Léttur Ómar Ragnarsson á vespunni fyrir framan flugskýlið í Borgarnesi.
Léttur Ómar Ragnarsson á vespunni fyrir framan flugskýlið í Borgarnesi. — Morgunblaðið/Theodór Kr. Þórðarson
Borgarnes | Eftir því sem árunum fjölgar hægja flestir á sér og leita í öryggið og rólegheitin. Á þessu eru náttúrlega undantekningar eins og hann Ómar Ragnarsson, skemmtikraftur og fv.

Borgarnes | Eftir því sem árunum fjölgar hægja flestir á sér og leita í öryggið og rólegheitin. Á þessu eru náttúrlega undantekningar eins og hann Ómar Ragnarsson, skemmtikraftur og fv. fréttamaður, sannar á svo skemmtilegan hátt enda er hann ekki alveg orðinn áttræður ennþá.

Ómar þurfti nýverið að bregða sér frá Reykjavík upp í Borgarnes til að taka nokkrar lendingar á flugvélinni TF-RÓS sem hann hefur aðgang að og er geymd þar í flugskýli. En Ómar kom ekki á bíl frá Reykjavík heldur á vespunni sinni. Eftir að hann hafði brugðið sér í loftið og tekið sínar æfingar hélt hann aftur suður á leið. Ómar sagði að þessi fararmáti væri einn sá hagkvæmasti sem hugsast gæti og bensínkostnaðurinn ekki nema brot af því að ferðast með bíl.

Á þessum árstíma þyrfti að búa sig aðeins betur en á sumrin „en annars er þetta ekkert mál“, sagði hann brosandi og brunaði af stað suður. Einkanúmerið á vespunni hans Ómars er EDRÚ. Sagði hann að þeir sem væru á bifhjólum og vespum þyrftu alveg sérstaklega að gæta þess að vera edrú, enda væru þeir óvarðari fyrir hnjaski en þeir sem væru á bíl. Einkanúmerið væri til þess að minna menn á þessa staðreynd.