Sigurður Magnús Sigurðsson fæddist 3. september 1957. Hann lést 25. október 2019.

Útför Sigurðar var gerð 7. nóvember 2019.

Ég hitti Sigga fyrst 19. júlí 1998 á Laugarvatni og tilefnið var að tengdaforeldrar mínir voru að halda upp á 40 ára brúðkaupsafmælið sitt. Höfðu þau boðið börnum sínum og mér, eina tengdasyninum, í kaffi á Laugarvatni. Þeim og okkur til mikillar undrunar bættist við í hópinn annar tilvonandi tengdasonur, því þar kynnti Binna hann Sigga sinn til leiks. Ég man ennþá hvað hann var stressaður þennan dag og líka hversu vel okkur kom saman alveg frá upphafi. Það kom fljótlega í ljós hve auðvelt hann átti með að svara skemmtilega fyrir sig með hnyttnum setningum sem ég og aðrir áttum eftir að hlæja svo vel og lengi að. Siggi var í veitingageiranum þegar ég kynntist honum og átti og rak ásamt öðrum vinsælan veitingastað. Fyrir hartnær 15 árum stóð ég frammi fyrir því að mig vantaði mann til að sjá um mötuneytið hjá Würth, þar sem þáverandi rekstraraðili var að hætta hjá okkur. Ég bað Sigga um að koma og skoða hvað hann gæti gert. Hann mætti, skoðaði aðstæður og sagði svo orðrétt eftir nokkurra mínútna umhugsun: „Þetta get ég gert en ég vil gera þetta á minn hátt.“ Ég sagði bara allt í lagi og þar með var hugmyndin að „Í mat“ fædd. Sá átti eftir að breyta hádegisvenjum okkar! Frábær, ekta margrétta íslenskur heimilismatur var í boði daglega. Ég var svo lánsamur að sjá hvernig hann fór létt með að laða til sín frábært og lífsglatt starfsfólk og láta þetta fyrirtæki hans vaxa frá því að 20 manns mættu í mat hádeginu upp í allt að 200-300 manns. Siggi stóð sína plikt í hverju hádegi, tók á móti öllum með bros á vör og kvaddi gesti þegar þeir fóru saddir af svæðinu aftur. Ástríðan og gleðin sem þetta gaf Sigga var augljós og gleði og góða skapinu smitaði hann út frá sér á hverjum degi frá því hann hóf reksturinn á „Í mat“ og þar til hann fór yfir móðuna miklu fyrir nokkrum dögum.

Siggi var snillingur í tilsvörum til matargesta sinna. Einhverju sinni kallaði einn matargesturinn yfir salinn: „Siggi, það er eggjaskurn í salatinu.“ Siggi kallaði á móti: „Ok, en þú þarft ekki að borga neitt aukalega fyrir það.“ Annar viðskiptavinur var að koma í mat til Sigga í fyrsta sinn og lítur inn og yfir salinn og á það sem boðið er upp á þann daginn og segir síðan: „Þetta lítur svo sem ágætlega út hérna.“ Siggi heyrir þetta og botnar: „sem er eins gott fyrir þennan pening.“ Einhverju sinni fann einn matargesturinn bein í fiskstykki sem hann var að borða og lætur hann Sigga vita. Siggi svarar að bragði: „Já, ég vildi bara láta vita að hann væri íslenskur.“ Tilsvörin hjá Sigga voru öll á þessa leið, alltaf léttur og alltaf stutt í grínið og þennan stutta skemmtilega hlátur með þessu óborganlegu brosi.

Elsku Binna, Gilbert, Fannar, Kristín og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Haraldur Leifsson.

Mikið er nú erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, elsku Siggi. Það er svo mikið sem við áttum eftir að gera saman en því miður tóku veikindin völdin þrátt fyrir hetjulega baráttu þína. Lífið getur verið svo ósanngjarnt.

Þú varst alltaf svo góður og hjálpsamur, það var alltaf hægt að leita til þín. Betri tengdaföður var ekki hægt að hugsa sér. Alltaf hlýnaði mér um hjartarætur þegar þú kallaðir mig þinn uppáhaldstengdason, þótt ég væri sá eini. Ég mun ávallt hugsa vel um litlu stelpuna þína og gullmolana okkar.

Við vitum að þú munt vaka yfir okkur og vernda að eilífu.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu,

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varstu kallaður á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Hvíldu í friði, elsku Siggi.

Þinn tengdasonur,

Daníel.