalán og börn þeirra eru einstaklega duglegir og hæfir einstaklingar. Barnabörnin eru mörg og þau sakna afa síns sárlega. Jón hafði mikið álit á Bítlunum og hélt upp á tónlist þeirra. Hann safnaði hári á þeim tíma eins og margir unglingar gerðu þá en hann hélt hárlokkunum alla tíð og síða hárið var einkenni hans. Það sýndi að hann var ekki mikið fyrir að breyta út af því sem vel gafst og átti það líka við skoðanir hans. Hann var ákveðinn í viðhorfum sínum og breytti þeim ekki mikið í tímans rás.

Jón fór um allt land í söluferðir og þekkti hvern krók og kima á vegum landsins. Þegar við vorum á ferð um landið sagði hann stundum frá því að bak við næstu beygju mætti búast til hraðaeftirliti lögreglu og passaði þetta alltaf. Fjölskyldur okkur fórum oft í veiði og var Jón góður veiðifélagi; þótt áhuginn væri ekki alltaf mikill bætti hann það upp með því að vera mjög fiskinn, eiginleiki sem er ekki allra.

Hann var alltaf ljúfur, var ráðagóður og hugsaði vel um fjölskylduna. Jón og systur hans, en hann átti fjórar systur, héldu vel hópinn og aldrei var haldið svo fjölskylduboð að Jón væri þar ekki fremstur í flokki. Það er mikið skarð fyrir skildi við fráfall Jóns Ernst. Megi algóður Guð halda verndarhendi yfir Dagnýju, börnum og barnabörnum. Hans verður sárt saknað.

Ágúst Einarsson.

Elsku Nonni frændi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mér líður þannig núna.

Ég hugsa til mars þegar við hittumst fjölskyldan hjá mömmu og síðustu myndarinnar sem ég á af þér.

Ég hugsa til júní, þegar við fjölskyldan vorum á leið í sumarfrí og ætluðum m.a. að heimsækja Hornafjörð, þú sendir mér tölvupóst og spurðir hvort ég gæti reddað þér humri. Af rælni svaraði ég því til að ég skyldi kanna málið. Í kjölfarið bárust mér nánast daglega tölvupóstar, jafnvel fleiri en einn á dag, þar sem þú spurðir frétta af stóra humarmálinu. Og humarinn fékkstu.

Ég hugsa til júlí og dvalarinnar í bústaðnum í Hvammi og hvað það hefði verið gaman ef þú og Dagný hefðuð getað verið með okkur eins og sumrin 2014, 2009 og 1998.

Ég hugsa til ágúst og september þegar þú sendir mér nokkra tölvupóstana og óskaðir mér til hamingju með Íslandsmeistaratitil KR.

Ég hugsa til október þegar þú hringdir til mín eins og þú yfirleitt gerðir á afmælisdaginn minn og við áttum stutt en gott spjall, þegar ég hitti þig í síðasta sinn í fiskibollum hjá mömmu og þegar mamma hringdi að morgni afmælisdags síns og sagði að þú værir látinn.

Ég er ennþá að átta mig á því að þú sért horfinn á braut. Litli, og eini, bróðir mömmu sem alltaf hefur verið hluti af lífi mínu alveg frá því ég fyrst man eftir mér. Heimsóknir til ykkar Dagnýjar og Rósu Daggar í Æsufellið og síðar þegar Helgi Hrannarr hafði bæst við fjölskylduna heimsóknir og gistingar til ykkar í Hraunhólana. Það var ævintýri fyrir ungan mann, búsettan í kjallaraíbúð í Vesturbænum, að koma til ykkar í risastóra húsið sem stóð út af fyrir sig í hraunjaðrinum í Garðabæ. Minningar um naglaspýtur, hurðarlaus dyraop, stóra stigann úr stofunni upp á loftið og hálfklárað loftið. Plötusafnið þitt, holugrilluðu lambalærin þín, fermingarveislu okkar Rósu Daggar og hin ýmsu afmæli ömmu Huldu. Minnisstæðast er mér samt þegar þú tókst að þér föðurhlutverkið að kenna mér að raka mig. Þér þótti hýjungurinn á unglingnum orðinn frekar mikill og sýndir mér til verka á baðinu á Hraunhólunum.

Við hittumst reglulega í afmælisveislum, jólaboðum, sláturveislum og á öðrum mannfögnuðum í fjölskyldunni enda hafið þið systkinin alltaf verið samheldin. Við systkinabörnin lærðum það fljótt að við værum partur af góðri og tryggri fjölskyldu. Á erfiðu tímabili í lífi mínu heimsótti ég þig og Dagnýju oft í Hraunhólana. Það var gott að tala við ykkur og það hjálpaði mér mikið við að takast á við mín mál. Ég hugsa til þess tíma með hlýju og þakklæti. Þegar stóra ástin kom loks inn í líf mitt var það hjá ykkur Dagnýju í Hraunhólunum sem Ásta fyrst hitti fjölskylduna mína á gamlársdag 1999. Nú 20 árum síðar, og við náum ekki að fagna nýju ári og 70 árum með þér.

Elsku Nonni, ég kveð þig með söknuði og sorg. Ég hugsa til þín í ljúfum faðmi ömmu og afa og veit að þið munuð vaka yfir stóru fjölskyldunni þinni og stórfjölskyldunni okkar. Hvíl í friði, elsku frændi.

Ingólfur Már Ingólfsson.

Við kveðjum elskulegan vin okkar hjóna. Það sköpuðust snemma á lífsleiðinni sterk vináttubönd okkar við þau Jón Ingólfsson og Dagnýju Guðmundsdóttur og þó sambandið hafi verið slitróttara í seinni tíð erum við bundin eilífum böndum. Sama gildir um börn okkar. Samvistir voru miklar og minnisstæðar. Með engum skemmtum við okkur meira og innilegar.

Jón var stór í sniðum á allan hátt og ævinlega trúr sjálfum sér og traustur. Hann var óhræddur við að fara sínar eigin leiðir og skar sig snemma úr fyrir dirfsku í klæðaburði og hársídd, vakti athygli fyrir reisn og glæsileik.

Jón hafði sterkar skoðanir, ekki síst á þjóðfélagsmálum, var réttsýnn og heiðarlegur og naut mikils trausts í starfi og leik.

Jón var náttúrubarn og opnaði augu okkar fyrir fegurð íslenskrar náttúru sem hann unni mjög, hvort heldur það var í Skorradal, Borgarfjarðarhéraði eða Lóni í Öræfum.

Jón hafði einlæga trú á hvað tæki við eftir jarðneskan dauða. Hann kvaddi kyrrlátur og örugglega í góðri vissu um hvaða ferðalag tæki nú við. Við óskum honum góðrar ferðar í sumarlandið og vottum Dagnýju og börnum þeirra, fjölskyldunni allri, innilega samúð okkar með þakklæti fyrir það sem aldrei gleymist. Guð geymi þig, elsku vinur.

Jóhann Páll Valdimarrson og Guðrún Sigfúsdóttir.

Mér barst harmafregn, kær vinur minn til áratuga, Jón Ernst Ingólfsson, væri fallinn, horfinn úr þessu lífi, dáinn. Í fyrstu trúði ég ekki að Jón væri dáinn, það er bara tæp vika á milli okkar. Er lífið þá svona hverfult? Ég hugsaði um Jón og minningarnar tóku að streyma. Ég kynntist Jóni í fallbekk í Lindargötuskóla. Þar komu saman unglingar sem nenntu ekki venjulegu námi því þeir höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Ég hafði til dæmis bara áhuga á myndlist og afplánaði þarna skólavist svo ég gæti sótt um að hefja nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Sama gilti um alla hina, þar með Jón, sem mætti stundum í skólann, en virtist mjög upptekinn við eitthvað allt annað. Síðar komst ég að því að hann vann fulla vinnu með skólanum enda óvenjuorkumikill og hugumstór maður. Það var tónlistin sem tengdi okkur órjúfanlegum böndum, því áður en ég vissi af vorum við farnir að skjótast í frímínútum í Fálkann að hlusta á nýjustu plöturnar. Við Jón urðum mestu mátar, þótt líf hans væri hulu þakið að miklu leyti framan af. Svo skildi ég allt einn daginn þegar hann kynnti mig fyrir kærustu sinni, henni Dagnýju. Þá bjó ég hjá foreldrum mínum í Þórufelli. Stuttu síðar keyptu Jón og Dagný íbúð í Æsufelli við hliðina á blokk foreldra minna. Ég trúði þessu varla en svona er lífið og einn daginn hringdi hann í mig og spurði hvort ég vildi brenna með sér í Hveragerði. „Kem eftir fimm,“ mælti Jón og ég mætti snarlega út á plan, þar sat hvítur Thunderbird, greinilega beint úr kassanum með dökkrauðum leðurklæðum að innan. „Jón, átt þú þennan kagga?“ „Já, leggjum í hann, ég er hérna með frábæra snældu með Moody Blues.“ Þessi ferð situr enn greypt í mig þegar við svifum yfir Hellisheiðina með „To Our Children's Children's Children“ á fullu blasti í flottustu steríógræjunum í bænum.

Seinna byggðu þau hjón Jón og Dagný sér vin í Garðabæ, steinhús byggt í dönskum bændastíl, fagurt, stílhreint og einfalt. Þar kynnti hann mig fyrir hljómsveitinni Supertramp, tónlist sem enn lifir í hjarta mínu og Jóns. Jón var frábær gestgjafi og félagi sem gaf af sér en vænti einskis í staðinn.

Ég sakna þín, elsku vinur, og ég er viss um að við hittumst aftur til að rifja upp gamla tíma. Ég votta eiginkonu, börnum og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Kristján Frímann

Kristjánsson.

Jón Ernst Ingólfsson er einn eftirminnilegasti og litríkasti samferða- og samstarfsmaður sem ég hef átt skipti við á lífsleiðinni. Leiðir okkar lágu fyrst saman árið 1969, fyrir réttri hálfri öld, þegar ég hóf störf í Plastprenti hf. Jón var þá nýtekinn við sem sölustjóri hjá systurfyrirtæki Plastprents, Plastpokum hf. á Laugavegi 71, undir framkvæmdastjórn Hjálmars F. Hafliðasonar (1919-1998).

Jón var aðeins 19 ára, en krókurinn þegar tekinn að beygjast til þess sem verða vildi. Hann var sölumaður af guðs náð. Hann fór eigin leiðir í störfum sínum og skilaði bestum árangri þannig. Hann þandi út viðskiptanet fyrirtækisins og hélt utan um sína viðskiptavini af umhyggju og ræktarsemi – og tengdist þeim tryggðaböndum, sem héldu í gegnum þykkt og þunnt, hvar sem hann drap síðar niður fæti á áratugalöngum ferli sínum innan umbúðaiðnaðarins.

Jón starfaði samanlagt í allmörg ár hjá Plastpokum hf. og Plastprenti hf. Hann skipti um vettvang um tíma, en sneri aftur nokkrum árum síðar og var tekið tveim höndum.

Jón Ernst Ingólfsson var fasmikill, hreinskiptinn og frjór – og var annt um heiður sinn. Hann átti á sínum tíma góðan þátt í vexti og viðgangi Plastprents hf. og annarra fyrirtækja í umbúðaiðnaðinum sem hann starfaði hjá. Þótt nokkuð sé um liðið síðan því dagsverki lauk, skal þess minnst við þessi tímamót – og þakkað að verðleikum.

Eggert Hauksson,

fv. framkvæmdastjóri Plastprents hf.