Veiðar Rafrænt eftirlit getur haft marga kosti en ekki er ljóst hvort tæknin er nógu góð.
Veiðar Rafrænt eftirlit getur haft marga kosti en ekki er ljóst hvort tæknin er nógu góð. — Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson
Kostur rafrænna eftirlitskerfa er að þau geta veitt eftirlit á öllum bátum og skipum sem stunda veiðar.

Kostur rafrænna eftirlitskerfa er að þau geta veitt eftirlit á öllum bátum og skipum sem stunda veiðar. Einnig sé eftirlitið tengt staðsetningarbúnaði sem getur kortlagt nákvæmlega hvar atvik eiga sér stað auk þess sem eftirlitsbúnaðurinn sé ávallt hlutlaus í störfum, er meðal þess sem kom fram í máli Jónasar R. Viðarssonar, faglegs leiðtoga á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís, í gær á málstofu um rafrænt eftirlit með fiskveiðum á sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu.

Þá sagði Jónas ljóst að kostnaður við rafrænt eftirlit væri talsvert minni miðað við það að hafa mannskap sem framkvæmir eftirlitið. Til að mynda hafa rannsóknir sýnt að kostnaður við eftirlit með 100% af fiskiflota mun kosta 102 til 247% meira sé það framkvæmt með eftirlitsmönnum í stað rafræns búnaðar. Jafnframt væru talsverðar líkur á að eftirlitið myndi draga verulega úr brottkasti.

Hins vegar getur slíkur búnaður ekki greint innihald í maga fisks eða aðra þætti sem hægt er að skoða þegar mannshendur eru annars vegar, útskýrði hann og benti einnig á að ávallt myndi þurfa fólk til þess að meta gögnin sem búnaðurinn býr til. Þá þarfnast slíkt eftirlit talsverðs tæknilegs utanumhalds auk þess sem það þurfi talsverða fjárfestingu í upphafi. Að lokum benti hann á að einnig væri álitamál hvort rafrænt eftirlit uppfyllti persónuverndarkröfur.

Leifur Magnússon, sviðsstjóri upplýsingatækni hjá Fiskistofu, sagði enn marga þætti koma í veg fyrir að hægt væri að treyst rafrænu eftirliti að fullu meðal annars vegna þess hve gervigreindin á bágt með að greina myndefni með nægilega áreiðanlegum hætti.

Hann útilokaði þó ekki að við ákveðnar aðstæður gæti slík tækni hentað vel. „En eins og staða tækninnar er nú mun hún ekki geta komið í stað eftirlits manna,“ sagði hann og benti meðal annars á að myndavélar gætu átt erfitt með að greina vigt á grundvelli mynda auk tegunda. gso@mbl.is