Afli Fiskmarkaðir hafa ýmsa kosti.
Afli Fiskmarkaðir hafa ýmsa kosti. — Morgunblaðið/Ómar
„Fiskmarkaðir auðvelda aðilum að hefja veiðar og að hefja vinnslu með því að tryggja sölu hráefnis og tryggja aðgengi að hráefni,“ sagði Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs og prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, á...

„Fiskmarkaðir auðvelda aðilum að hefja veiðar og að hefja vinnslu með því að tryggja sölu hráefnis og tryggja aðgengi að hráefni,“ sagði Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs og prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, á málstofu um mikilvægi fiskmarkaða á sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu sem lauk í gær.

Fram kom í erindi hans að eftir að fiskimarkaðir tóku að starfa 1986 jókst verð sem seljendur fengu í sinn hlut sérstaklega borið saman við verð í Noregi, nú er almennt verð hærra en í Noregi.

Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var sammála Daða Má og sagði „fiskmarkaði mikilvægan lið í að stýra hráefni þangað sem það nýtist best.“ Þá hafi íslenska kerfið með tilheyrandi skilvirkni vakið athygli víða erlendis að sögn hans.

Þá benti Sveinn á í erindi sínu að strax eftir stofnun markaðina hafi það magn sem rataði inn á markaðina vaxið ört. „Ör vöxtur á fyrstu árum sýnir mikilvægi markaðina,“ sagði hann og sýndi fram á að 40% af ýsu sem landað er á Íslandi fari á markaðina, yfir 50% af steinbít og yfir 60% af skarkola. Hins vegar hafi dregið nokkuð úr þorski sem fer á fiskmarkaðina. Sýnir þetta að mikilvægi fiskmarkaða sé mismikið eftir tegundum og að þeir sérstaklega mikilvægir fyrir þær tegundir sem veiddar eru í minna magni, að sögn prófessorsins.

Telur hann markaðina tryggja samkeppni í vinnslu og geri útgerðum kleift að losa sig við minni fisk og aukategundir, auk þess sem þeir veita möguleika útgerða til þess að jafna út skammtímasveiflur eftir tegundum og stærð. Samhliða þessu gera markaðirnir íslenskum fyrirtækjum auðveldara að sérhæfa sig, sem um sinn eykur samkeppnishæfni, sveigjanleika og aðlögunarhæfni, að mati Sveins.

gso@mbl.is