Fé Mikil vinna var lögð í smölun eftirlegukinda á Austurlandi veturinn 2017-2018. Mynd úr safni.
Fé Mikil vinna var lögð í smölun eftirlegukinda á Austurlandi veturinn 2017-2018. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Birkir Fanndal
Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur hafnað kröfu Matvælastofnunar um að greiða kostnað við björgun eftirlegukinda úr fjallinu Bjólfi í byrjun síðasta árs.

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur hafnað kröfu Matvælastofnunar um að greiða kostnað við björgun eftirlegukinda úr fjallinu Bjólfi í byrjun síðasta árs. Rúnar Gunnarsson, formaður bæjarráðs, segir bæinn hafa synjað um greiðslu þessa kostnaðar í tíð fyrri bæjarstjórnar og bæjarstjóra.

Mikil umræða var um eftirlegukindur á Austurlandi veturinn 2017 til 2018. Um 400 fjár var smalað til byggða á því landsvæði, svo sem í Fljótsdal og Loðmundarfirði.

Talið var að um 20 kindur væru í ógöngum í fjallinu Bjólfi, ofan Seyðisfjarðar. Rúnar segir að fjallskilastjóri viðkomandi afréttar hafi metið það svo að ekki væri öruggt að fara þarna upp til að sækja féð. Frestur sem Matvælastofnun gaf fjáreiganda og sveitarfélaginu til að leysa málið rann út í lok janúar og ákvað stofnunin að fá björgunarsveit ofan af Héraði til að hjálpa sér við að sækja féð. Rúnar segir að svo óhönduglega hafi tekist til við verkið að þeir hafi drepið einhverjar kindur í leiðinni.

Hafna röksemdum

Að sögn Rúnars grundvallar Matvælastofnun kröfu um að Seyðisfjarðarbær greiði kostnaðinn sem hleypur á hundruðum þúsunda á því að bæjarfélagið hafi ekki staðið rétt að málum. Því hafni bærinn og starfsmenn hans alfarið enda hafi áður verið hafnað að greiða reikninginn.