Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Eftir Vilhjálmur Bjarnason: "Það er álitamál hvort ekki sé nauðsynlegt að fjalla um landasöfnun út frá þjóðaröryggi."

Það eru almælt tíðindi að það er erfitt fyrir hinn smáa að standa andspænis hinum stóra og máttuga. Þó lagði Davíð Golíat.

Áður en lengra er haldið er rétt að nálgast mælikvarða hins smáa og mælikvarða hins stóra.

Hinn smái hefur ekki afl, engin sérréttindi og ekki fjárhagslegt bolmagn til að tryggja sér völd og áhrif. Hinn stóri hefur afl, getur tekið sér rétt ef hann hefur ekki þegar réttindi, og hann hefur fjármagn til að tryggja áhrif sín. Síðast en ekki síst þarf hinn stóri sjaldnast að leita réttar síns með lýðræðislegu umboði. Hann hefur sjálfur „lýðræðislega“ umboðið á hluthafafundi eða þá að fulltrúalýðræðið, sem hinn stóri styðst við, er undir ráðum hans.

Lýðsleikjan

Á milli þess smáa og þess stóra er lýðsleikjan, sem sækir umboð sitt með yfirboði án þess að hafa fjármagn til að styðja sín völd, en fjárhagslegt bolmagn kemur þegar lýðsleikjan hefur náð völdum eftir leikreglum lýðræðisins. Að líkindum er lýðsleikjan hættulegri en fögur stúlka. Þegar maður heyrir laglegar stúlkur tala heldur maður ósjálfrátt að hin léttfleygustu svör þeirra geymi djúpa, djúpa merkingu, jafnvel dulda speki, og ef til vill gera þau það, í bandalagi kumpánaskaparins. Í slíkum bandalögum lifir lýðsleikjan.

Smáar þjóðir og stórar þjóðir

Aflsmunur smárra þjóða og stórra kemur oftar en ekki fram í styrjöldum. Aflsmunurinn kemur einnig fram í efnahagslegri getu. Smáar þjóðir geta staðið af sér aflsmuni stórra þjóða í styrjöldum ef hermenn hinna stóru vita ekki um tilgang styrjaldarinnar. Þannig var það í Víetnam. Hinir efnahagslegu aflsmunir duga ekki til ef siðferðisþrekið er lítið.

Greinarhöfundur hefur áður rakið í grein um „Belti og braut“ að ein þjóð, Kínverjar, ræður yfir meiri efnahagslegum gæðum en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Gæðin, sem um ræðir, eru fjáreignir í formi bandarískra ríkisskuldabréfa. Nú eru gæðin í vörslu Kínverja orðin svo mikil að dauðlegt fólk skilur ekki stærðirnar. Viðbót við gæðin skiptir Kínverja engu.

Þessa auðsöfnun má að verulegu leyti rekja til þess að Bandaríkin hafa lifað um efni fram í mörg ár, sér í lagi vegna styrjaldarreksturs sem þjóðin hefur ekki efni til.

Siðferðisþrek heimsbyggðarinnar

Því reynir nú á siðferðisþrek heimsbyggðarinnar. Hið nýja auðvald alþýðulýðveldis þarf ekki að afla sér lýðræðislegs umboðs í sinni heimabyggð, þar sem einn sterkur leiðtogi ræður. Vissulega er gott að geta átt aðgang að lausu fé á lánamörkuðum, gott lánshæfi eru gæði, ef lánshæfið er notað til gagnlegra verkefna. Það er sjaldnast svo þegar óreiðumenn taka lán.

Því er nauðsynlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar vel er boðið í krappan dans, sérílagi þegar lagt er í leiðangur, þar sem fögur stúlka virðist mæla léttvæg orð.

Sá er munur á erlendum ríkisskuldum og innlendum ríkisskuldum að hinar erlendu skuldir fela í sér greiðslur út úr hagkerfinu en innlendar skuldir fela í sér greiðslur á milli þegna innanlands og á milli mismunandi tímabila.

Skuld í bókhaldi er í raun alls ekki verri skuld en skuld vanrækslunnar. Vanræksla í innviðum getur orðið dýr og valdið miklum harmi.

Efnahagslegt sjálfstæði og sjón fegurðarinnar

Á sama hátt og efnahagslegt sjálfstæði er eftirsóknarvert þá er sjón fegurðarinnar, sem gerir mannfólkið ríkt í sálu sinni, það einnig. Með efnahagslegu sjálfstæði er átt við getuna til að afla og að standa við fjárhagslegar skuldbindingar í bráð og lengd. Og ekki síst eftir að starfsævi lýkur.

Uppbygging innviða í landinu og uppbygging frjáls sparnaðar hjá fólkinu í landinu opnar sjón fegurðarinnar. Það kann að vera að einhverjir eigi miklar jarðir en enga fegurð. Það er dapurlegt hlutskipti. Þannig geta, með einu tilliti, augu fegurðarinnar, vitrari en allar bækur, svipt burt kvíða.

Uppbygging frjáls sparnaðar er ekki fórn. Ábatinn kemur fram síðar. Tekjur ríkissjóðs af fjáreignatekjuskatti af bankainnistæðum eru sennilega smávægilegar miðað við þann skaða sem skatturinn veldur með skorti á ráðdeild. Fórnir ríkissjóðs í lífeyrisgreiðslum í framtíðinni eru langtum meiri. Þær fórnir sem innviðir í landinu hafa orðið fyrir vegna skorts á viðhaldi og skorts á eðlilegri framþróun er hægt að bæta fyrir, ef kjarkur er nægur.

Innlendar lántökur til að byggja upp „Belti og braut“ á Íslandi eru í raun smáræði miðað við þann ávinning sem fæst af góðum innviðum. 500 milljarða innviðaframkvæmdir kosta um 20 milljarða á ári í 40 ár. Þeir 20 milljarðar skila sér í „kolefnisfótspori“ sem er svo mjög í tísku.

Með slíkum framkvæmdum mun hið smáa sigra hið stóra. Þegar maður hefur séð fegurðina í góðum innviðum hættir hið ljóta að vera til.

Landafræði og ást

Það leggst stundum í fólk að fá ást. Sumir hafa svo mikla ást á fuglinum lunda að þeir éta hann. Aðrir fá mikla ást á landi og verkjum linnir ekki fyrr en landið hefur verið keypt. Það virðast litlar hömlur á heimildum til landakaupa, kann að vera einhver forkaupsréttur sveitarfélaga. Þá, sem ekkert eiga, má litlu varða hvort Íslendingar eða útlendingar eiga það land sem gengið er á, á meðan heimild er um frjálsa för.

Þegar kemur að söfnun á löndum, þá þarf að huga að efni máls. Hvað býr undir? Hvort heldur útlendingur eða Íslendingur kaupir. Það er talað um gegnsæi í viðskiptum á verðbréfamarkaði. Það sama á við um eignarhald á landi.

Það ber að gjalda sérstakan varhug við því ef ætla má að erlend þjóðríki hyggi á landakaup, umfram þarfir vegna sendiráða. Hvað er eftirsóknarvert við Grímsstaði á Fjöllum annað en víðáttur, 1% af Íslandi? Það er mikil ást á víðáttu að kaupa það fyrir fúlgur, sem fólk skilur ekki. Skýringar eins hugsanlegs kaupanda voru ekki trúverðugar. Höfn í Finnafirði þarfnast skýringa.

Það er álitamál hvort ekki sé nauðsynlegt að fjalla um landasöfnun út frá þjóðaröryggi. Smá þjóðríki eru jafnvel agnarsmá andspænis efnafólki í fjarlægum alþýðulýðveldum eða andspænis kexframleiðanda. Hinn smái hefur þó að lokum löggjafarvaldið í hendi sér. Það kann að vera björg í því.

Eins og hann Laugi sagði

„Við Íslendingar erum lítil og fátæk þjóð, og allir útlendingar halda að við séum skrælingjar, og þess vegna hef ég alltaf sagt; ef við getum einhverja ögn af einhverju tagi, alveg sama hvað lítið það er, þá eigum við að gera það í augsýn alheims.“ Þetta sagði hann Laugi. Hann var ekki léttvægur, sú stúlka.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason