[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fulltrúar Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans meta nú hvort svigrúm sé til vaxtalækkana eftir vaxtalækkun Seðlabankans.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fulltrúar Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans meta nú hvort svigrúm sé til vaxtalækkana eftir vaxtalækkun Seðlabankans.

Seðlabankinn lækkaði meginvexti um 0,25% í síðustu viku.

Frá undirritun lífskjarasamninganna í byrjun apríl hafa meginvextir lækkað úr 4,5% í 3%. Eitt meginmarkmið kjarasamningsins var að stuðla að vaxtalækkun.

Hafa fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar þrýst á bankana að skila vaxtalækkunum SÍ til neytenda.

Hjá Íslandsbanka fékkst það svar að bankinn væri að skoða þessi mál en að ákvörðun lægi ekki fyrir.

Fulltrúi Landsbankans sagði bankann ekki hafa tekið ákvörðun um breytingu á vöxtum sem byggðist á nýjustu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Von væri á vaxtaákvörðun fljótlega. Þá sagði fulltrúi Arion banka að bankinn væri að meta stöðuna eftir síðustu vaxtalækkun SÍ.

Mikið breyst á skömmum tíma

Kjartan Broddi Bragason, hagfræðingur hjá IFS-greiningu, telur vaxtalækkanir SÍ munu endurspeglast í lækkandi vöxtum íbúðalána.

„Á síðustu árum hafa breytilegir vextir á íbúðamarkaði fylgt skilgreindum markaðsvöxtum nokkuð vel. Á aðeins tveimur þremur árum hafa markaðsvextir lækkað tiltölulega mikið og hefur það endurspeglast í vaxtakjörum breytilegra lána með tilheyrandi lægri greiðslubyrði lántaka. Lán með föstum vöxtum til lengri tíma hafa ekki fylgt þessari þróun jafn vel. Ljóst er að þegar miklar breytingar eiga sér stað á tiltölulega skömmum tíma – eins og innlendur vaxtamarkaður hefur gengið í gegnum – má gera ráð fyrir að einhverjir vaxtaverkir fylgi slíkum breytingum. Þannig hafa lánveitendur í sumum tilvikum hert útlánareglur á síðustu mánuðum og aðkoma lífeyrissjóðanna að fjármögnun fasteignakaupa heimilanna hefur aukist mikið síðustu misseri.

Það er því okkar mat að ef vaxtastig á landinu er almennt komið á mun lægri stað til frambúðar en aðeins fyrir fáeinum árum muni það endurspeglast í lækkandi vöxtum íbúðalána. Þetta ferli getur hins vegar tekið smátíma,“ sagði Kjartan.

Hafa skilað lægri vöxtum

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, sagði of snemmt að fullyrða hvort vaxtalækkun Seðlabankans mundi skila sér í lægri vöxtum af íbúðalánum.

Það kunni að skapast tregða gegn vaxtalækkun í fjármálakerfinu.

„Það gæti orðið einhver tregða gagnvart vaxtalækkunum. Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa þó verið að skila sér í lægri vöxtum af íbúðalánum undanfarið. Sama má segja almennt í útlánavöxtum til fyrirtækja og heimila sem og innlánsvöxtum.

Vegnir innlánsvextir fyrirtækja og heimila eru um þessar mundir rétt um 2%. Það er því talsvert svigrúm til lækkunar þar enn. Miðlunarferlið ætti því ekki að vera heft af þeim sökum,“ segir Ingólfur.