Orlando. AFP. | Rob Greenfield þarf far, eins og oft áður, því að hann á ekki bíl. Samnýting bíla er þó ekki eina leið hans til að minnka kolefnisfótspor sín því síðasta árið hefur hann ekki eytt einum einasta eyri í mat. Hann borðar aðeins það sem hann ræktar í garðinum sínum eða nálægum görðum, fiskinn sem hann veiðir og það sem hann finnur við þjóðvegina. Hann fúlsar sem sé ekki við hræjum dýra sem drepast á vegunum. Hann er borgarbúi sem aflar sér matar í ríki náttúrunnar.
„Náttúran hefur verið garðurinn minn, búrið mitt og apótekið mitt,“ segir Greenfield, sem er 33 ára og setti sér það markmið að kaupa engan mat í eitt ár og borða eingöngu það sem hann ræktar sjálfur eða finnur. Hann nær markmiðinu á sunnudaginn kemur.
Breytti garðinum í borgarbýli
Greenfield býr í Flórída, á Orlandosvæðinu sem er með um 2,5 milljónir íbúa. Milt loftslagið auðveldar honum að rækta matjurtir og hann býr í örlitlu húsi í garði manns sem leyfði honum að setjast þar að til að reyna að lifa á sjálfbæran hátt. Hann hefur breytt garðinum í borgarbýli þar sem hann ræktar meðal annars sólaldin, banana, sætar kartöflur, eggaldin, gúrkur og paprikur. Hann hefur komið sér upp matreiðsluaðstöðu í garðinum og geymir þar vistir sínar. Hann hefur einnig smíðað kamar og notar lauf í stað salernispappírs.„Ég vil hvetja fólk til að spyrja sig hvort það borðar hollan mat og breyta mataræði sínu, byrja að rækta eigin matjurtir, styðja bændur í heimabyggð sinni og temja sér mataræði sem er betra fyrir jörðina, samfélagið og okkur sjálf,“ segir hann.
Var „dæmigerður Bandaríkjamaður“
Greenfield kveðst fyrst hafa ákveðið að taka upp „einfaldari“ lífsstíl árið 2011. Þangað til hafi hann lifað eins og „dæmigerður Bandaríkjamaður“. Markmið hans var að verða ríkur fyrir þrítugt. Hann rak markaðsfyrirtæki en seldi það árið 2014.Hann vakti fyrst athygli í Bandaríkjunum árið 2016 þegar hann gekk um götur New York-borgar klæddur öllu sorpinu sem hafði komið frá honum. Markmiðið var að vekja athygli á því hversu mikið sorp kemur frá bandarískum heimilum. Seinna ákvað hann að hefja tilraunina að borða aðeins það sem hann ræktar sjálfur eða finnur í borginni til að vekja athygli á leiðum til að lifa á sjálfbæran hátt.
Vill ekki auðgast á boðskapnum
Rob Greenfield hefur tekjur af fyrirlestrum og bókum sínum um sjálfbæran lífsstíl þótt hann bjóðist oftast til að halda fyrirlestrana án endurgjalds. Tekjur hans í ár hafa numið 9.760 dollurum, jafnvirði rúmra 1,2 milljóna króna, en á síðasta ári voru þær 8.000 dollarar, eða tæp milljón króna. Í Bandaríkjunum miðast fátæktarmörkin við 13.000 dollara, 1,6 milljónir króna, fyrir einstakling sem býr einn.Hann segist gefa samtökum umhverfisverndarsinna megnið af tekjum sínum og ekki vilja auðgast á starfi sínu í þágu umhverfisverndar. „Þetta snýst um skilaboðin og mér finnst að ég eigi ekki að verða ríkur af boðskapnum um að hjálpa öðrum.“