Birgir Ísleifur Gunnarsson fæddist í Reykjavík 19. júlí 1936. Hann lést á líknardeild Landspítalans 28. október 2019.
Foreldrar hans voru Gunnar Espólín Benediktsson, hrl. og forstjóri, og Jórunn Ísleifsdóttir ritari. Systir hans er Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir, f. 1940.
Birgir giftist eiginkonu sinni, Sonju Backman, 6. október 1956. Sonja lést 5. október sl. Börn þeirra eru: 1) Björg Jóna, námsstjóri hjá Listaháskóla Íslands, f. 1957, gift Má Vilhjálmssyni, rektor Menntaskólans við Sund. Dætur Bjargar eru Sonja Bjarnadóttir, f. 1982, og Ingibjörg Jóhanna Bjarnadóttir, f. 1985. Dætur Más eru Vaka Másdóttir, f. 1983, og Harpa Másdóttir Fenger, f. 1988, gift Sigurði Lúðvík Stefánssyni. 2) Gunnar Jóhann lögmaður, f. 1960, giftur Sveinbjörgu Jónsdóttur, grafískum hönnuði. Börn Gunnars eru Birgir Ísleifur Gunnarsson, f. 1980, giftur Ernu Bergmann; Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, f. 1984, í sambúð með Þorgils Helgasyni; Katrín Björk Gunnarsdóttir, f. 1994, og Gunnar Freyr Gunnarsson, f. 2002. Sonur Sveinbjargar er Jón Þórarinn Úlfsson Grönvold, f. 1993. 3) Lilja Dögg Birgisdóttir, starfar hjá Ási styrktarfélagi , f. 1970. 4) Ingunn Mjöll Birgisdóttir, verkefnisstjóri hjá Menntasviði Kópavogsbæjar, f. 1970, gift Viktori Gunnari Edvardssyni, söluráðgjafa hjá Sensa. Dætur: Björg Sóley Kolbeinsdóttir, f. 1997; Edda Lilja Viktorsdóttir, f. 2004, og Katla Guðrún Viktorsdóttir, f. 2009.
Barnabarnabörn Sonju og Birgis eru alls sjö.
Birgir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1962. Birgir varð héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður 1967. Hann tók virkan þátt í stjórnmálum og var m.a. formaður Vöku, Heimdallar, Stúdentaráðs Háskóla Íslands og SUS. Birgir sat í borgarstjórn frá árinu 1962 til 1982 og var borgarstjóri frá 1972 til 1978. Hann sat á Alþingi frá 1979 til 1991 og var menntamálaráðherra frá 1987 til 1988. Birgir var seðlabankastjóri frá 1991 til 2005. Hann sat um tíma í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur og sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Hann var forseti Rótarý á Íslandi um nokkurt skeið. Birgir var heiðraður með ýmsum hætti fyrir störf sín og hlaut m.a. stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar.
Útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 8. nóvember 2019, og hefst athöfnin kl. 15.
Kær tengdamóðir mín er nýlátin og nú kveð ég Birgi Ísleif, tengdaföður minn og vin. Birgir og Sonja fylgdust að í lífinu frá því þau voru unglingar og þau kvöddu lífið líka saman. Það var lengi vitað að barátta Birgis við sjúkdóminn væri töpuð. Hann tók þeirri staðreynd með þeirri stóísku ró sem einkenndi svo margt í lífi hans.
Birgir var einstakur maður. Hann var eldklár, minnugur, einstaklega vel lesinn og með djúpan skilning á því sem skiptir máli í lífinu. Í pólitískum skilningi var hann íhaldsmaður en hann hugsaði oft út fyrir rammann eins og listamönnum er tamt og kunni sannarlega að meta það sem vel var gert, óháð því hvaðan það kom. Aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann. Það var ekki hans stíll að fara í manninn en málefnin var hann tilbúinn að ræða og hann gat sannarlega rætt margt. Þekking hans var einstaklega víð og hann rak ekki í vörðurnar. Hann gat, meðal annars, rætt um dægurmál, fótbolta og dans, pólitík, skipulagsmál, kvikmyndir og umhverfismál. Hann var fjölfróður um mennta- og menningarmál og hafði ástríðu fyrir skógrækt, tónlist og bókmenntum. Birgir var hinn mesti lestrarhestur. Aldrei kom ég svo á Fjölnisveginn að ekki væri opin bók á borðinu og tónlistartímarit í seilingarfjarlægð. Langoftast var einhver dásemdartónlist á fóninum. Hann las eiginlega allt og tónlistaráhuginn var langt í frá einskorðaður við eina tegund tónlistar þó svo að djassinn hafi átt stærstan sess í hjarta hans. Hann virtist nánast vita allt um tónlistina og þá sem spiluðu hana. Hann virtist líka muna allt sem hann las og hvenær hann las það. Í því ljósi er skondið að segja frá því að hann tók þann sið upp 12 ára gamall að skrifa niður allt sem hann las og þeim sið hélt hann í yfir 70 ár allt til dánardags. Hann skráði samviskusamlega höfund og heiti hverrar einustu bókar sem hann las og hvenær lestrinum lauk. Á líknardeildinni las hann sem aldrei fyrr og allt var skráð. Ég hef stundum hugsað um það til hvers hann væri að skrá þetta því hann mundi hvort sem er allt og gat auðveldlega sagt frá innihaldi bóka sem hann las fyrir áratugum. Þetta voru tugir bóka á ári hverju og þar var allt undir; fagurbókmenntir, ljóð, ævisögur, sagnfræði og glæpasögur. Þá las hann mikið magn tímaritsgreina um hugðarefni sín eins og um skógrækt, tónlist og fleira og auðvitað var djassinn þar fyrirferðarmikill.
Það var gaman, gefandi og gott fyrir sálartetrið að vera með Birgi og Sonju. Við Birgi var hægt að ræða um lífið og tilveruna, gleðina og sorgina, dauðann, fótbolta, kvikmyndir, bókmenntir og tónlist á svo eðlilegan hátt. Birgir kvaddi sáttur við lífið, veikindi sín og hið óumflýjanlega. Hann vildi, þrátt fyrir lífsorkuna, fara í sitt síðasta ferðalag því lífið án Sonju var honum nær óhugsandi. Ég græt Birgi Ísleif sem hafði svo mikið að gefa. Sorginni sem fylgir því að kveðja fylgir líka gleði yfir því að vita að endalokin voru eins og hann vildi hafa þau. Þau Sonja studdu hvort annað, gáfu fjölskyldunni allt og fylgdust að allt á leiðarenda.
Már Vilhjálmsson.
Margt kemur upp í hugann þegar farið er yfir þennan tíma sem er liðinn frá fyrstu kynnum. Óteljandi matarboð á Fjölnisveginum, heimsóknir í sumarbústaðinn á Þingvöllum ásamt ferðalögunum til útlanda. Þar minnist ég Danmerkurferðarinnar okkar árið 2005 þegar Birgir var að klára starfsferilinn sinn og við það að setjast í helgan stein. Áttum við þar frábærar tvær vikur í sumarhúsi í Gilleleje. Einnig verð ég að minnast á 80 ára afmælisferðina til Ítalíu 2016 þar sem öll fjölskyldan átti ógleymanlegan tíma saman.
Eftir að þau hjón hættu að vinna eignuðust þau sitt annað heimili í Dunedin í Flórída sem þau voru dugleg að dvelja í yfir hörðustu vetrarmánuðina á Íslandi. Oftar en ekki fékk ég að skutla þeim út á flugvöll og sækja þau síðan aftur nokkrum vikum síðar. Þetta voru sannkallaðar gæðastundir fyrir mig með Sonju og Birgi.
Birgir var mikill lestrarhestur og nánast alæta á bókmenntir. Hann hafði alltaf mikið dálæti á reyfurum bæði íslenskum og erlendum sem ég naut góðs af og það verður undarlegt að geta ekki farið lengur í heimsókn á Fjölnisveginn og fengið spennandi bók að láni.
Birgir var einnig mikill áhugamaður um enska knattspyrnu og hélt þar með Arsenal og þar sem ég studdi Liverpool var alltaf mikil spenna að horfa á leiki þessara liða með Birgi á Fjölnisveginum. Ég held þó að á endanum hafi hann alltaf stutt við bakið á mínum mönnum í Liverpool þegar þeir voru ekki að etja kappi við Arsenal.
Birgir var alltaf höfðingi heim að sækja, skemmtilegur sögumaður og fyrst og fremst fjölskyldumaður sem undi sér best með Sonju, Lilju Dögg og okkur hinum.
Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk með þeim hjónum. Hvíl í friði.
Viktor Gunnar Edvardsson.
Ég er að heimsækja tengdaforeldra mína sem búið hafa alla sína hjúskapartíð á æskuheimili Birgis Ísleifs.
Birgir Ísleifur er enginn venjulegur maður. Af látleysi og hófsemi en jafnframt festu hefur hann stigið frá því að vera lítill drengur í blómum prýddum garði, með lítinn hlyn sem er að vaxa, yfir í það að stýra borginni með framsýni og metnaði. Borgin skiptir hann máli. Fólkið í borginni skiptir hann máli. Að hlutirnir séu í lagi skiptir hann máli.
Stofninn í lífi Birgis er þó fyrst og fremst fjölskyldan. Sonja og börnin. Afkomendur sem eru svo ríkir að geta tileinkað sér og þroskað með sér viðhorf Birgis, viðmót og lífsgildi. Hann miðlar af visku og víðsýni þannig að aldrei er á neinn hallað. Hann ræktar garðinn sinn þannig að hver einasta jurt fær notið þess besta. Það er okkar fjársjóður.
Nú hallar hausti og hlynurinn hefur fellt laufin. Að vetri loknum með hækkandi sól mun gróðurinn dafna á ný og hlynurinn skarta sínu fegursta. Sár söknuður mun breytast í ljúfar minningar, þakklæti og andlegan auð. Saman ganga þau heiðurshjónin Sonja og Birgir hönd í hönd, niður trjágöngin á Fjölnisvegi 15 og halla hvíta hliðinu á eftir sér. Það ómar djass í fjarska. Að baki þeim stendur einn fegursti garður í Reykjavík.
Elsku Birgir Ísleifur og Sonja – takk fyrir allt.
Ykkar tengdadóttir,
Sveinbjörg.
Brosið þitt var einkennandi fyrir þig afi minn og þú varst ótrúlegur sögumaður.
Þú varst alltaf jákvæður þótt aðstæður væru erfiðar eins og síðustu mánuðina í þínu lífi. Alveg fram á síðustu stundu hélstu í húmorinn og varst ánægður með litlu hlutina, eins og þegar ég kom með uppáhaldsbakkelsið þitt, croissant eða vínarbrauð. Jú, eða nýja bók fyrir þig til að lesa, því fljótur varstu með þær. Þú varst kletturinn hennar ömmu í gegnum veikindi hennar eins og amma var kletturinn þinn í þínum. Samband ykkar var einstaklega fallegt. Þið verðið ávallt mínar fyrirmyndir og ég er stolt af því að hafa fengið að vera barnabarn þitt.
Hvíldu í friði elsku afi minn og ég bið að heilsa ömmu.
Afi minn er sætur og fínn,
alltaf í sumarbústað.
Kemur heim í hádeginu
og fær sér örlitla síld.
Afi minn les margar bækur,
því það er mikil hvíld.
Enda alltaf hress og sprækur.
(Björg Sóley, 19. júlí 2006)
Björg Sóley Kolbeinsdóttir.
Birgir Ísleifur.
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst frænda okkar er án efa tónlistin. Hann var afskaplega músíkalskur maður, mikill áhugamaður um djass og spilaði sjálfur listilega vel á píanó, og naut sín þar vel. Ósjaldan bárust því ljúfir tónar niður til okkar sem fylltu húsið lífi. Á þeim árum þegar fjölskyldurnar héldu jólin saman fengum við að njóta góðs af spilamennskunni þegar Birgir settist við píanóið og spilaði jólalög. Eitt árið gerði hann sér líka lítið fyrir og klæddi sig upp sem jólasvein. Þetta vakti auðvitað mikla kátínu hjá yngstu kynslóðinni sem vissi ekki fyrr en mörgum árum seinna hver hinn raunverulegi sveinki hafði verið. Svona mann hafði Birgir að geyma, hann var hjartahlýr og hafði húmor fyrir lífinu. Heilsteyptur maður, sem gott var að hafa nærri sér, og skapaði fjölda góðra minninga.
Það var fallegt að sjá ástina og virðinguna á milli þeirra hjóna blómstra fram á síðasta dag. Okkur er mjög minnisstæð ræða sem Birgir hélt eiginkonu sinni á áttræðisafmæli hennar í fyrra. Þar fór hann yfir upphaf þeirra kynna og talaði svo fögrum orðum til konu sinnar að varla var þurr vangi í salnum. Birgir var afar góður ræðumaður og mælskur, ígrundaði orð sín vel og talaði alltaf af mikilli ró og staðfestu.
Birgir tókst á við veikindi sín og fráfall eiginkonu sinnar af aðdáunarverðu æðruleysi. Hann var jafn yfirvegaður og endranær með húmorinn að vopni allt fram á síðasta dag. Hann hræddist ekki dauðann en talaði um líf sitt og fjölskyldu af mikilli hlýju og var sáttur við æviverkin. Það er skammt högganna á milli hjá fjölskyldunni og biðjum við Guð að blessa Björgu Jónu, Gunnar Jóhann, Ingunni Mjöll, Lilju Dögg og fjölskyldur þeirra á þessum erfiðu tímum.
Stefán, Jórunn Sjöfn og Halla Sif.
Ég minnist þess þegar ég tók sæti í fyrsta sinn í borgarráði eftir borgarstjórnarkosningarnar 1974, þegar Birgir, sem þá var borgarstjóri, bauð mig velkominn og lýsti fyrir mér verksviði borgarráðs. Í borgarstjórnartíð Birgis var lögð áhersla á framkvæmdir sem snerust um umhverfi og útivist og fékk heitið „græna byltingin“. Meiri áhersla var lögð á gróður og græn svæði en áður. Nú horfa menn hins vegar á það að ráðist er á grænu svæðin, sem sett hafa svo góðan svip á umhverfið víða í borginni og borgarbúar hafa notið, eru eydd og þau nú látin víkja fyrir steypumassa og eru kirkjugarðar ekki einu sinni undanskildir.
Birgir var tónlistarunnandi og spilaði á píanó. Stundum gerðist það þegar hann tók á móti gestum í Höfða, þegar hann var borgarstjóri, að hann settist við píanóið þegar gestir höfðu lokið við góða máltíð og spilaði nokkur lög og höfðu gestir, sem oft voru erlendir, gaman af að hlýða á vinsæla tónlist sem borgarstjórinn framkallaði.
Ég og kona mín, sem nú er látin, bundumst sterkum vináttuböndum við Birgi og elskulega konu hans Sonju, sem er nýlátin, þegar við Birgir unnum saman í borgarstjórn fyrir um 40 árum. Ég er mjög þakklátur fyrir samfylgdina, sem ég og kona mín áttum með þessum góðu hjónum öll þessi ár, sem aldrei bar skugga á. Ég tel það gæfu bróðurdóttur minnar, Sveinbjargar Jónsdóttur, að hafa eignast fyrir eiginmann Gunnar son þessara góðu hjóna.
Ég sendi börnum þeirra og öllum aðstandendum einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessara góðu hjóna.
Magnús L. Sveinsson.
Birgir Ísleifur sat í borgarstjórn Reykjavíkur um 20 ára skeið, frá 1962 til 1982, en hann varð 9. borgarstjóri Reykjavíkur árið 1972 þegar Geir heitinn Hallgrímsson hvarf þaðan yfir á Alþingi. Árið 1974 leiddi Birgir Ísleifur svo sjálfstæðismenn í Reykjavík til mesta kosningasigurs flokksins í borginni, þegar flokkurinn hlaut 57,9% atkvæða.
Birgir Ísleifur naut mikilla vinsælda í borgarstjórastóli. Hann tók við embættinu 36 ára gamall og þótti hafa til að bera dug, þor og glæsileika í jöfnum mæli við fumleysi, öryggi og farsæld, allt það sem góðan borgarstjóra má prýða.
Í hinum ágæta borgarbrag Austurstræti eftir Ladda er sungið um mannlífið í miðborginni. Í lokin spyr aldurhniginn sögumaðurinn, dolfallinn yfir breytingunum, „ætli hann Birgir viti af þessu“. Að baki þeirri gamansemi bjó þó sú alvara, að fólk gerði ráð fyrir að ekkert í borginni væri Birgi Ísleifi óviðkomandi og að hann stýrði því öllu af öryggi.
Það gerði hann líka. Í borgarstjóratíð hans var Reykjavík í feikilegum vexti um leið og margvíslegar samfélagsbreytingar áttu sér stað. Breiðholtið byggðist upp á undraskömmum tíma, sem var ekki lítið afrek; hið félagslega kerfi borgarinnar tók stakkaskiptum, heilsugæslustöðvar voru opnaðar, félagsstarf aldraðra í Norðurbrún og félagsmiðstöðvar unglinga sömuleiðis. Hann breytti Austurstræti í göngugötu, sem Laddi söng öðrum þræði um, og þar má segja að endurnýjun miðborgarinnar hafi í raun hafist. Þá má ekki gleyma „Grænu byltingunni“, heildaráætlun um umhverfi og útivist, en þrátt fyrir að vinstrimenn létu sér þá fátt um finnast markaði sú stefna upphaf þess að borgin varð vistlegri og vænni.
Alls þessa nutu ekki aðeins Reykvíkingar, heldur landsmenn allir, sem sáu höfuðborg sína vaxa og dafna undir styrkri stjórn Birgis Ísleifs.
Árið 1978 fór þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði borgarstjórnarkosningunum naumlega. Birgir sneri sér í kjölfarið að landsmálunum og var kjörinn alþingismaður Reykjavíkur árið 1979, varð menntamálaráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, og sat á Alþingi til 1991 þegar hann var skipaður seðlabankastjóri. Þeirri stöðu gegndi hann uns hann settist í helgan stein árið 2005.
Hlýja og ræktarsemi einkenndi Birgi Ísleif og fór ekki fram hjá neinum sem honum kynntist. Ekki heldur sá listræni þráður, sem var svo ríkur í honum. Eða ástríkið á heimili hans og Sonju Backman á Fjölnisvegi, en forlögin höguðu því svo að hún lést aðeins rúmum þremur vikum á undan eiginmanni sínum.
Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins færi ég fjölskyldu Birgis okkar innilegustu samúðarkveðjur, en um leið minnumst við og þökkum fyrir hans farsælu störf í þágu hugsjóna okkar sjálfstæðismanna, borgarbúa, lands og þjóðar. Guð blessi minningu hans og Sonju.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Á þessum tíma var tekist hart á í stjórnmálum. Báðir voru þeir hertir í eldi kalda stríðsins, sannfærðir um nauðsyn þess að vindar frelsis fengju að blása um Ísland. Birgir Ísleifur og pabbi sameinuðust í hugsjón sjálfstæðisstefnunnar, stóðu þétt saman í erfiðum innanflokksdeilum og áttu hvor með sínum hætti ástarsamband við listagyðjuna.
Birgir Ísleifur var hófsamur maður í framgöngu – hlédrægur og á stundum allt að því feiminn. Ég er ekki viss að samfélagsmiðlavæðing stjórnmálanna hafi verið honum að skapi. Birgir Ísleifur leit á starf stjórnmálamannsins sem þjónustustarf. Markmið hans sem borgarstjóra var að byggja „hlýlegri og manneskjulegri borg“.
„Mér líður kannski hvað best, þegar tekist hefur að greiða götu einhvers borgara, sem kemur með persónuleg vandamál sín,“ sagði Birgir Ísleifur í viðtali við Vikuna í apríl 1973 og bætti við: „Það eru kannski smámál fyrir borgina sem heild, en skipta viðkomandi einstakling miklu máli, og það er ósköp notalegt að geta aðstoðað á einhvern hátt.“
Þetta viðhorf Birgis Ísleifs var leiðarstef hans jafnt í stjórnmálum sem lífinu öllu. Í mörgu var hann á undan sinni samtíð. Fyrir 46 árum var náttúruvernd ekki í tísku stjórnmálanna og skilningur á mikilvægi jafnréttis ekki sá er síðar varð. Það vafðist hins vegar ekki fyrir 37 ára gömlum borgarstjóra hvaða mál hann setti á oddinn:
„Í fyrsta lagi umhverfis- og náttúruvernd. Við þurfum að huga vel að ströndinni og hafinu í kringum okkur, við þurfum að fegra og snyrta borgina sjálfa, og það þarf að skapa aðstöðu til aukinnar útiveru fólks í næsta nágrenni borgarinnar. Í öðru lagi er ljóst, að það þarf aðkoma til móts við kröfur nútímakonunnar og leggja meiri áherslu á barnagæslumál.“
Með Birgir Ísleifi Gunnarssyni er genginn merkur maður sem tók þátt í að móta og byggja upp samfélagið, fyrst sem stjórnmálamaður og síðar sem farsæll seðlabankastjóri. Ekki til að skara eld að eigin köku heldur til að búa í haginn fyrir samferðamenn sína og þá sem eftir koma.
Við Gréta sendum Gunnari Jóhanni, Björgu Jónu, Ingunni Mjöll, Lilju Dögg og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við minnumst heiðursmannsins Birgis Ísleifs Gunnarssonar með þökk og hlýhug.
Óli Björn Kárason.
Það var inn í þetta mikla átakatímabil á fyrstu árum lýðveldisins sem Birgir Ísleifur kom þegar hann hóf þátttöku sína í stjórnmálum. Ég þekkti hann þá ekki neitt. En annað kom til sem varð þess valdandi að ég vildi styðja hann umfram aðra á þeim tíma. Hann hafði eignast konu, Sonju Bachman, sem hafði verið skólasystir okkar í Laugarnesskólanum og notið aðdáunar okkar allra á þeim tíma sakir fegurðar og persónutöfra.
Í september sl. sátum við saman á spjalli, gamlir vinir úr Laugarnesskólanum, Halldór Blöndal, Ragnar Arnalds og Sveinn R. Eyjólfsson. (Jón Baldvin var og er á Spáni.) Á þeim fundi sagði Sveinn okkur þau tíðindi að þau væru bæði komin á líknardeild Landspítalans, Sonja og Birgir. Nokkru síðar var tilkynnt um andlát Sonju.
Daginn eftir útför hennar fór ég að heimsækja Birgi. Hann sagði mér að hann ætti skammt eftir og tók því með þeirri rósemd sem ég þekkti frá fyrri tíð. Við töluðum saman um flokkinn okkar og landsins gagn og nauðsynjar.
Fyrir borgarstjórnarkosningar 1962 var haldið lokað prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins. Við Heimdellingar börðumst hart í því prófkjöri fyrir framgangi Birgis og höfðum sigur. Áratug síðar var hann orðinn borgarstjóri í Reykjavík. Um það var víðtæk samstaða innan flokksins.
Sex árum síðar varð það hlutskipti Birgis að verða sá borgarstjóri sjálfstæðismanna sem missti meirihlutann í borgarstjórn. Það var mikið áfall en öllum var ljóst innan Sjálfstæðisflokksins að þar skiptu landsmál meira máli en borgarmál.
Í framhaldinu var Birgir hins vegar kjörinn á þing og nokkrum árum síðar var komið að formannsskiptum í Sjálfstæðisflokknum. Haustið 1983 voru að baki miklar sviptingar innan flokks, sem áttu rætur að rekja til forsetakosninganna 1952. En Geir Hallgrímssyni hafði tekizt að halda flokknum saman, sem var afrek, ekki sízt í ljósi stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens 1980.
Samkvæmt venjum og hefðum flokksins var Birgir eðlilegur frambjóðandi í því formannskjöri. En nú voru breyttir tímar. Sú tilfinning var sterk innan flokks að nauðsynlegt væri að stökkva yfir kynslóðir og kjósa til forystu einhvern þann sem ekki hefði blandast inn í átök fyrri tíma. Birgir bauð sig fram en náði ekki kjöri enda Þorsteinn Pálsson studdur af þeim hópi sem þá stóð í kringum Geir Hallgrímsson.
Síðar varð hann svo ráðherra um skeið í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, sem sat frá vori 1987 og þar til síðla sumars 1988. Og nokkrum árum síðar einn af bankastjórum Seðlabanka Íslands.
Birgir Ísleifur Gunnarsson var einn þeirra traustu flokksmanna sem mynduðu kjarnann í Sjálfstæðisflokknum á síðari hluta 20. aldar.
Börnum, barnabörnum og tengdabörnum þeirra Sonju sendi ég samúðarkveðjur.
Styrmir Gunnarsson.
Birgir Ísleifur varð kornungur áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum. Hann hafði rétt lokið embættisprófi í lögfræði þegar hann var kjörinn borgarfulltrúi. Áratug síðar varð hann óumdeildur arftaki Geirs Hallgrímssonar á stóli borgarstjóra. Til þeirrar ábyrgðar hafði hann vaxið af verkum sínum.
Þegar horft er til baka getur maður ímyndað sér að þrátt fyrir drjúga reynslu hafi hann staðið andspænis nokkuð snúnu verkefni. Eitt var að forveri hans var að ljúka tímabili mestu verklegra framkvæmda og athafna í sögu borgarinnar. Annað var, að umrót ungs fólks hafði breytt pólitísku andrúmslofti í landinu.
Ég hygg að Birgir Ísleifur hafi skynjað að hann stóð á nokkrum tímamótum. Framfarirnar urðu að halda áfram í anda nýs tíma. Kannski var það slíkt innsæi sem leiddi til þess að hann gerði áætlun um græna byltingu í borginni.
Það var einhvern tímann á fyrstu mánuðum Birgis Ísleifs sem borgarstjóra að ég fór með nokkra norræna laganema af sextíu og átta kynslóðinni, sem hér voru staddir, á landsleik í handbolta. Þar rákumst við á Birgi Ísleif. Eftir á höfðu gestirnir orð á því að þeim hefði komið á óvart að borgaralegur hægri flokkur skyldi hafa gert ungan mann, lítið eitt síðhærðan og með opinn huga fyrir ákalli nýs tíma, að borgarstjóra. Þessi ummæli hafa verið föst í minni mínu. Og nú finnst mér að þau segi sína sögu í minningu hans.
Síðar sátum við saman í þingflokki á Alþingi. Og þar kom að við settumst saman í ríkisstjórn. Menn geta haft skiptar skoðanir á því hvort það hafi verið þjóðinni til láns eða óláns að málefnalega skildi leiðir við samstarfsflokka okkar þar. En ég hygg að fáir geri ágreining við þá staðhæfingu að betur hefði farið á því að Birgir Ísleifur hefði setið lengur á ráðherrastóli í menntamálaráðuneytinu. Á þeim vettvangi naut sín vel lagni hans og víðsýni og ekki síður næmni hans fyrir íslenskri menningu.
Birgir Ísleifur steig út af vettvangi stjórnmálanna nærri þremur áratugum eftir að Reykvíkingar kusu hann fyrst til trúnaðarstarfa. Þá tók við starf bankastjóra í Seðlabankanum. Það er til vitnis um fjölhæfni Birgis Ísleifs að þar átti hann eins og á öðrum sviðum farsælan og hnökralausan feril.
Í Rótarýklúbbi Reykjavíkur fáum við ekki lengur að njóta félagsskaparins við Birgi Ísleif á vikulegum fundum. Þar eins og annars staðar þar sem hann hafði viðkomu á lífsleiðinni sjá menn á bak heilsteyptum og góðum félaga.
Sonja Backman, eiginkona Birgis Ísleifs, lést fyrir fáum vikum. Á kveðjustund hvílir einlægur hugur og djúp samúð hjá fjölskyldu þeirra sómahjóna.
Þorsteinn Pálsson.
Kynni okkar og vinátta hefur varað hátt í 70 ár en við kynntumst upphaflega sem bekkjarbræður í MR. Ég mun því ekki í þessum línum fjalla um stjórnmálaferil Birgis, sem var einarður sjálfstæðismaður frá ungum aldri, heldur þá ævilöngu vináttu sem við bundumst, ásamt eiginkonum okkar, en við kvæntumst báðir ungir. Í þennan þrönga vinahóp bættist einnig þriðji bekkjarbróðirinn, ásamt eiginkonu, og höfum við sex haldið hópinn alla tíð síðan.
Birgir var afar dagfarsprúður maður og þægilegur í viðmóti. Hann hafði mörg áhugamál utan stjórnmála. Var t.d. mikill knattspyrnuáhugamaður og hafði sérstakan áhuga á ensku knattspyrnunni sem hann fylgdist með allt til dauðadags, en hann var mikill aðdáandi liðs Arsenal. Einnig var Birgir mikill áhugamaður um tónlist og bjó yfir prýðisgóðum tónlistarhæfileikum. Var liðtækur djasspíanisti og átti stórt og gott plötu- og diskasafn. Minnist ég ótal samverustunda þar sem við sátum og hlustuðum á hvers kyns tónlist þótt djassinn sæti þar í fyrirrúmi. Þá var hann ekki síður áhugamaður um bókmenntir og átti stórt bókasafn. Í því sambandi eru mér í minni margar stundir er við ræddum bókmenntir, ekki síst nýútkomnar bækur. Einnig minnist ég allra leikhúsferðanna sem við fórum saman vinahópurinn, en lengi áttum við áskriftarmiða í leikhúsunum.
Sameiginleg ferðalög urðu mörg á langri ævi, bæði utan lands og innan. Má þar nefna veiðiferðir svo og fjölda sumarleyfisferða víða um lönd. Vissulega er ofar í minni það sem nær er í tíma, svo sem heimsóknir til þeirra hjóna Birgis og Sonju til Flórída, þar sem þau áttu sér athvarf á efri árum.
Margar fleiri minningar um vinatengsl okkar á langri ævi geymi ég í hugskoti mínu meðan mér endist líf og heilsa.
Birgir var mikill gæfumaður í sínu einkalífi og átti góða og glæsilega eiginkonu, Sonju, sem kvödd var hinstu kveðju í október sl. Saman stóðu þau hjón vörð um stóra og stækkandi fjölskyldu, en Sonja var framúrskarandi móðir og húsmóðir.
Að leiðarlokum kveðjum við Esther góðan vin með söknuði um leið og við vottum öllum afkomendum, svo og tengdabörnum þeirra hjóna, okkar dýpstu samúð.
Þorsteinn Júlíusson.
Við Birgir Ísleifur þekktumst síðan við vorum í menntaskóla ungir sveinar í Heimdalli. Hann var nokkru eldri en ég og ég fann þá þegar að af honum var mikils að vænta. Hann var prúðmannlegur í framkomu, rökfastur og fylginn sér í málflutningi og bjó yfir léttum húmor. Ég hef raunar tekið eftir því að svo er oft um góða músíkanta, hvort sem það er djass eða klassík nema hvort tveggja sé, að þeim eru öguð vinnubrögð eðlileg og svo var um Birgi Ísleif. Það kom engum á óvart að þegar á unga aldri skipaði hann sér í forystusveit Sjálfstæðisflokksins og naut þar mikils trúnaðar og óskoraðs trausts sem borgarstjóri, alþingismaður og ráðherra og síðar seðlabankastjóri. Þegar Geir Hallgrímsson lét af formennsku í Sjálfstæðisflokknum kaus ég Birgi Ísleif sem arftaka hans.
Það var létt yfir þessu síðasta spjalli okkar Birgis Ísleifs. Við náðum vel saman eins og jafnan og fórum yfir söguna í grófum dráttum, ræddum menn og málefni eins og gamlir stjórnmálamenn gera. Og Birgir Ísleifur hafði orð á því að okkur hefði aldrei greint á, sem er rétt. Þess vegna var hreinskilni og heiðríkja yfir þessari stund sem ég leit ekki á sem kveðjustund af því að ég ætlaði að koma aftur von bráðar. Við áttum svo margt ótalað. En Birgir Ísleifur kvaddi áður en svo gat orðið. Með honum fór góður drengur og öndvegismaður. Guð blessi minningu hans og Sonju.
Halldór Blöndal.
Ég var heldur ekki laus við vott af tortryggni í hans garð. Hann var fyrrverandi borgarstjóri og menntamálaráðherra, en ég var fullur efasemda um hve heppileg sú ráðstöfun væri að gera fyrrverandi stjórnmálaforingja að bankastjóra Seðlabankans. Taldi að forystumenn í stjórnmálum væru ekki endilega þeirrar gerðar sem þyrfti til þegar ákvarðanir væru teknar um gengi eða stöðugleika í peningamálum. Þetta álit mitt reyndist ófullkomið þar sem Birgir Ísleifur átti í hlut. Á þeim tíma var samstarf bankaráðsformanns og formanns bankastjórnar allnáið. Fundum okkar bar því nokkuð oft saman. Frá því er skemmst að segja að samstarf okkar varð farsælt. Ég fékk það á tilfinninguna að sá varnagli sem hann kann að hafa slegið gagnvart mér hafi linast með tímanum. Mér varð það skjótt ljóst að þarna fór maður sem vandaði sig að megni og kastaði ekki til höndunum þegar ákvarðanir voru teknar.
Ég geri ráð fyrir því að störf og ábyrgð bankastjóra og bankaráðs Seðlabankans hafi breyst undanfarna áratugi. Fjármálaumhverfið hefur umturnast og þar með verksvið og starfsumgjörð bankans. Eflaust er nú í fleiri horn að líta en meðan gengi krónunnar var bundið sérstökum ákvörðunum, verðbréfahöndlun í barnaskónum og fjármálahreyfingar landa á milli ekki fullkomlega frjálsar. Á starfstíma Birgis var endanlega losað um nánast öll höft og gengi krónunnar gefið frjálst. Í framhaldi af því hófst hrunadansinn. Þetta fjármálafrelsi var ríkjandi fjármálaspeki í mörgum vestrænum löndum. Það hafði hömluleysi í för með sér. Við vorum öll vanbúin að þekkingu og reynslu til að glíma við þessar gjörbreyttu aðstæður. Þar dugði ekki vandvirkni Birgis þótt mikilvæg væri. Í þessu nýja framandi fjármálaumhverfi ríktu hnattrænir meginstraumar sem bornir voru uppi af pólitískri hagfræði sem lagði línurnar þegar peningastefnan var ákveðin. Framhaldið er þekkt.
Á milli okkar Birgis Ísleifs þróaðist gott persónulegt samband. Fundir okkar voru alltaf þægilegir og ánægjulegir. Þegar hist var í vinnuferðum eða af öðru tilefni var einn af föstum dagskrárliðum að Birgir Ísleifur settist við píanóið og tók smá djasssveiflu öllum til mikillar ánægju. Hann létti alltaf lund okkar. Tíminn sem ég starfaði með Birgi Ísleifi og þeim seðlabankamönnum er mér minnisstæður og þegar honum lauk var söknuður í huga mér. Fráfall Birgis minnir mig enn sterklegar á að þessu ánægjulega tímabili ævi minnar er óumflýjanlega lokið. Það daprar mig. Að leiðarlokum eru mér þakkir efst í huga fyrir farsælt samstarf og ánægjuleg kynni okkar Birgis Ísleifs.
Samúð okkar hjóna er hjá afkomendum hans.
Þröstur Ólafsson.
Elstur í þessum hópi var Birgir Ísleifur Gunnarsson, sem var borgarfulltrúi og formaður SUS þegar Miðvikudagsklúbburinn varð til. Honum hefur verið treyst fyrir mörgum ábyrgðarstörfum á lífsleiðinni. Hann var borgarfulltrúi, borgarstjóri, alþingismaður, menntamálaráðherra og loks seðlabankastjóri auk þess sem hann gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa. Öllum störfum sínum sinnti Birgir af alúð og dugnaði. Hann var laus við tildur, barst lítt á og skaraði ekki eld að sinni köku. Hann var fagurkeri, sinnti listum og bókmenntum og las mikið. Frá unga aldri lék hann á píanó og við minnumst með ánægju stunda þegar hann lék af innlifun verk djassmeistaranna.
Birgir Ísleifur veiktist fyrir nokkrum árum og var lengi ljóst hvert stefndi. Af æðruleysi beið hann þess að kallið kæmi. Fram á síðasta dag fylgdist hann vel með og ræddi málin með þeirri íhygli sem einkenndi hann alla tíð. Þegar Sonja, eiginkona hans, veiktist og lést hinn 5. október sl. eftir stutta banalegu var hann strax reiðubúinn til endurfunda við hana. Þau kynntust á unglingsárunum og voru ávallt afar samrýnd og samhent.
Við, félagarnir í Miðvikudagsklúbbnum, kveðjum samherja og kæran vin. Við þökkum fyrir öll samskiptin og minnumst hans með hlýju og virðingu. Börnum, tengdabörnum og barnabörnum vottum við okkar dýpstu samúð.
Björgólfur Guðmundsson, Eggert Hauksson, Friðrik Sophusson, Jón Magnússon, Ólafur B. Thors, Páll Bragi Kristjónsson, Pétur Sveinbjarnarson, Ragnar Tómasson, Sigurður Hafstein og Valur Valsson.
Birgir var þegar þarna var komið í kringum sextugt og þeir mannkostir hans sem ég kynntist slípaðir af reynslunni. Hann var yfirvegaður í stefnumótun og átökum við verkefnin. Honum lét vel að vinna með öðrum að farsælum lausnum mála, setti ekki sjálfan sig í fyrsta sæti og gaf öðrum svigrúm. Hann var hófstilltur í orðum en gat sett í þau virðulegan þunga ef á þurfti að halda. Þessir kostir nýttust Birgi vel í starfi seðlabankastjóra. Viðfangsefnin voru kannski ekki eins erfið og í aðdraganda og eftirmálum fjármálakreppunnar. Það er hins vegar óhjákvæmilegt að erfið mál komi upp í flóknu starfi og á löngum ferli. Birgir fékk sinn skerf af slíkum án þess að það hafi allt komist í hámæli.
Þrátt fyrir virðulegt fasið var Birgir lúmskur húmoristi og skemmtilegur á góðum stundum. Oft var þá Sonja honum við hlið og píanóið ekki langt undan. Ég minnist í þessu sambandi móttöku í sendiráði Íslands í Washington vorið 2005 sem haldin var í tilefni af vorfundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Ég sótti fundina fyrir hönd Alþjóðagreiðslubankans í Basel og Elsa var með í för. Það urðu fagnaðarfundir þegar við hittum Birgi og Sonju. Birgir var að sækja fundina í síðasta sinn og Helgi Ágústsson sendiherra flutti hjartnæma kveðjuræðu. Birgir svaraði fyrir sig með því að leika á píanóið og tilfinningin skilaði sér fullkomlega.
Birgir starfaði í Seðlabankanum í fjórtán ár og lauk þar starfsævi sinni. Ég þóttist skynja að Birgir hafi verið ánægðastur með þennan hluta starfsævinnar. Hann hélt tryggð við bankann eftir að hann lét af störfum. Hann mætti vel á samkomur á vegum bankans sem honum var boðið á og lék þá yfirleitt á als oddi. Sjálfur þakka ég fyrir það samband sem við Birgir áttum eftir að ég lét af störfum sem aðalhagfræðingur. Hann sótti fundi seðlabankastjóra sem haldnir voru í Basel og kom þá stundum heim til okkar Elsu. Síðast hitti ég hann á heimili hans fyrr á þessu ári. Það var síðla eftirmiðdags og við spjölluðum margt. Hann sagði mér frá málum á sinni seðlabankastjóratíð sem ég vissi lítið um áður. Mér þótti jafnvel enn meira til hans koma.
Ég kveð mikinn höfðingja. Við Elsa vottum fjölskyldu Birgis samúð vegna fráfalls hans en einnig Sonju. Þau voru samrýnd og hún axlaði byrðar starfsins með honum. Forlögin höguðu því þannig að þau kvöddu með stuttu millibili.
Már Guðmundsson.
Hugmyndir, hvatar og frumkvæði að þessum umbótum komu vitaskuld ekki aðeins frá Seðlabankanum sjálfum – hér komu t.d. margar ríkisstjórnir að verki auk þess sem samningurinn um evrópskt efnahagssvæði skipti miklu. Það breytir því þó ekki að það var undir forsjá Birgis Ísleifs Gunnarssonar sem þeim var hrundið í framkvæmd. Hann starfaði alls með átta öðrum bankastjórum á þessum tíma og naut þess frábæra starfsfólks sem Seðlabankinn hafði á að skipa. Sá Seðlabanki sem hann yfirgaf þegar hann lét af störfum var gerólíkur þeim sem hann gekk inn í árið 1991.
Birgir var einstaklega dagfarsprúður og lipur í allri umgengni og samskiptum við starfsfólk og miðlaði af reynslu sinni og kunnáttu af hógværð og með vinsamlegum ábendingum. Hann var mildur stjórnandi – þó líka fastur fyrir og ákveðinn þegar þess var þörf. Hann naut bæði vinsælda og virðingar innan bankans. Orð hans höfðu alltaf þyngd. Birgir og eiginkona hans, Sonja Backman, héldu alla tíð góðum tengslum við Seðlabankann eftir að Birgir lét af störfum og á meðan þau höfðu heilsu til.
Ég vil fyrir hönd Seðlabankans og starfsfólks hans þakka Birgi fyrir ákaflega vel unnin störf í þágu bankans og votta ættingjum hans innilega samúð.
Ásgeir Jónsson.
Birgi Ísleifi kynntist ég er ég réðst til starfa í Seðlabanka Íslands. Það var ljóst hverjum sem hitti hann að þar færi afar vandaður maður. Maður sem væri annt um virðingu bankans og legði ómælda áherslu á vandaða starfshætti. Þegar hann talaði var hlustað. Á móti kunni hann að hlusta á aðra og sýna samstarfsfólki virðingu, bæði í orðum og gjörðum.
Seðlabankastjóratíð Birgis Ísleifs var stórmerkileg. Í hans tíð var verðbólgumarkmið tekið upp formlega, sem skilgreint stöðugt verðlag með 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum, fjármálastöðugleikasvið sett á laggirnar og öll útgáfumál Seðlabankans bætt, svo þau yrðu sambærileg því sem best þótti erlendis. Útgáfumálin vöktu reyndar athygli út fyrir landsteinana, þar sem hagfræðingar lofuðu bankann fyrir útgáfu þjóðhagsspár, peningamála, fjármálastöðugleika, hagvísa og annarra greina sem voru mikilvægar fyrir hagkerfi Íslands.
Birgir Ísleifur lagði ríka áherslu á að rækta samskiptin við alþjóðahagkerfið og naut sín á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem fulltrúi Norðurlanda- og Eystrasaltsríkja. Þar naut hann mikillar virðingar og trausts meðal seðlabankastjóra, enda var nærveran einstök og framkoman fáguð. Orðspor hans í menntamálaráðuneytinu er sambærilegt, þar sem hann þótti grandvar og vinna sitt starf einstaklega vel. Á stuttum skipunartíma, frá árinu 1987 til 1988, lagði hann m.a. fram frumvörp sem urðu að lögum um framhaldsskóla, lögum um Kennaraháskóla Íslands og lögum um Listasafn Íslands.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi snemma á ferlinum að vinna og fylgjast með Birgi Ísleifi. Einnig var ég gæfurík að kynnast konu Birgis Ísleifs, Sonju Backman, sem er nýfallin frá. Hún var einstök; hlý og hyggin. Umhyggja þeirra hjóna fyrir fjölskyldu sinni og stolt var eftirtektarverð. Þau lögðu mikla áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar og samband þeirra var fallegt. Sonja og Birgir lifðu fyrir að auðga samfélagið sitt, hvort sem það var á sviði hagstjórnar, menningar- eða menntamála.
Ákveðin töfrastund varð til þegar Birgir Ísleifur settist við píanóið og spilaði djass. Hann vissi allt um djass og hafði mikil áhrif á samferðafólk sitt í þeim efnum eins og fleirum. Ég þakka Birgi Ísleifi fyrir traustið og ferðalagið. Minning um góðan mann lifir.
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.