Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Íslendingar skera sig úr með áberandi hætti meðal OECD-ríkjanna í mikilli notkun þunglyndislyfja, sem er langtum meiri hér en í nokkru öðru landi samkvæmt nýjum samanburði OECD. Íslendingar hafa um árabil notað þunglyndislyf mest OECD-þjóðanna en í nýrri skýrslu OECD um stöðu heilbrigðismála í aðildarlöndunum, Health at a Glance, kemur fram að notkunin hér á landi færist enn í aukana og var 141 dagskammtur á hverja þúsund íbúa árið 2018. Meðalnotkunin í OECD-löndunum var hins vegar á sama tíma 103 dagskammtar. Kanada kemur á hæla Íslands með 110 dagskammta þunglyndislyfja á hverja þúsund íbúa.
Birt er mikið magn upplýsinga um heilbrigðismál í skýrslu OECD. Þar kemur m.a. fram mikill munur á útgjöldum til heilbrigðismála í aðildarlöndunum mæld sem hlutfall af landsframleiðslu. Útgjöldin á seinasta ári voru mest í Bandaríkjunum eða 16,9% af vergri landsframleiðslu. Heilbrigðisútgjöldin á Íslandi voru lítið eitt undir meðaltali OECD-landanna eða 8,3% af landsframleiðslu og er 21 land fyrir ofan Ísland á þeim lista.
Aukin áfengisneysla en færri reykja daglega
Þegar bornir eru saman áhættuþættir heilbrigðis meðal þjóðanna kemur í ljós að enn dregur úr reykingum meðal íbúa OECD-landanna en mikill munur er þó á daglegri tóbaksnotkun milli landa.
Að meðaltali reykja 18% fullorðinna íbúa OECD-landa daglega en reykingar eru hvergi minni í Evrópu en á Íslandi. 8,6% fullorðinna Íslendinga reykja og hefur þeim fækkað frá árinu á undan þegar 9,7% fullorðinna reyktu daglega. Aðeins tvö lönd, Ísland og Mexíkó, eru undir 10% markinu í daglegum tóbaksreykingum.
Íslendingar eru nálægt meðaltalinu meðal íbúa OECD þegar áfengisneysla fullorðinna er borin saman milli landa og er að meðaltali 7,7 lítrar á hvern íbúa 15 ára og eldri hér á landi. Það er aukning frá árinu 2016 þegar fullorðnir Íslendingar neyttu að jafnaði 7,5 lítra af hreinum vínanda.
Töluverður munur er einnig á offitu meðal fullorðinna samkvæmt skýrslu OECD. Mikill meirihluti fullorðinna Íslendinga eða 65,5% telst vera of þungur samkvæmt samanburðinum, sem er nokkru yfir meðaltali 36 aðildarríkja OECD (58,2%).
Samanburður á sjúkrastofnunum og heilbrigðiskerfum landanna leiðir m.a. í ljós að á árinu 2017 voru 3,1 sjúkrarúm á hverja þúsund íbúa á Íslandi en að meðaltali voru 4,7 sjúkrarúm á hverja þúsund íbúa í OECD-löndunum á því ári. Eru 25 lönd fyrir ofan Ísland í samanburði á fjölda legurýma skv. skýrslunni.
Fjöldi starfandi lækna á Íslandi miðað við íbúafjölda er aðeins fyrir ofan meðaltal OECD-landanna eða 3,9 á hverja þúsund íbúa. Að meðaltali voru 3,5 læknar á hverja þúsund íbúa í OECD-löndunum.
Hjúkrunarfræðingar eru mun fleiri hér sem hlutfall af íbúafjölda eða 14,5 hjúkrunarfræðingar á hverja þúsund íbúa samanborið við 8,8 að meðaltali í löndum OECD. Hér voru 3,7 hjúkrunarfræðingar á hvern lækni, samanborið við 2,7 að meðaltali í OECD. Hlutfall hjúkrunarfræðinga af íbúafjölda er eingöngu hærra en hér á landi í Sviss og Noregi.