[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Kristján Jónsson kris@mbl.is Nú liggur fyrir hverjir munu verja heiður Íslands í síðustu tveimur leikjunum í undankeppni EM karla í knattspyrnu. Ísland fer til Tyrklands og Moldóvu en leikirnir fara fram 14. og 17. nóvember.

EM 2020

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Nú liggur fyrir hverjir munu verja heiður Íslands í síðustu tveimur leikjunum í undankeppni EM karla í knattspyrnu. Ísland fer til Tyrklands og Moldóvu en leikirnir fara fram 14. og 17. nóvember. Þrátt fyrir að Ísland hafi unnið fimm leiki af átta í undankeppninni er engu að síður fremur langsótt að Ísland komist upp úr riðlinum vegna góðs árangurs Tyrkja. Ísland þarf að vinna Tyrkland og Tyrkir mega heldur ekki vinna í Andorra til að dæmið geti gengið upp eins og fram hefur komið.

Ísland er án fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar og Jóhanns Bergs Guðmundssonar sem báðir eru á sjúkralistanum. Þegar það barst í tal á blaðamannafundi hjá KSÍ í gær sagði landsliðsþjálfarinn að það væri ekkert nýtt. Sú staða hefði oftar en ekki verið frá því hann tók við liðinu. Einn nýliði er í hópnum en það er Mikael Anderson sem leikið hefur vel að undanförnu með Midtjylland sem er í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Hann á reyndar einn A-landsleik að baki og hefur verið í lykilhlutverki í 21-árs landsliði Íslands.

Reynsluboltarnir Birkir Már Sævarsson og Emil Hallfreðsson voru ekki valdir en voru í hópnum í október. Hamrén sagði að staða Emils væri einfaldlega erfið þar sem hann væri enn án félags og Birkir er með beinmar. Baráttan um hægribakvarðarstöðuna stendur því á milli Guðlaugs Victors Pálssonar og Hjartar Hermannssonar. Að því gefnu að liðið spili með fjögurra manna vörn eins og verið hefur.

Erfitt að skora gegn Tyrkjum

Fram kom hjá Frey Alexanderssyni aðstoðarþjálfara að tyrkneska liðið hefði tekið miklum framförum á allra síðustu árum en Freyr sá um að fjalla um andstæðinga Íslands á fundinum. Freyr benti á þá staðreynd að Tyrkland er orðið öflugt varnarlið. Svo öflugt raunar að liðið hefur ekki fengið á sig mark í opnu spili í allri undankeppninni. Liðið hefur fengið á sig þrjú mörk í leikjunum átta og komu þau öll eftir föst leikatriði. Tvö þeirra komu á Laugardalsvellinum og eitt gegn Frökkum í París í síðustu umferð.

Freyr bætti því auk þess við að samstaðan hjá Tyrkjum virtist vera mun betri í þessari undankeppni en hún hefði stundum verið. Ekki hefði alltaf verið eining innan liðsins vegna rígs á milli félagsliða og liðið því stundum þurft að reiða sig á einstaklingsframtak hjá hæfileikaríkum einstaklingum.

Þessir molar hjá Frey varpa betra ljósi á hvers vegna Tyrkland hefur náð þeim úrslitum sem raun ber vitni í undankeppninni. Tyrkland vann Frakkland á heimavelli og gerði jafntefli gegn Frakklandi á útivelli. Tyrkland vann einnig Albaníu á útivelli sem eru dýrmæt stig en þar töpuðu okkar menn í september.

Undir lok undankeppni HM náði íslenska liðið stórkostlegum úrslitum í Tyrklandi þegar Ísland vann 3:0. Í ljósi þeirra úrslita binda áreiðanlega margir knattspyrnuunnendur vonir við að Íslendingar geti unnið aftur í Tyrklandi. Því miður virðist tyrkneska liðið vera á öðrum og betri stað en haustið 2017 og verkefnið verður því væntanlega mun erfiðara í þetta skiptið.

Ekki til umræðu

Þjálfararnir báðir voru spurðir hvort þeir hefðu rætt við Kolbein Sigþórsson eftir umfjöllun fjölmiðla í síðustu viku um að hann hefði verið handtekinn í Svíþjóð. Sögðust þeir vera í góðum samskiptum við Kolbein en þá væri knattspyrnan umræðuefnið. Vildu þeir ekki tjá sig að öðru leyti en Hamrén sagði að umrædd uppákoma væri á milli leikmannsins og hans félagsliðs.