Rekstrarhagnaður fasteignafélagsins Regins jókst um 33% á fyrstu níu mánuðum þessa árs frá sama tímabili í fyrra. Nam hann nú tæpum fimm milljörðum króna.

Rekstrarhagnaður fasteignafélagsins Regins jókst um 33% á fyrstu níu mánuðum þessa árs frá sama tímabili í fyrra. Nam hann nú tæpum fimm milljörðum króna. Á þriðja ársfjórðungi nemur rekstrarhagnaðurinn 1,8 milljörðum, samanborið við rúma 1,3 milljarða á sama fjórðungi í fyrra.

Hagnaður eftir tekjuskatt yfir tímabilið nemur 3,5 milljörðum og jafngildir það 55% aukningu frá fyrra ári. Vöxtur leigutekna frá fyrra ári nam 26% og námu rekstrartekjur félagsins 7,3 milljörðum á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins.

Bókfært virði fjárfestingareigna stóð í 138,8 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs. Matsbreytingar á tímabilinu nema 3,3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og fjárfestingar félagsins námu 4,3 milljörðum. Matsbreytingarnar nema 1,1 milljarði á þriðja ársfjórðungi í ár, en voru 655 milljónir á þriðja fjórðungi ársins 2018.