Jólin koma Jólalög hljóma nú á ný.
Jólin koma Jólalög hljóma nú á ný. — Morgunblaðið/Ásdís
Sennilega mun alltaf verða ágreiningur um það hvenær eigi að byrja að hamra á því að bráðum komi jól.

Sennilega mun alltaf verða ágreiningur um það hvenær eigi að byrja að hamra á því að bráðum komi jól. Árlega fer fram umræða um það að þessi verslunin eða hin hafi farið út fyrir öll mörk með því að setja upp jólaskraut allt of löngu áður en varð dimmt allan daginn og því jafnvel fundið allt til foráttu.

Annar angi af þessum árvissu umræðum er hvenær eigi að byrja að spila jólalög í útvarpi. Á miðvikudagskvöld heyrðust mikil óp úr eldhúsinu. Uppi varð fótur og fit, en sem betur fer kom í ljós að ekki var ástæða til að óttast. Tilefnið var að nú væri útvarpsstöðin Retró, systurstöð K100, byrjuð að spila jólalög.

Þremur lögum síðar heyrðist vonbrigðastuna þegar hefðbundin dagskrá stöðvarinnar tók við og smellir fortíðar fóru að hljóma að nýju.

Í gær kom svo í ljós að einhver hafði tekið forskot á sæluna á útvarpsstöðinni með því að lauma inn jólalögum því að þau áttu ekki að byrja að óma fyrr en í gær.

Fýlupúkarnir munu ef til vill fárast yfir því að það sé fullkomlega ótímabært, en þeir geta þá leitað á þungbúnari slóðir. Jólabarnið í eldhúsinu getur hins vegar tekið gleði sína á ný og það svo um munar.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal