Sigurður Bjarnason frá Óseyri í Stöðvarfirði fæddist 4 september 1932 á Hóli í Breiðdal. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð, Seyðisfirði 29. október 2019.

Foreldrar hans voru Bjarni Metúsalem Jónsson, f. 26. nóvember 1891, d. 1. ágúst 1974, og Jóhanna Elísabet Sigurðardóttir, f. 31. júlí 1899, d. 10. janúar 1986.

Þriggja ára gamall fluttist Sigurður með foreldrum sínum frá Hóli í Dísastaðasel í Breiðdal og bjuggu þau þar til ársins 1945. Þá flutti fjölskyldan að Randversstöðum í Breiðdal og bjuggu þar til ársins 1947. Þessu næst fóru þau hjón með börn og búslóð yfir að Víkurgerði í Fáskrúðsfirði, en þangað hafði elzta dóttirin þá hleypt heimdraganum. Fjölskyldan settist að á Hvalnesi í Stöðvarfirði árið 1952 og bjó þar til ársins 1960. Þá flutti hún að Óseyri við Stöðvarfjörð og þar bjó Sigurður lengst af síðan. Alsystkini Sigurðar voru: a) Elín, f. 14. maí 1922, d. 3. júní 2002, b) Sigríður Ingibjörg, f. 9. júlí 1924, d. 16. október 1974, c) Herborg, f. 9. júlí 1924, d. 14. ágúst 2003, d) Jón, f. 21. júní 1930, d. 8. apríl 1999 og e) Þórir f. 3. mars 1936, d. 8. janúar 2012.

Börn Elínar og eiginmanns hennar, Ragnars Björgvinssonar, eru: a) Sigurvin, f. 22. júlí 1945, d. 15. júlí 1948, b) Sigrún, f. 28. júlí 1946, c) Jóhanna Sigurbjörg f. 10. maí 1948, d) Gunnar Þórður, f. 5. júlí 1949, d. 22. september 1975, e) Bjarni Metúsalem, f. 27. nóvember 1950, d. 13. ágúst 2004, f) óskírður drengur, f. 8. marz 1953, d. 13. marz 1953, og g) Björgvin Jónas, f. 5. maí 1958.

Sigurður og Þórir bjuggu áfram á Óseyri eftir lát foreldra þeirra og stunduðu þar búskap. Lengst af voru þar með þeim systkinin Herborg og Jón. Sigurður var samvinnumaður að upplagi og glöggur fjármaður, sem hugsaði vel um bústofn sinn. Hann naut sín vel í allri útivist, enda náttúruunnandi. Útför Sigurðar fer fram frá Stöðvarfjarðarkirkju í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 14.

Að Sigurði Bjarnasyni gengnum kveðjum við sem hann þekktum góðan dreng er við svo mörg eigum hlýjar minningar um. Hann var af flestum kenndur við Óseyri, enda ól hann þar aldur sinn lengst af eftir að foreldrar Sigurðar keyptu þessa góðu sauðfjárjörð. Eftir að foreldrarnir brugðu búi tóku bræðurnir Sigurður og Þórir við af þeim og sinntu jörð sinni af mikilli kostgæfni. Voru þeir umhyggjusamir við bústofn sinn og naut Sigurður sveitastarfanna í hvívetna. Tekið var eftir samheldni bræðranna og mikilli vandvirkni og snyrtimennsku, þegar gengið var til verka. Samhliða bústörfum og þeim tengt má geta þess að Sigurður gegndi starfi forðagæzlumanns fyrir byggðarlag sitt í áratugi. Hann var fjárglöggur með afbrigðum og smali góður, enda hafði hann sinnt fjallskilum í Stöðvardal og víðar í 52 ár, þegar yfir lauk.

Örnefnafróður var Sigurður og minnugur á nöfn og staðhætti með afbrigðum. Gilti það ekki bara um hans nánasta umhverfi, heldur Stöðvarfjörð allan. Hann gat verið forn í tali og sagði gjarnan, þegar honum voru boðnar góðgjörðir: „Vandi er vel boðnu að neita.“

Margir minnast Sigurðar fyrir steinasöfnun hans. Í ferðum sínum um fjöll og hlíðar heimabyggðar sinnar fór hann smám saman að taka með sér heim fágæta steina og halda þeim til haga. Það vatt svo upp á sig og ekki leið á löngu þangað til hann varð sér úti um sög til að opna undraheima þá er honum virtust búa í mörgum hnullungnum. Þær gersemar voru síðan hafðar til skrauts, bæði utan húss og innan.

Þeir bræður Sigurður og Þórir nutu þess á efri árum að fara í kynnisferðir um land sitt, einkum innan fjórðungs, rifja upp örnefni og snæða nesti úti í náttúrunni að þjóðlegum sið. Á efri árum vildi Sigurður eitt sinn fara að Dísastaðaseli til að rifja upp bernskuminningar, en til þess hafði hann aldrei gefið sér tíma meðan bústörfin kölluðu. Hann talaði ætíð fallega um hina fögru sveit Breiðdal og dvöl fjölskyldunnar þar, þótt vissulega hljóti stundum að hafa verið hart í ári á þeim tímum.

Hug sinn til átthaganna sýndu Sigurður og Þórir vel þegar þeir gáfu árið 2009 fjármuni til að reisa klukknaport við kirkjuna á Stöðvarfirði til minningar um systkini sín og foreldra. Síðar bætti Sigurður við veglegri gjöf í sama skyni til minningar um Þóri. Turninn mun því gnæfa við loft, jafnvel um aldir, sem sannur minnisvarði um gefendurna og halda minningu þeirra á lofti, þótt flest sé forgengilegt í heimi hér. Þeir bræður sýndu einnig vel hve mikils þeir mátu ástundun og árangur ungs íþróttafólks á Stöðvarfirði, þegar ákveðið var að tyrfa malarvöllinn utan við þorpið. Afhentu þeir allt þökuefnið í verkið, endurgjaldslaust. Munaði um minna.

Ég veit að ég tala fyrir munn margra af eldri kynslóð Stöðfirðinga þegar ég þakka Sigurði Bjarnasyni góð kynni og þá hlýju sem frá honum stafaði. Hann var hógvær, lítillátur og kurteis maður, en undir bjó sterkur vilji til að gera vel í þeim verkefnum sem hann tókst á hendur. Með honum er genginn mætur maður og trúr og sannur Stöðfirðingur.

Blessuð sé minning hans.

Björn Hafþór Guðmundsson. mbl.is/andlat