Marteinn Guðjónsson fæddist í Reykjavík þann 27. desember 1936. Hann lést eftir skammvinn veikindi á Hrafnistu í Hafnarfirði 19. október 2019.
Foreldrar hans voru Guðjón Marteinsson, sjómaður, f. 7.11. 1903, d. 11.2. 1976, og Steinunn Guðbjörg Árnadóttir, húsmóðir, f. 18.6. 1898, d. 11.7. 1990. Þau eignuðust þrjá syni en Þorsteinn, f. 1933, og Hafsteinn, f. 1934, létust báðir í frumbernsku.
Marteinn ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, lærði bifvélavirkjun, lauk sveinsprófi og öðlaðist síðan meistararéttindi í þeirri grein og vann um tíma hjá Ræsi í Reykjavík. Hann lauk prófi í véltæknifræði frá Sønderborg Teknikum í Danmörku og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá KHÍ. Marteinn starfaði hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli, vann við hönnun og eftirlit á hitaveitum á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði, hafði eftirlit með byggingu á Búrfellslínu 2, Hrauneyjafossvirkjun og byggðalínu frá Sigöldu um Jökuldali að Eldgjá og vann að verkefninu Tækniaðstoð við íslenskan skipasmíðaiðnað. Hann starfaði á verkfræðideild Flugleiða og var kennari í stærðfræði og faggreinum málmiðna við Iðnskólann í Hafnarfirði, hafði eftirlit með nýbyggingum hjá Byggingafulltrúanum í Reykjavík og var í seinni tíð til aðstoðar við yfirsetu prófa hjá Háskólanum í Reykjavík. Marteinn var formaður kjaradeildar Tæknifræðingafélags Íslands, sat í stjórn Skíðadeildar KR, í Skíðaráði Reykjavíkur og Skíðasambandi Íslands, var ritari og varaformaður í aðalstjórn KR og formaður hússtjórnar KR. Marteinn var mikill náttúruunnandi.
Marteinn bjó í Hafnarfirði frá árinu 1984.
Eftirlifandi eiginkona Marteins er Gerður Hannesdóttir, f. 1.2. 1941, frá Akureyri. Hún er dóttir Hannesar J. Magnússonar, f. 22.3. 1899, d. 18.2. 1972, rithöfundar og skólastjóra, og Sólveigar Einarsdóttur, f. 29.8. 1905, d. 11.5. 1976, kennara og húsmóður.
Marteinn og Gerður giftu sig 7.7. 1962 og eignuðust þau þrjú börn: 1) Guðjón, f. 7.8. 1964, kvæntur Hafdísi Huld Steingrímsdóttur, f. 12.2. 1969, þeirra börn eru Atli, f. 27.3. 1991, Sif, f. 24.9. 1995, Bjarki, f. 8.3. 1998, Bergur, f. 29.11. 2003, og Víðir, f. 19.1. 2005. 2) Halla Björk, f. 7.5. 1966, gift Pétri Heiðari Baldurssyni, f. 30.11. 1965, þeirra börn eru Birkir Þór, f. 6.4. 1997, og Marteinn, f. 3.6. 2005. 3) Hannes Jón, f. 27.11. 1974, kvæntur Hörpu Hrönn Grétarsdóttur, f. 1.11. 1974, þeirra börn eru Guðni, f. 6.8. 2005, Smári, f. 1.11. 2007, og Sólrún Eva, f. 12.3. 2010.
Útför Marteins fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. nóvember 2019, klukkan 13.
Þá er komið að kveðjustund, pabbi minn. Það var erfitt að horfa upp á veikindi þín undanfarið, en sem betur fer stóðu þau stutt yfir. Það er ekki lengra síðan en um páskana í fyrra að þið mamma voruð með okkur á skíðum í Bláfjöllum. Þó að heilsunni hafi hrakað eftir það hélduð þið mamma ykkar striki og fóruð í ótal göngutúra, ekki síst sl. sumar í blíðunni í Hafnarfirði.
Maður getur verið þakklátur fyrir að fá langa og góða ævi, heilsuhraustur með þeim sem manni þykir vænt um. Lífið er ekki eitt ferðalag, heldur mörg. Einstakt ferðalag með mömmu í 60 ár er örugglega mikilvægasta ferðalagið þitt. En þau voru fleiri.
Þegar ég hugsa til baka koma upp í hugann minningar um alla útiveruna. Auðvitað Skálafellið, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp að stórum hluta þar. Svo allar ferðirnar norður á Akureyri á sumrin að heimsækja fjölskylduna hennar mömmu, oftast yfir Sprengisand, sjaldnast þjóðveginn. Allar tjaldútilegurnar og ferðalögin sem við fórum í bæði innanlands og erlendis. Þú elskaðir að vera á fjöllum, á skíðum eða gangandi. Hálendið var uppáhaldsstaður þinn og síðustu ár hefur verið gaman að fylgjast með ykkur mömmu, alltaf að skipuleggja ferðalög um landið sem þér þykir svo vænt um og sem þú hefur ferðast svo mikið um. Á ferðalögum ykkar bæði hérlendis og erlendis hafið þið kynnst mörgu fólki. Þið hafið boðið alla velkomna til ykkar og verið boðin og búin að sýna fólki landið okkar. Allir velkomnir hvort sem það voru erlendir vinir okkar eða aðrir sem þið hittuð á ferðalögum ykkar um landið.
Í gegnum tíðina hefur verið gott að fá stuðning ykkar mömmu í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Aldrei efasemdir, alltaf hvatning. Ekki einu sinni þegar mér datt í hug að fara á skíði um mitt sumar í Njarðvíkunum, þá náðir þú í skíðin út í bílskúr og röltir með mér á skíðunum um grasflötina fyrir utan húsið okkar.
Þú varst afskaplega stoltur af öllum barnabörnunum, lagir þig fram við að fylgjast vel með þeim bæði í skólanum og í þeirra tómstundum. Sýndir þeim stuðning með því að mæta á tónleika og íþróttamót og ég veit að þú er ánægður með að öll kunna þau að renna sér á skíðum.
Strákarnir mínir allir eins og þú sagðir alltaf, Heiðar, Birkir Þór og Marteinn, skila kveðju.
Nú er komið að leiðarlokum og þú ert farinn í þitt síðasta ferðalag.
Góða ferð, pabbi minn.
Halla Björk Marteinsdóttir.
Marteinn var einstaklega jákvæður og hress maður, góður félagi og mikill útivistarmaður sem hreif menn með sér í ferðalög og til góðra verka.
Þegar starfsheitið tæknifræðingur varð löggilt seint á sjötta áratug síðustu aldar var Marteinn einn af þeim fyrstu sem fóru til Danmerkur og lauk þaðan prófi í véltæknifræði.
Hann starfaði m.a. víða á hálendinu við virkjanir og línulagnir þeim tengdar. Við þau störf sameinaði hann útivistaráhugann og tækniþekkinguna.
Við þökkum fyrir vináttuna og samverustundirnar á liðnum áratugum og vottum eiginkonu og fjölskyldu Marteins okkar innilegustu samúð.
Baldvin Ársælsson,
Kolbeinn Gíslason,
Kristján Birgir Kristjánsson.
Kveðja frá Skíðadeild KR
Í dag kveðjum við góðan félaga í Skíðadeild KR, Martein Guðjónsson, sem við KR-ingar þekktum ávallt sem Matta. Matti gekk ungur til liðs við KR og fyrst fara sögur af honum í gamla KR-skálanum við Grensgil í Skálafelli. Hann varð fljótt góður skíðamaður og keppti bæði innanlands sem á erlendri grundu.Gamli KR-skálinn brann árið 1955 og þá tóku við miklir framkvæmdatímar hjá skíðadeildinni. Nýr skíðaskáli var reistur á árunum 1956-1959 og fyrsta varanlega skíðalyfta á Íslandi árið 1961. Var Matti ötull liðsmaður í sveit þeirra dugmiklu ofurhuga sem reistu þessi mannvirki af myndarskap sem eftir var tekið.
Matti lærði bifvélavirkjun í Ræsi og hélt síðan utan til náms í véltæknifræði. Eftir heimkomuna tók hann upp þráðinn hjá skíðadeildinni og vílaði ekki fyrir sér að keyra sunnan úr Njarðvík með alla fjölskylduna. Síðar þegar uppbygging austursvæðisins í Skálafelli hófst árið 1974 varð hann einnig þátttakandi í henni af lífi og sál. Auk starfa fyrir skíðadeildina tók Matti að sér störf fyrir aðalstjórn KR. Hann var varaformaður félagsins um fjögurra ára skeið og síðan formaður hússtjórnar KR í Frostaskjóli um árabil. Fyrir störf sín var hann sæmdur gullmerki KR með lárviðarsveig.
Seinni árin tók Matti fram gönguskíðin og mátti þá sjá hann snúast í kringum börn og barnabörn í keppni og leik í Skálafelli.
Matti var mikill KR-ingur og bar hag félagsins ávallt fyrir brjósti. Hann var mjög félagslyndur og alltaf jákvæður í allri umgengni. Hann hafði gaman af að kynnast fólki, þekkti alla með nafni og fylgdist alltaf vel með félögum deildarinnar á hvaða aldri sem þeir voru. Hans verður minnst með miklum söknuði.
Við í Skíðadeild KR munum sakna Matta og að leiðarlokum þökkum við honum samfylgdina. Hann skilur eftir sig stórt skarð í hópnum og margar góðar minningar. Við sendum Gerði, börnum hans og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í sorg sinni. Far þú í friði góði félagi.
Guðmundur Guðjónsson,
formaður Skíðadeildar KR.