Evrópudeildin
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Manchester United lék á als oddi þegar liðið fékk serbneska liðið Partizan Belgrad í heimsókn í L-riðli Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í gær. Leiknum lauk með 3:0-sigri United þar sem fremstu menn liðsins voru allir á skotskónum, þeir Mason Greenwood, Anthony Martial og Marcus Rashford.
United hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel að skora mörk á þessari leiktíð og hefur sóknarleikur liðsins oft á tíðum verið harðlega gagnrýndur af stuðningsmönnum liðsins. Liðið skoraði hins vegar þrjú góð mörk í gær en þetta var í þriðja sinn á tímablinu sem liðið skorar þrjú mörk eða meira í leik á keppnistímabilinu.
Marcus Rashford hefur stigið upp að undanförnu og var hann að skora sitt áttunda mark á tímabilinu í sextán leikjum. Martial hefur einni verið að koma sterkur inn en United þarf nauðsynlega á þeim tveimur að halda, ef liðið ætlar sér að berjast um Evrópusæti. United er komið með annan fótinn í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar og dugar eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum til þess að fara áfram í útsláttakeppnina.
Arnór Ingvi Traustason og liðsfélagar hans í Malmö gerðu 0:0- jafntefli gegn Lugano á útivelli í B-riðli keppninnar. Arnór Ingvi lék allan leikinn fyrir Malmö en sænska liðið hefði með sigri getað tyllt sér á toppinn í riðlinum. Í staðinn er Malmö í þriðja sæti riðilsins með 5 stig, einu stigi minna en topplið FCK og Dynamo Kiev, sem eru með 6 stig. Malmö er hins vegar með örlögin í eigin höndum því liðið mætir Dynamo Kiev og FCK í síðustu tveimur umferðunum.
Þá var Jón Guðni Fjóluson ónotaður varamaður hjá Krasnodar sem vann 3:1-sigur gegn Trabzonspor á heimavelli og Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu sem gerði markalaust jafntefli gegn Ferencváros í Ungverjalandi.