Óheppinn Gísli Þorgeir Kristjánsson fór meiddur af velli.
Óheppinn Gísli Þorgeir Kristjánsson fór meiddur af velli. — AFP
Uwe Gensheimer reyndist hetja Rhein-Neckar Löwen þegar liðið fékk Kiel í heimsókn í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leiknum lauk með 26:25-sigri Löwen en Gensheimer skoraði sigurmark leiksins þrjátíu sekúndum fyrir leikslok.

Uwe Gensheimer reyndist hetja Rhein-Neckar Löwen þegar liðið fékk Kiel í heimsókn í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leiknum lauk með 26:25-sigri Löwen en Gensheimer skoraði sigurmark leiksins þrjátíu sekúndum fyrir leikslok.

Kiel byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og náði sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, 13:6. Löwen tókst að koma til baka og var staðan 13:10 í hálfleik, Kiel í vil. Löwen tókst að jafna metin í 15:15 þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og eftir það var mikið jafnræði með liðunum.

Ljótt atvik átti sér stað á 53. mínútu þegar Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Kiel, lenti illa á gólfinu og fór meiddur af velli en hann fór úr lið á vinstri öxl.

Gísli komst ekki á blað hjá Kiel en Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir Löwen.

Kristján Andrésson er þjálfari Löwen en liðið fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 16 stig en Kiel er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig og á leik til góða á topplið Hannover sem er með 19 stig.

Þá skoraði Ragnar Jóhannsson eitt mark fyrir Bergischer sem vann 25:24-heimasigur gegn Aðalsteini Eyjólfssyni og lærisveinum hans í Erlangen. Balingen og Stuttgart gerðu svo 25:25-jafntefli þar sem Íslendingar komust ekki á blað. bjarnih@mbl.is