Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Eftir Þorvald Jóhannsson: "Í atvinnu- og efnahagslegu tilliti var Seyðisfjörður allt í einu orðinn stórveldi umfram flesta aðra staði landsins og mikilvægur tengiliður við útlönd."

Svohljóðandi staðfesting um bæjarstjórn á Seyðisfirði var kunngerð 8. maí 1894: „Vér, Cristian hinn níundi af guðs náð Danmerkur, konungur Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, gjörum kunnugt: Alþingi hefur fallizt á lög þessi og vér staðfestum þau með samþykki voru. Landshöfðingi gjörir ráðstöfun til að lög þessi geti öðlast fullt gildi 1. dag janúarmánaðar 1895.“

Þá eru íbúar 840

Fimm árum síðar, aldamótaárið 1900, eru þeir 1.164. Reykjavík, Akureyri og Ísafjörður voru fyrir kaupstaðir á Íslandi. Seyðisfjarðarkaupstaður var þeirra fámennastur. Það var því ekki fjölmennið sem réð því að hann fékk kaupstaðarréttindin heldur miklu fremur hin gróskufulla atvinnuuppbygging staðarins, sem byggðist upp á undraskömmum tíma, og tengsl hans við Norðurlöndin og þar með meginland Evrópu. Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaða óvíða betri. Síldin og Norðmenn ruddu brautina. Í atvinnu- og efnahagslegu tilliti var Seyðisfjörður allt í einu orðinn stórveldi umfram flesta aðra staði landsins og mikilvægur tengiliður við útlönd. Oft fyrsti viðkomustaður erlendra skipa sem sigldu til Íslands og viðskiptin við útlendinga áttu mikinn þátt í því að efla verslun og atvinnulíf. Fram til komu Norðmanna hafði Austurland verið afskekktur landshluti enda fjarlægastur höfuðstað Íslands, Reykjavík. Almenningur í öðrum landshlutum vissi lítið um Austurland.

Norðmenn komu landshlutanum á kortið

Brátt varð á allra vitorði að óvíða á landinu væri meira um að vera en einmitt þar. Seyðfirsku fréttablöðin áttu þar stóran hlut að máli eftir að þeirra naut við. Norska var töluð á Búðareyrinni, danska á Öldunni, íslenska á Vestdalseyrinni var skrifað. Tryllitækið reiðhjól, heldrimannasport, var nýjung. „Hér ríða menn mikið og vel,“ skrifar ritstjórinn, Þorsteinn Erlingsson. Nöfn fjarðanna fyrir austan urðu nú alkunn í skjótri svipan. Stórhugur einkenndi einstaklinga og þá sem stjórnuðu bænum. Um það vitna m.a. gömul norsk timburhús og mannvirki á staðnum: Wathneshús Ottós 1894; Garðarsfélagið hafskipabryggja 1897; nýtískulegt sjúkrahús 1898; fyrsta vatnsveita í þéttbýli 1903; glæsileg skólabygging 1907; vélsmiðja Jóhanns Hanssonar 1907; Fjarðarselsvirkjun 1913, fyrst til að rafvæða og lýsa þéttbýli; sæsíminn sem tengdi Ísland við Evrópu kom í land á Seyðisfirði 1906. Pósthús, símstöð, apótek, ljósmyndastofa, klæðskeraverkstæði, bakarí, prentsmiðja, skósmiður, gosdrykkjaverksmiðja, ölstofur og öflugt menningar- og listalíf var meðal þess sem nærðist strax vel í alþjóðabænum á upphafsárunum.

Höfnin var og er lífæðin

Erfiðar landsamgöngur hafa verið hindrun fyrir atvinnulíf og búsetuþróun. Hafnaraðstaðan hefur því verið lífæðin, aðdráttaraflið og burðarvirkið í að endurreisa Seyðisfjörð aftur og aftur eftir endurtekin áföll. Nægir þar að nefna stríðsárin 1940-45 þegar bandamenn settu niður birgðastöð fyrir flota sinn á Seyðisfirði. Fjöldi hermanna rúmlega þrjú þúsund. Aðstaða fyrir herinn og varnir í landi og á sjó settu svip á allt mannlíf á staðnum. Næg atvinna í boði. Svo fór herinn. Þegar síldin synti frá Norðurlandi austur fyrir Langanes tók Seyðisfjörður við af Siglufirði sem stærsti síldarbær landsins 1960-69. Mikil verðmæti sköpuðust þar fyrir þjóðarbúið. Og svo hvarf síldin. Í þorskastríðinu hafði höfnin hlutverk, s.s. til viðveru varðskipa okkar og viðgerðar laskaðra og dómtekinna landhelgisbrjóta. Þorskastríðinu lauk. Þegar fastar siglingar farþegabílferju voru teknar upp milli Íslands og Evrópu 1975 kom ekki á óvart að Seyðisfjarðarhöfn varð fyrir valinu. Nú, 45 árum síðar, er þessi eina gátt landsins sjóleiðina enn opin. Á síðasta áratug 20. aldar var hún ein öflugasta uppsjávaraflahöfnin. Í dag er hún ein af fjórum fjölsóttustu skemmtiferðaskipahöfnum landsins.

Tíminn líður hratt

Nú þegar kaupstaðurinn verður 125 ára á nýársdag nk. má m.a. lesa í kynningum: Perla í lokaðri skel. Þar sem fossarnir syngja og furðufuglar fæðast. Þú getur átt á hættu að elska, skemmta þér látlaust, finna þig verða fyrir hughrifum, dansa eða liggja látlaust og sleikja sólina. Gestir segja að hann sé skemmtilegur, sérstakur, skrýtinn, listrænn, fallegur, opinn, þenkjandi, alltumlykjandi, furðulegur, svakalegur, friðsæll, dásamlegur, fyndinn, vinalegur, dularfullur og skapandi.

Nýtt hlutverk bíður nú kaupstaðarins og íbúa hans. Þeir hafa nýlega kosið að gerast þátttakendur í nýju öflugu samfélagi og verða hluti af tæplega fimm þúsund íbúa sveitarfélagi á Austurlandi. Kaupstaðarnafnið sem íbúarnir hafa stoltir haldið á lofti í 125 ár verður nú lagt til hliðar. Nýtt nafn verður valið á hið nýja sameinaða sveitarfélag, en fátt fær því breytt að Seyðisfjörður verður áfram á sínum stað í samnefndum firði með sitt öfluga alþjóðlega mannlíf og heldur vonandi áfram að blómstra á milli Bjólfs og Strandatinds. Fjarðarheiðargöngin, „óskabarnið“, eru nú loksins komin í augsýn. Seyðfirðingar bjóða framtíðina og nýja íbúa velkomna í fjörðinn sinn og nýja sveitarfélagið.

Kaupstaðnum kæra er þökkuð þjónustan og samfylgdin í 125 ár.

Höfundur er fv. bæjarstjóri, nú eldri borgari á Seyðisfirði. brattahlid10@simnet.is